Liverpool – Everton 2-1 (FA bikar)

Uppstillingin var nákvæmlega eins og ég átti von á; liðið sem vann Sunderland í bikarnum (ekki varaliðið sem vann Sunderland 4-0 í deildinni). Sem sagt 4-4-1-1: Howard, Baines, Distin, Heitinga, Neville. Miðjan: Gibson og Fellaini. Gueye á vinstri kanti, Osman á hægri. Cahill fyrir aftan Jelavic. Drenthe hvergi sjáanlegur, ekki einu sinni á bekknum en maður átti eftir að sakna hans pínulítið þegar leið á.

Í svona leikjum, með svona mikið í húfi, er þetta oft spurning um hvort liðið gerir fleiri mistök en í dag reyndist það vera Everton, því miður. Ég hafði áhyggjur af því (sérstaklega með Suarez á vellinum — [ræsis]rottuna sem sífellt leitar að smugu, eins og einn enski spekúlantinn kallaði hann í útsendingunni) að þetta myndi ráðast af einhverjum dómaraskandal en svo fór sem betur fer ekki, þrátt fyrir að Suarez reyndi sitt besta í að fiska Heitinga út af og hékk utan í honum eins og mannapi um tíma. Það var samt hjákátlegt að horfa upp á Liverpool leikmennina tuða yfir hverri _einustu_ ákvörðun dómarans, meira að segja þegar þeir fengu ekki brot út á það að Liverpool leikmaður skyldi þruma boltanum í hausinn á dómaranum á upphafsmínútunum. Shocking, I know! Þetta er algjört samsæri dómara gegn Liverpool, það er eina skýringin! Hvað um það, okkar menn létu sér fátt um finnast á meðan Liverpool menn tuðuðu í dómurunum.

Liverpool átti fyrsta skot að marki í leiknum en langt yfir. Engin hætta, en líf aðeins að færast í leikinn. Leikmenn staðráðnir að gefa ekki færi á sér og því varfærnin allsráðandi. Agger braut reyndar klaufalega á Jelavic sem gaf flotta aukaspyrnu frá Baines en hún endaði rétt yfir slána, ofan á marknetið; Brad Jones ekki líklegur til að verja það. Martin Skrýtla átti skot á markið utan úr teig, beint á Howard sem átti ekki í neinum erfiðleikum með að verja. Neville sólaði vinstri bakvörðinn (að ég held) og eftir smá þríhyrningsspil var hann kominn upp að marki og sendir á Jelavic sem reyndi hjólhestaspyrnu en tókst ekki.

Á 24. mínútu skoraði Everton fyrsta markið eftir skelfileg mistök í vörninni hjá Liverpool þar sem varnarmenn þeirra, Carragher og Agger, stóðu eins og aular sem vissu ekki hvor ætti að hreinsa. Annar tók loks af skarið og þrumaði boltanum í Cahill og boltinn barst til Jelavic í dauðafæri sem skoraði auðveldlega framhjá Brad Jones í markinu. Fyrsta skot liðanna sem rataði á markið, ef ég man rétt. Endursýning sýndi reyndar að Jelavic var líklega rangstæður þegar boltinn barst til hans (er virkilega rangstæða ef varnarmaður reynir að hreinsa en þrumar boltanum í andstæðinginn?). Hvað um það. Það munaði litlu og línumanninum örugglega fyrirgefið að meta þetta ekki rétt í hita leiksins. Auðvelt að vera vitur eftir á með hjálp endursýningar.

Gerrard átti skot af löngu færi, en hvergi nálægt markinu. Andy Carroll reyndi skalla eftir fyrirgjöf en hann virðist ekki einu sinni vita í hvaða átt hann eigi að snúa þegar hann skallar, fær boltann í hnakkann og boltinn aftur fyrir. Jelavic átti skot úr aukaspyrnu en framhjá.

Við bökkuðum heldur mikið við markið, allavega fyrir minn smekk, þegar Liverpool var með boltann en Liverpool átti samt fá svör í fyrri hálfleik og litu ekki út fyrir að vera fara að jafna. 1-0 fyrir Everton í hálfleik enda betri aðilinn.

Við döluðum nokkuð í seinni hálfleik og litum eiginlega ekki út fyrir að vera að fara að bæta við mörkum. Maður hafði það á tilfinningunni að ef jöfnunarmarkið kæmi gæti orðið erfitt að vinna sig upp úr því.

Á 57. mínútu sparkar Martin Skrýtla svo aftan í Jelavic í sókn Everton, fellir hann og dettur ofan á. Stígur svo viljandi á magann á Jelavic þegar hann stígur upp. En, eins og Dalglish hefur bent á þá er alltaf ákveðið samsæri í gangi gegn Liverpool og dómarinn dæmdi því að sjálfsögðu ekkert… ööö, bíddu, það er eitthvað sem stemmir ekki þarna.

Dauðafæri leit dagsins ljós hjá Andy Carroll í upphafi seinni hálfleiks, en hann gerði það sem hann gerir best — hitti ekki markið. Ennþá 1-0 fyrir Everton en þetta hefði átt að vera okkur næg viðvörun.

Það tók reyndar skelfileg mistök hjá Distin til að Liverpool næði að jafna en þeir höfðu pressað töluvert fram að því, án þess að uppskera neitt. Distin, sem hefur verið sem klettur í vörninni hjá okkur mjög lengi, reyndi sendingu á Howard af hægri kanti en allt of lítill kraftur í sendingunni og Suarez nær boltanum, kemst einn upp að marki á móti Howard og jafnar. Mark á silfurfati, algjörlega óþarfi. Staðan 1-1 á 62. mínútu. Lifnaði allt í einu yfir stuðningsmönnum Liverpool.

Útlitið nokkuð svart, en svo lengi sem það er jafnt út leikinn þarf maður ekki að óttast með Tim Howard í markinu í vítaspyrnukeppninni. Coleman inn á fyrir Gueye á 68. mínútu. Moyes er með einna bestan árangurinn í deildinni þegar kemur að innáskiptingum en þetta gekk ekki upp í þetta skiptið.

Annað dauðafæri hjá Andy Carroll í súginn. Ekkert nýtt þar. Jelavic átti skot, en í hliðarnetið.

Á 87. mínútu braut Coleman óþarflega á Gerrard á vinstri kanti nálægt hornfána og það reyndist afdrífaríkt (önnur stóru mistökin). Aukaspyrna sem Bellamy tekur. Fellaini valdar Andy Carroll en, einhverra hluta vegna er Fellaini út á þekju og stekkur ekki einu sinni upp í boltann. Andy Carroll gerir sitt besta til að hreinsa frá marki (með bakið í markið) en hittir boltann illa sem fer í hnakkann á honum og inn. 1-2 fyrir Liverpool og nánast ekkert eftir af leiknum til að jafna. Það er kannski hægt að nýta Andy Carroll betur á tímabilinu ef samherjar hans átta sig á því að þeir þurfa að sparka boltanum í hnakkann á honum. Fellaini í vörninni minnti á hvernig hann brást við aukaspyrnunni sem Arsenal skoraði úr á dögunum gegn okkar mönnum í 1-0 sigri þeirra. Sárt þegar maðurinn sem líklegastur er á vellinum til að vinna skallaeinvígi (Fellaini), stekkur ekki einu sinni upp. Þriðju stóru mistök okkar.

Og þannig enduðu leikar.

Hvorugt liðanna fékk mörg marktækifæri, sem hentaði Liverpool vel því Brad Jones virkaði mjög ótraustur í markinu og greinilegt að varnarmennirnir treystu honum ekki. Við getum þó bara sjálfum okkur um kennt því það voru röð mistaka sem skópu mörk Liverpool, frekar en einhver stórleikur hjá þeim. Þeir eru underdogs í úrslitunum ef þeir spila svona.

Einkunnir Sky Sports: Howard 5 (segja reyndar að hvorugt markið hafi verið honum að kenna), Baines 5, Heitinga 6, Distin 4, Neville 6, Gueye 5, Fellaini 6, Gibson 5, Osman 7, Cahill 6, Jelavic 7. Varamenn: Coleman 4, Anichebe 5. Liverpool fengu 6 á línuna, fyrir utan Agger og Carragher með 5, Gerrard og Downing með 7 og Suarez með 8.

Mér fannst Gibson og Howard eiga meira skilið í einkunnagjöfinni, Baines allavega 6 en Osman og Cahill kannski minna en þeir fengu. Á heildina litið minnti þetta helst á Norwich jafnteflisleikinn, sem var mikil vonbrigði innan um fantagóð úrslit en þar glutruðum við niður tveimur mörkum með lélegum varnarleik.

Við hefðum getað endað arfaslakt tímabil Liverpool snemma með sigri en í staðinn verður fókusinn bara settur á að vera fyrir ofan þá í deildinni. Sé ekki að þeir séu að fara að vinna FA bikarinn gegn sterkari liðum á borð við Tottenham/Chelsea, en það getur náttúrulega allt gerst í boltanum eins og Andy Carroll sýndi með því að skora tvo leiki í röð.

Comments are closed.