Styttist í tímabilið

Mynd: Everton FC.

Þar sem Java bikarkeppnin í Indónesíu féll niður bjuggust margir við því að Everton myndi nota vináttuleikina við Hereford og Tranmere (sá síðarnefndi í úrslitum Liverpool Senior Cup) sem æfingu fyrir aðalliðið en svo fór þó ekki. Það var ungt lið sem mætti aðalliði Tranmere og tapaði 2-1 í fjörugum leik. Everton komst yfir með skoti frá Vellios eftir horn en Tranmere jafnaði úr víti frá James Wallace, sem er okkur að góðu kunnugur. Tvö víti fóru annars forgörðum í leiknum (eitt hjá hvoru liði), þar með talið eitt frá ungliðanum McAleny þegar aðeins 10 mínútur voru eftir en Tranmere náði svo að komast yfir á lokamínútunum. Það voru nokkrir sem hafa verið á jaðrinum við að komast í aðalliðið sem fengu mínútur í leiknum, til dæmis Duffy, Vellios, Barkley, Coleman og Rodwell en hægt er að sjá svipmyndir úr leiknum á Everton TV.

Í staðinn lék aðallið Everton við búlgörsku meistarana Ludogorets Razgrad en leikurinn var skipulagður með litlum fyrirvara og fór fram fyrir luktum dyrum. Baines kom Everton yfir með marki úr vítaspyrnu sem Anichebe fiskaði en búlgarska liðið jafnaði þegar um 20 mínútur voru eftir af leiknum. Mörkin urðu ekki fleiri og 1-1 jafntefli staðreynd.

Næsti leikur er væntanlega við Blackpool á sunnudaginn en uppselt er á leikinn og tíminn líður einfaldlega ekki nógu hratt fyrir Jagielka sem bíður spenntur eftir leiknum, enda hefur hann misst af góðum parti af undirbúningstímabilinu þar sem hann var með enska landsliðinu.

Fjórir Everton leikmenn eru komnir í fjórðungsúrslit knattspyrnunnar á Ólympíuleikum, en Magaye Gueye komst í átta liða úrslit með Senegal eftir 1-1 jafntefli gegn Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Þeir mæta svo Mexíkóum á laugardaginn. Jafnframt eru þrjár úr kvennaliði Everton einnig komnar áfram, þær Jill Scott, Rachel Brown og Fara Williams og mæta Kanada á föstudag.

Í öðrum fréttum er það helst að leikmenn eru mjög kátir að fá Pienaar aftur, Neville fór mörgum fögrum orðum um Tony Hibbert í útvarpsviðtali, klúbburinn staðfesti að verið væri að reyna að ljúka félagaskiptum Yobos til Fenerbache, og ungliðinn Luke Garbutt setur markið hátt (að ná Baines úr liðinu).

Comments are closed.