Wolves – Everton 0-0

Uppstillingin: Howard, Distin (vinstri bakvörður), Heitinga, Jagielka, Hibbert. Pienaar á vinstri kanti, McFadden á hægri, Cahill og Osman á miðjunni. Fellaini framliggjandi. Jelavic fremstur. Svipað og fólk átti von á nema maður hefði kannski búist við Coleman á hægri kanti frekar en McFadden en Coleman er greinilega enn úti í kuldanum eftir mistökin í bikarnum gegn Liverpool.

Þetta reyndist ekki mest spennandi leikur tímabilsins, ef svo má að orði komast. Við gerðum feykinóg til að vinna leikinn, skoruðum tvö mörk sem bæði voru dæmd af vegna rangstöðu, fyrst Jelavic á 27. mínútu (sem endursýning sýndi að var rangur dómur) og svo undir lok leiks þegar Stracqualursi böðlaði boltanum í markið en Fellaini var réttilega dæmdur rangstæður. Verra var þó þegar Osman var augljóslega felldur inni í teig Wolves en engin vítaspyrna dæmd. Ekki skrýtið að Moyes var brjálaður á hliðarlínunni nokkru síðar eftir enn einn rangan dóminn (sjá mynd).

Wolves voru slakir á heimavelli í dag og fengu á sig um 18 skot þar af 10 sem rötuðu á markið en aðeins eitt skota Wolves rataði á markið hjá Howard, eiginlega alveg eins og í fyrri leik liðanna á Goodison Park (sem við unnum 2-1). Við vorum meira með boltann og mun meiri atgangur við mark Wolves en við mark Everton en einhvern veginn vantaði drápseðlið í Everton liðið og við ekki að klára færin. Það eina sem vantaði í raun var mark frá Everton en þar sem það gerðist ekki þá endaði þetta með jafntefli. Wolves urðu guðslifandi fegnir að tapa ekki 10. leiknum á heimavelli í röð en þar með hefðu þeir jafnað alræmt met Sunderland.

Sky Sports hefur ekki gefið út einkunnir ennþá fyrir þennan leik, þegar þetta er skrifað.

Everton á Newcastle um næstu helgi á Goodison í síðasta leik tímabilsins. Newcastle koma grimmir til leiks og verða að sigra til að eiga séns á Meistaradeildinni. Everton þarf að vinna til að tryggja að við endum ofar en Liverpool. Þetta verður hörkuleikur. 🙂

Comments are closed.