Stund milli stríða

Mynd: Everton FC.

Það er stund milli stríða núna og leikmenn og stjórar liðanna í stuttu fríi. Því er fátt annað að gera fyrir blaðamenn en að skálda upp sögur um hina og þessa leikmenn sem eiga að vera að koma og fara frá félaginu. Lítið við því að gera en að leiða það hjá sér og bíða eftir staðfestingu frá klúbbnum.

Ein slík barst á dögunum en ungliðinn Adam Forshaw (tvítugur miðjumaður) var seldur til Brentford fyrir ótilgreinda upphæð á dögunum en hann hefur verið lánsmaður hjá þeim um tíma. Forshaw hafði verið á mála hjá Everton frá 8 ára aldri en aðeins átt þátt í tveimur leikjum með aðalliðinu. Hann var valinn varaliðsmaður ársins á síðasta tímabili.

Ég verð þó að viðurkenna að þó ég leiði hjá mér mesta slúðrið þá hafði ég lúmskt gaman af því að lesa um að Everton hafi boðið í landa okkar Björn Bergmann Sigurðsson. Líklega ekkert til í því, en gaman að velta því fyrir sér.

Þó hlé sé á deildinni eru (eða hafa verið) nokkrir leikir á dagskrá hjá leikmönnum Everton, mest megnis vináttulandsleikir í aðdraganda Evrópukeppninnar en einnig á Everton þónokkra leikmenn í landsliðum yngri flokka. Svo má jafnframt geta þess að ungliðinn og vinstri bakvörður okkar Luke Garbutt, sem er í láni hjá Cheltenham, spilar brátt á Wembley en hann átti þátt í því að Cheltenham á nú möguleika á að komast upp um deild.

Í öðrum fréttum er það helst að varnarjálkurinn Distin (34 ára) fékk framlengingu á samningi sínum um eitt ár. Hann hefur verið traustur í vörninni um nokkurt skeið núna og ekki sýnt nein „ellimerki“ þannig að maður hefði á erfitt með að trúa því ef honum hefði verði neitað um framlengingu.

Hér í lokin er svo skemmtileg tölfræði frá klúbbnum (sjá hér) unnin upp úr gögnum úr leikjum á síðasta tímabili og einnig mjög ítarleg greining frá Executioner’s Bong (sjá hér). Ég ætla sjálfur að láta vera að skrifa yfirlit yfir tímabilið og læt nægja að vísa í Everton síðurnar sem hafa birt sín yfirlit: Klúbburinn sendi frá sér þetta yfirlit (brotið niður eftir mánuðum — sjá mánaðar-linka hægra megin) og Graeme Sharp sendi frá sér sitt í tveimur hlutum (1. hluti og 2. hluti). NSNO sendi frá sér þetta yfirlit og Blue Kipper sitt í tveimur hlutum (1. hluti og 2. hluti). Executioner’s Bong sendi einnig frá sér yfirlit yfir tímabilið almennt (ekki bara Everton).

Rúsínan í pylsuendanum er svo fréttir um það að Þórarinn Jóhannsson hefur verið að vinna ötult að því að skipta út vefkerfinu á everton.is fyrir nýtt og mun betra kerfi og fríska upp á útlitið í leiðinni. Ég á von á því að nýja kerfið verði mun auðveldara í notkun fyrir þá sem vilja segja álit sitt á greinunum en eins og núverandi kommentakerfi er heldur þungt í vöfum. Það sér fyrir endann á þeirri vinnu Þórarins og vonumst við til þess að geta sett það í loftið innan tíðar.

Comments are closed.