Nikica Jelavic var valinn leikmaður aprílmánaðar í ensku Úrvalsdeildinni. Króatinn lipri spilaði þrjá af fjórum deildarleikjum Everton í apríl og skoraði tvö mörk í þeim öllum og varð þar með fljótasti leikmaður Everton síðustu 100 árin til að ná 10 mörkum (næstfljótastur frá upphafi en metið á Jack Southworth sem hann setti árið 1893). Og að auki skoraði Jelavic mark í bikarleiknum í apríl þannig að afraksturinn reyndist 7 mörk í fjórum leikjum. Hann fær verðlaunin afhent fyrir lokaleikinn við Newcastle á Goodison Park um næstu helgi og er vel að þeim heiðri kominn.
Og þá að ungliðunum en U18 lið Everton lék við Bootle í undanúrslitum Liverpool Senior Cup. Þeir lentu 1-0 undir en ungstirninu George Green var þá skipt inn á og lagði hann upp jöfnunarmarkið stuttu síðar með stoðsendingu á Hallam Hope. Þannig endaði venjulegur leiktími (og framlengingin sömuleiðis) og Everton hafði betur 6-5 eftir vítaspyrnukeppni. Úrslitaleikurinn verður við Tranmere. Liverpool Senior Cup er bikarkeppni skipuð utandeildarliðum (sem spila með aðalliðið sitt) og þremur atvinnumannaliðum: Everton, Tranmere og Liverpool, sem tefla fram vara/unlingaliði. Fyrst var leikið í Liverpool Senior Cup árið 1883 en Everton hefur unnið þessa keppni oftast allra liða, eða 45 sinnum, og Liverpool kemst þar næst (40 sinnum).
Varaliðsdeildinni var jafnframt að ljúka á dögunum og lenti Everton í þriðja sæti norður-riðils.
Comments are closed.