Stoke vs. Everton

Á morgun (þri) klukkan 18:45 sækjum við Stoke heim á Brittania leikvöllinn.

Við þurfum að launa þeim lambið gráa eftir fyrri viðureign liðanna á Goodison sem fór 0-1, Stoke í vil, þar sem Stoke liðið lagði rútunni fyrir framan eigið mark og okkur sárvantaði miðjumann á borð við Pienaar til að hjálpa okkur að brjótast í gegn. Við þurftum því að reiða okkur á sendingar af köntunum en Stoke er einmitt það lið sem er einna best í stakk búið til að verjast slíku. Þulirnir ensku sögðu að Everton hefði átt að fá allt að þrjú víti í leiknum (gárungar sögðu að rúgbílið þeirra hefði mætt til leiks) en leikurinn réðist því á marki Stoke upp úr horni, sem í þokkabót var ólöglegt. Vonandi snýst karmað við á morgun. Við höfum skorað 4 mörk í þremur leikjum í röð, í fyrsta skipti síðan 1930-og eitthvað. Það væri ótrúlegt ef við gætum gert það fjórða leikinn í röð! Það sem skiptir þó mestu er að fá þrjú stig.

Everton hefur unnið Stoke 51 sinnum í heildina en tapað 31 sinnum (30 jafntefli) og Tony Pulis hefur aðeins fagnað sigri tvisvar með Stoke gegn Moyes. Við höfum fjórum sinnum spilað við Stoke í úrvalsdeildinni, unnið tvo, tapað einum og gert eitt jafntefli. Við höfum auk þess verið á góðu skriði í deildinni, þar af taplausir í 6 leikjum með markatöluna 18-6 og aðeins Norwich og Man United náð að skora gegn okkur. Ef farið er 15 deildarleiki aftur í tímann er aðeins að finna tvö töp. Jelavic er jafnframt búinn að skora 9 mörk í síðustu 7 leikjum fyrir okkur. Stoke aftur á móti eru taplausir í síðustu 5 heimaleikjum en hafa aðeins unnið einn af síðustu átta í deildinni.

Hjá okkur eru Rodwell og Baines frá og mig grunar að Gibson hafi fengið spark í síðasta leik sem leiddi til þess að honum var skipt út af í hálfleik. Uppstillingin því líklega: Howard, Distin (vinstri bakverði), Heitinga, Jagielka, Hibbert. Pienaar á vinstri, Fellaini og Neville á miðjunni (nema Gibson sé heill), Osman hægra megin. Cahill í holunni (eftir að hafa skorað mark í síðasta leik) og þögli leynimorðinginn (Jelavic), eins og Moyes kallar hann, frammi. Það er líka séns að Neville leysi Distin af hólmi (ef Gibson er heill) en ég á síður von á því. Hjá Stoke eru Mamady Sidibie, Andy Wilkinson og Salif Diao fjarri góðu gamni.

Hjá klúbbnum tóku menn saman tölfræði um hverjir hefðu verið fljótastir allra að ná 10 mörkum í mínútum talið og Jelavic er þar í fjórða sæti yfir þá fljótustu frá uppafi. Ef bara er horft til síðustu 100 ára, hins vegar, er Jelavic þó í efsta sæti, með 10 mörk per 910 mínútur leiknar. Hann skákar þar Kevin Campbell (1999) sem var með 12 mörk í 1016 mínútum (í þriðja sæti) og Fred Pickering (1964) í öðru sæti með 11 mörk í 955 mínútum. Listinn í heild sinni lítur svona út:

Tom Browell (1912) 7 583
Fred Geary (1889) 9 760
Jack Southworth (1893) 10 864
Nikica Jelavic (2012) 13 910
Fred Pickering (1964) 11 955
Kevin Campbell (1999) 12 1016
Alex Brady (1890) 12 1050

Ekki laust við að maður sé strax farinn að hlakka til næsta tímabils með Jelavic (og vonandi líka Pienaar) innanborðs! Leikurinn er annars í beinni á Stöð 2 og útsendingin hefst kl. 18:36. Sjáumst!

Comments are closed.