Við mætum Fulham kl. 14:00 í dag (lau) í fjórða síðasta leik tímabilsins. Fulham liðið er ávallt auðfúsugestur á Goodison Park en þeir hafa ekki unnið á Goodison Park síðan tímabilið 1974/75 (þá í FA cup). Í deildarleik hafa þeir aldrei unnið á Goodison Park frá stofnun félaganna! Líkur á heimavelli okkar (þ.e.a.s. sigur : jafntefli : töp) eru tæp 72% : 21% : 7% eftir 28 leiki. Everton hefur unnið báða leikina við Fulham á tímabilinu (1-3 úti og 2-1 heima í bikarnum, sjá mynd) en Fulham hafa tapað 19 deildarleikjum í röð á Goodison Park!
Við erum taplausir í síðustu 6 leikjum í deildinni, með markatöluna 16-6, okkur í vil, þar af 8 mörk í síðustu tveimur leikjum. Nikica Jelaic hefur aldeilis stimplað sig inn í liðið með 5 mörkum í síðustu þremur leikjum og 8 samtals frá því hann var keyptur í janúar. Fulham hafa reyndar verið líka í fínu formi í deildinni, með nýja markaskorarann Pogrebnyak sem þeir fengu til sín í janúar frammi og Dempsey hefur auk þess verið í fínu formi á tímabilinu þannig að þeir eru með einstaklinga sem geta skapað usla.
Baines og Rodwell eru enn meiddir þannig að uppstillingin verður líklega svipuð og í síðasta leik. Howard, Distin (í vinstri bakverði), Heitinga, Jagielka, Hibbert. Pienaar á vinstri kanti, Gibson og Neville á miðjunni. Osman á hægri kanti. Fellaini framliggjandi fyrir aftan Jelavic sem leiðir sóknina. Sumir hafa viljað sjá hvort Count Stracula sanna að hann geti virkað með Jelavic í t.d. 4-4-2 uppstillingu og ef svo ber undir myndi ég giska á að Neville/Distin fengju að hvíla (eftir því hvor tækji vinstri bakvarðarstöðuna). Ross Barkley hefur líka verið í fínu formi með unglingaliðinu þannig að það er aldrei að vita nema hann láti sjá sig, og Coleman kannski sömuleiðis á undir lokin á hægri kanti.
Ef Osman leikur í dag verður það 300. leikur hans fyrir Everton síðan hann kom inn á gegn Tottenham árið 2003. Ossie, eins og hann er gjarnan nefndur, hefur allan sinn feril verið á mála hjá félaginu en hann kom upp í gegnum akademíuna hjá Everton. Sama gildir um Hibbert, en hann leikur sinn 250. leik í dag, ef hann er valinn.
Hjá Fulham eru Zdenek Grygera, Steve Sidwell og Bryan Ruiz meiddir.
Í öðrum fréttum er það helst að við eigum fjóra í U19 ára hóp Englands sem tekur þátt í forkeppni Evrópukeppninnar. Þetta eru þeir Barkley, Lundstram, Garbutt og Dier en sá síðastnefndi er reyndar enn lánsmaður hjá okkur frá Sporting Lisbon. Þetta er í fyrsta sinn sem Dier og Lundstram eru valdir í hópinn.
Write comment (1 Comment)
Comments are closed.