Everton vs. Leyton Orient (deildarbikar)

Mynd: Everton FC.

Á morgun er fyrsti bikarleikur tímabilsins; deildarbikarleikur í annarri umferð við Leyton Orient sem hefst kl. 18:45. Everton hefur mætt Leyton Orient átta sinnum, sigrað fjórum sinnum og tvisvar gert jafntefli. Liðin hafa þó ekki leikið síðan Paul Gascoigne lék með Everton en það var í FA bikarnum fyrir 11 tímabilum síðan (Everton vann 4-1). Þess má jafnframt geta að þetta er tíundi bikarleikurinn í röð þar sem Everton fær heimavöllinn (þegar horft er framhjá hlutlausum völlum á borð við Wembley).

Í deildarbikarnum í fyrra (sem hét þá Carling Cup) unnum við Sheffield United 3-1 á heimavelli og svo West Brom 2-1 með mjög svo eftirminnilegu glæsimarki frá Neville. Everton mætti svo Chelsea á Goodison í næstu umferð þar sem varamarkverðir liðanna voru óþægilega mikið áberandi og bæði lið klúðruðu víti. Fyrst kom það í hlut Anelka en eftir að Kalou náði að skora fyrir Chelsea (eftir skelfileg frammistöðu hjá okkar varamarkmanni, Mucha) lét Turnbull, varamarkvörður Chelsea, reka sig út af. Peter Cech kom þá inn á og hans fyrsta verk var að verja vítaspyrnuna frá Baines en Saha náði að lokum að jafna fyrir Everton. Everton var betri aðilinn í leiknum eftir það, alveg þangað til Drenthe lét reka sig út af að óþörfu og þá snerust leikar og Chelsea náði að sigra með marki frá Sturridge í framlengingu.

Það verður annars fróðlegt að sjá hvernig tímabilið í ár kemur til með að spilast. Ef þetta heldur áfram eins og verið hefur (í fyrstu tveimur deildarleikjunum) verður væntanlega minni áhersla lögð á deildarbikarinn og allt kapp á að komast í meistaradeildina eða að komast langt í FA bikarnum. Steve Round, hefur þó gefið út að Everton muni taka þessa bikarkeppni alvarlega og velja sterkt lið til að mæta Leyton Orient. Samt finnst mér líklega að allavega nokkrir leikmenn á jaðrinum fá að spila, enda venja hjá flestum liðum í þessari bikarkeppni.

Eini leikmaðurinn sem er meiddur, svo vitað sé, er Tony Hibbert, en hann var fjarri góðu gamni í síðasta leik og hans brottfall var jafnframt eina breytingin í síðasta leik en Naismith kom inn á í staðinn og Osman og Neville voru færðir til á vellinum (Naismith tók stöðu Osman á hægri kanti, Osman tók við af Neville á miðjunni og Neville fór í hægri bakvörðinn). Miðað við það sem heyrst hefur frá félaginu og Steve Round þá finnst mér líklegt að Mirallas fái leik í byrjunarliðinu og alls ekki ólíklegt að Heitinga, Coleman, Barkley, Gueye og/eða Anichebe fái séns og jafnvel Mucha. Ætla að öðru leyti að láta vera að skjóta á byrjunarlið.

Öðrum Úrvalsdeildarliðum gekk annars ágætlega í annarri umferð, fyrir utan Fulham og Stoke en Fulham tapaði 1-0 fyrir Sheffield Wednesday og Stoke tapaði 3-4 fyrir Swindon. Önnur Úrvalsdeildarlið unnu: QPR vann Walsall 3-0, Southampton vann Stevenage á útivelli 1-4, Sunderland vann Morecambe 2-0, Swansea vann Barnsley 3-1, West Ham vann Crewe 2-0, West Brom vann Yeovil á útivelli 2-4, Reading vann Peterborough 3-2 og Villa vann Tranmere 3-0.

En þá að öðrum málum en svo virðist sem unglingalið Everton hafi ekki fengið skilaboðin um það að Everton væri hætt að byrja tímabilin illa, en bæði U21 og U18 ára lið Everton töpuðu gegn West Ham á dögunum.

Í lokin má svo geta þess að Steve Round sagði að Everton væri á höttunum eftir fleiri leikmönnum til að styrkja aðallið Everton en gaf ekki upp hverjir væru í sigtinu (sagði reyndar að Moyes hefði ekki minnst orði á Michael Owen, eins og okkur flest grunaði). Hinn 17 ára Niang er þó ekki inni í myndinni þar sem hann ku hafa samið við AC Milan.

32 Athugasemdir

  1. Halli skrifar:

    Það á að taka allar keppnir af fullum þunga og spila til sigurs alltaf gaman að spila um titla sér í lagi á Wembley

  2. Eyjolfz skrifar:

    Er einhver búinn að finna stream fyrir leikinn í kvöld? 😉

  3. Elvar Örn skrifar:

    Ég held hann sé hvergi sýndur og þá hvergi á netinu. Ef menn finna hann einhvers staðar þá má endilega senda link hérna. Ég læt vita ef ég finn hann.

  4. Elvar Örn skrifar:

    Það er verið að bendla okkur við þrjá skota og enn og aftur Owen en ég hef nú enga ofurtrú á skotunum, hmmm. Vildi frekar frá Owen heldur en ekkert því við höfum bara 22 í hópnum en megum hafa 25, if you get my drift.
    Er viss um að Moyse nái amk einum inn fyrir lok gluggans sem er eftir 2 daga að ég held.

    • Eyjolfz skrifar:

      Tilgangslaust að fá Owen, hann er alltaf meiddur. Þá er skynsamlegra að fá skota sem sætta sig við að sitja á bekknum.

    • Finnur skrifar:

      Ef þetta heldur áfram þá stefnir í að Rangers menn fái loks að upplifa draum sinn um að fá að leika í Úrvalsdeildinni ensku — en undir merkjum Everton þó. 🙂

  5. Tóti skrifar:

    Mirallas skorar !

  6. Finnur skrifar:

    Mikið rétt: 1-0 Everton eftir aðeins stundarfjórðung (leiknum var frestað til kl .7)

  7. Finnur skrifar:

    Naismith átti stoðsendinguna. 🙂

  8. Teddi skrifar:

    Góður guttinn að skora í fyrsta byrjunarliðsleiknum.

  9. Finnur skrifar:

    2-0!! Osman!

    • Finnur skrifar:

      Baines gaf fyrir og fór í hælinn á Mirallas og þaðan til Osman í góðu færi! 🙂

      — sem þýðir að Mirallas er kominn með mark og stoðsendingu! 🙂

      Sýnist þetta vera einstefna hingað til (25. mín). 8 skot að marki sem Everton hefur átt, þar af 6 á markið, og tvö horn. Engin skot/horn frá Leyton O.

  10. Finnur skrifar:

    3-0 Everton — Mirallas!! 🙂

    Oooh! Why, oh why — af hverju er þessi leikur ekki í beinni! 🙂

  11. Tóti skrifar:

    Anichebe skorar ! …okay ..er haettur ad tilkynna morkin ….hef ekki tima i thetta hahaha

    • Finnur skrifar:

      Hahahaha! 🙂

      4-0 — ekki slæmt! Vonandi sýna þeir markasúpuna strax eftir leikinn (highlights). 🙂

      • Finnur skrifar:

        Mirallas með stoðsendinguna. Vonandi verður hann jafn sprækur í Úrvalsdeildinni. 🙂

  12. Finnur skrifar:

    Hahaha!!! Rakst á eftirfarandi tilvitnun: „Jan Mucha is playing Angry Birds on his phone, can’t blame him.“ 🙂

  13. Finnur skrifar:

    4-0 í hálfleik. Lofar góðu. 🙂

  14. Elvar Örn skrifar:

    Hægt að hlusta á Live Commentary á EvertonFC síðunni. Mirallas með tvö mörk og tvær stoðsendingar og við hefðum getað verið 7 eða 8 mörkum yfir í hálfleik. Alger einstefna. Segi það sama af hverju er leikurinn ekki sýndur, grrrr.

  15. Finnur skrifar:

    5-0 Gueye!

  16. Finnur skrifar:

    Hmm… Everton einum færri – Neville að fara út af meiddur og Moyes búinn með skiptingarnar. Hibbo vonandi góður í næsta leik!

  17. Finnur skrifar:

    Leiknum lokið með 5-0 sigri Everton.
    „It’s a grand old team…“

  18. Elvar Örn skrifar:

    Magnað að mörkin hafi skipst milli fjögurra manna og að Mirallas hafi náð tveimur mörkum og tveimur stoðsendingum. Það verður gaman að sjá uppstillinguna í næsta leik þar sem við mætum W.B.A. á útivelli að mig minnir. Eitthvað segir mér að maður verði límdur við skjáinn. Sigur í næsta leik væri alveg magnað og hver veit nema þetta verði árið sem bikar kemur í hús. Í byrjun leiktíðar þá skrifaði ég þessa setningu á Facebook „Það er eitthvað stórkostlegt í uppsiglingu hjá Everton :)“, held ég sé nú bara farinn að trúa því.

  19. Finnur skrifar:

    Eins og ég sagði í kommenti á leikskýrslunni:
    Búið er að opna fyrir löngu highlights-in (tæpar 20 mín)
    http://www.evertonfc.com/evertontv/home/7696
    Hægt að finna styttri líka.