Naismith skrefinu nær

Mynd: Everton FC.

Steven Naismith er skrefi nær því að verða fullgildur leikmaður í liði Everton en FIFA gaf út tímabundið leyfi fyrir hann til að spila með Everton á meðan leyst er úr deilumálinu við Rangers. Fastlega er búist við því að leyfið verði gert endanlegt, enda fordæmi fyrir því að leikmenn séu leystir undan samningi þegar lið fara í þrot, nema þeir semji við félagið sem reist er úr rústum þess gamla. Naismith hefur verið að jafna sig af meiðslum og hefur litið vel út í æfingum undanfarið en Moyes sagði á dögunum að hann myndi fara sér að engu óðslega með Naismith. Naismith er að sögn Moyes um 2 vikum eftir á í æfingaplaninu en margir aðrir og að hann muni líklega aðeins gefa honum 15 mínútur af spilatíma til að byrja með. Það er aldrei að vita nema Naismith komi inn á í lok leiksins gegn Motherwell, sem hefst kl. 12:30 á eftir að íslenskum tíma. Motherwell er, eins og kunnugt er, í undirbúningi fyrir meistaradeildina þannig að þeir eru verðugir andstæðingar og taka leikinn örugglega mjög alvarlega.

Það er alltaf gaman að sjá hverjir standa upp úr í þessum undirbúningsleikjum og reyna að átta sig á því hvernig byrjunarliðið verður þegar að leiknum við Man United kemur. Seamus Coleman var besti maður vallarins í síðasta leik gegn Dundee og skóp markið (sem Barkley skoraði með skalla) með því að fara tvisvar illa með varnarmann Dundee og senda svo fyrir markið. Coleman ætlar því greinilega ekki að gera Naismith auðvelt fyrir að taka af sér hægri kantstöðuna. Mig grunar að ef hann heldur sér fríum frá meiðslum þá ætti Coleman að geta komist aftur í sama form og hann var í á sínu fyrsta tímabili þegar hann var valinn ungi leikmaður ársins hjá Everton. Bæði hann og Gibson hafa annars verið kallaðir til liðs við írska landsliðið sem mætir Serbum í vináttuleik í næsta mánuði.

Comments are closed.