Átta leikmenn á förum frá félaginu

Mynd: Everton FC.

Átta Everton leikmenn eru ekki lengur samningsbundnir félaginu en þeir eru James McFadden, markvörðurinn Marcus Hahnemann, Royston Drenthe, Denis Stracqualursi og unliðarnir Connor Roberts, Aristoto Nsiala, Femi Orenuga og markvörðurinn Adam Davies.

Það er nokkur eftirsjá af lánsmanninum Drenthe þó ljóst væri eftir nokkur agabrot að hann myndi fara. Hæfileikar hans hafa ekki farið framhjá mörgum þar sem þeir voru augljósir en það verður að vera hægt að treysta á menn á ögurstundu og má eiginlega segja að hann hafi átt nokkurn þátt í því að við duttum út úr báðum bikarkeppnum á tímabilinu (rautt í deildarbikarnum á móti Chelsea og svo mætti hann ekki í undirbúningnum í undanúrslitunum gegn Liverpool sem leiddi til þess að Coleman þurfti að koma inn á á kantinum sem átti eftir að draga til á eftir sér í sigurmarkinu).

Það er líka nokkur eftirsjá af lánsmanninum Stracqualursi því maður vonaði innilega að hann ætti eftir að standa sig vel og að við myndum í kjölfarið kaupa hann. Hann var einbeittur í markmiði sínu að standa sig og um tíma leit út fyrir að hann væri að fara í gang (eftir nokkurn aðlögunartíma) en þá stimplaði Jelavic sig aldeilis inn í liðið og „Count Stracula“ fékk lítið að spila eftir það.

McFadden kom lítið við sögu á tímabilinu og Hahnemann spilaði ekki neitt þannig að maður lyfti ekki augabrúnum yfir þeirra starfslokum, sérstaklega ekki Hahnemann sem er að verða fertugur og því við lok síns fótboltaferils (sem leikmaður allavega). McFadden gæti mögulega átt nokkur ár eftir í neðri deildunum.

Ungliðarnir Davies, Roberts, Orenuga og Nsiala náðu aldrei að spila með aðalliðinu.

Comments are closed.