Stoke – Everton 1-1

Ég átti eiginlega í mestu erfiðleikum með að skrifa um þennan leik. Tim Cahill sagði fyrir leikinn að það væri erfitt að hlakka til að mæta Stoke og ég verð eiginlega sem áhorfandi að vera algjörlega sammála honum. Ekki endilega af því að Stoke eru með svo öflugt og skemmtilegt lið, heldur af því að leikir við Stoke enda alltaf í einhverjum hægagangi og hundleiðinlegum bolta. Rory Delap að taka hundraðasta innkastið í leiknum og nota til þess þrjár mínútur í hvert skipti á meðan hann bónar boltann með þessu handklæði sem hann er með falið undir skyrtunni. Hvað er eiginlega í gangi með það? Eru Stoke menn svo snobbaðir að þeir geta ekki skallað nema gljáfægðan bolta?? Eða hafa þeir ekki úthald í hlaupin og verða að nota hvert tækifæri í að róa leikinn niður til að hvílast??

Báðir leikir dagsins voru sýndir í einu (Liverpool – Fulham á minni skjánum) og það tók ekki nema 5 mínútur fyrir Liverpool að skora sjálfsmark. Ekki grátum við það. Anichebe vildi fá víti á 9. mínútu en fékk ekki. Everton menn voru ekki á einu máli eftir endursýningu hvort það væri víti þannig að kannski ekki skrýtið að dómarinn sleppti því.

Á meðan Stoke var í hálf-færum og skotum langt utan við teig átti Osman skot á markið (varið) en hann átti ein þrjú skot samtals á markið en alltaf varið (hann hefði mátt vanda skotin betur en má þó reyndar eiga það að hann er að hitta markið). Jelavic og Pienaar skutu báðir rétt yfir í sæmilega hættulegum færum. Gueye átti skot rétt framhjá úr þröngu færi eftir vandræðagang í vörn Stoke.

Á 44. mínútu fengum við aukaspyrnu ekki langt frá miðju. Pienaar sendir til hægri á Hibbert sem sendir háan bolta inn í boxið og þar eru leikmenn Stoke í einhverjum pinball leik með boltann sem endar á því að Crouch skorar sjálfsmark með andlitinu. Annar Liverpool maðurinn til að skora sjálfsmark í dag. Ekki grátum við það heldur. Verðskuldað 0-1 fyrir Everton í hálfleik, þó markið hefði verið sjálfsmark.

Hundleiðinlegur hálfleikur að baki og sá seinni lítið betri. Það var þó ekki fyrr en á seinni þriðjungi leiksins sem Stoke skiptir þremur inn á og stuttu síðar nær varamaður Stoke (Jerome) að komast einn fram gegn þremur leikmönnum Everton og er nokkuð heppinn með hvernig boltinn skoppar af mönnum þar sem hann böðlast einhvern veginn upp völlinn gegnum vörnina. Hann endar svo á að skjóta boltanum í Jagielka sem rennir sér í tæklingu fyrir skotið svo boltinn breytir stefnu og fer yfir Howard í markinu og boltinn í netið. Týpískt Stoke. Ekkert að gerast og svo allt í einu böðla þeir boltanum í markið. 1-1. Og þannig endaði leikurinn. Við vorum allan tímann líklegri til að setja boltann í netið og Stoke eiginlega eingöngu að ógna úr föstum leikatriðum (ekkert nýtt þar svo sem) eða að reyna að fiska víti.

Mér fannst eiginlega allir leikmenn Everton leika undir getu í þessum leik (nema kannski Howard sem hafði ekki mikið að gera í markinu) og léttleikinn og spilið ekki til staðar eins og verið hefur í undanförnum leikjum. 12 mörk í síðustu þremur leikjum og uppskeran aðeins eitt sjálfsmark í þessum leik. Þurfum að gera betur. Samt, 1 stig á útivelli á meðan Liverpool leyfði Fulham að sigra í sínum fyrsta deildarleik í Liverpool-borg frá upphafi tíma, ef þulirnir hafa rétt fyrir sér. Ég veit að Fulham hefur aldrei unnið deildarleik gegn Everton og þeir komust aldrei nálægt því um helgina þegar við rótburstuðum þá 4-0 og hefðum getað skorað fleiri.

Hvað um það. Everton liðið ósigrað í sjö deildarleikjum og aðeins tveir leikir eftir. Við fjarlægjumst Liverpool með hverjum leiknum sem líður (þó þeir vinni 3-0 eins og síðast). Grátum það lítið.

Einkunnir Sky Sports: Howard 6, Distin 6, Heitinga 6, Jagielka 6, Hibbert 6, Pienaar 8, Fellaini 6, Cahill 7, Osman 7, Anichebe 6, Jelavic 6. Varamenn: Strac 6, Gueye 6, McFadden 5. Stoke með 6 á línuna nema þrír varnarmenn með 7 og Crouch með 5.

Comments are closed.