Liverpool vs. Everton (FA bikar)

Nú er bara einn dagur í undanúrslitin í FA bikarnum á Wembley og tilhlökkunin orðin veruleg.

Við virðumst vera að toppa á góðum tíma, Everton komið yfir Liverpool í deildinni og nú komið í undanúrslit FA bikarsins — bikarkeppnin sem liðin öll leggja kapp á að vinna. Formtaflan í deildarleikjum frá áramótum lítur mjög vel út en aðeins einn sigur og tvö mörk skilja að Everton (í 5. sæti) frá liðunum í 2.-3. sæti (Newcastle og Man City). Moyes gerði frábær kaup í janúarglugganum (og frábæra lánssamninga), sérstaklega kaupin á Jelavic sem virðist vera framherjinn sem liðið hefur sárvantað; kominn með mark að meðaltali í öðrum hverjum leik (5 mörk í 10 leikjum). Liðið auk þess farið að leika af miklu sjálfstrausti undanfarið, oft verið mun betri aðilinn í leikjunum og verið að sigra andstæðingana nokkuð öruggt. Til dæmis stóð ekki steinn yfir steini hjá síðustu mótherjum okkar, Sunderland, í leik sem endaði með stórsigri okkar manna, 4-0, án þess að Sunderland næði skot á markið. Og þar með hefur Everton skorað að minnsta kosti 2 mörk í síðustu 5 leikjum í röð, en þrír af þeim leikjum enduðu 2-0, einn 4-0 (og einn 2-2). Til gamans má jafnframt geta þess að eftir síðasta 4-0 heimasigur í deildinni (gegn Wigan) mættum við Man United á Wembley í undanúrslitum í FA bikarnum og höfðum þar betur (sjá mynd)! Lofar góðu.

Liverpool hefur dalað í deildinni frá áramótum og hafa minnt á blöðru sem lekur lofti. Liverpool væri í fallbaráttunni ef formtaflan, sem minnst var á hér að ofan, gilti til stiga. Þeir eru líka að gera sér svolítið erfitt fyrir en aðalmarkvörður þeirra, Pippi Reina, lét reka sig út af á dögunum og varamarkvörður þeirra, Dóninn, fór sömu leið aðeins tveimur leikjum síðar. Þriðji markvörðurinn, Brad Jones, kom inn á og mátti prísa sig sælann að fá ekki rautt líka eftir klaufaleg mistök í broti á Yakubu innan teigs (Yakubu skoraði úr vítinu). Held að einu markverðirnir sem hefðu þá verið eftir séu úr akademíunni hjá þeim og sameiginlegur leikjafjöldi Brad Jones og hinna tveggja með aðalliði Liverpool séu heilir þrír leikir. Það verður mjög spennandi að sjá Leighton Baines, sem er með einn besta vinstri fótinn í deildinni, taka aukaspyrnur á móti Brad Jones en Everton er mjög skeinuhætt úr föstum leikatriðum. Og ekki má gleyma Gibson heldur sem getur aldeilis skotið. Né Drenthe, eða Osman, eða Jelavic. Ég fæ hálfpartinn vatn í munninn við tilhugsunina.

Everton er með fullskipað lið fyrir utan Rodwell (sem næði hvort eð er ekki Gibson úr liðinu eins og Gibson hefur spilað) og Pienaar sem má ekki spila í bikarnum. Með fullskipað lið tókum við 4 stig af Liverpool í tveimur leikjum á síðasta tímabili en við höfum enn ekki séð Everton með sitt fullskipað sterkasta lið spila við Liverpool á þessu tímabili. Suarez eyðilagði heimaleikinn eins og frægt er orðið með fólskulegum leikaraskap (sem leiddi til rauðs spjalds á Rodwell) og fyrir útileikinn í síðasta mánuði hvíldi Moyes hálft liðið til að komast í undanúrslitin. Þetta er því leikurinn sem við höfum verið að bíða eftir og vonandi að Howard Webb valdi verkefni sínu vel og láti ekki Suarez blekkja sig né Gerrard skipa sér fyrir verkum í spjaldavali. Kenny er strax byrjaður að reyna að væla út greiða frá dómurunum með því að benda á hvað dómararnir eru alltaf vondir við þá. Eða eins og Guðni Ágústs hefði orðað það: Þar sem tveir Liverpool menn koma saman, þar eru samsæriskenningar.

Uppstillingin fyrir leikinn finnst mér augljós, 4-4-1-1: Howard, Baines, Distin, Heitinga, Neville. Miðjan: Gibson og Fellaini. Gueye á vinstri kanti, Osman á hægri. Cahill fyrir aftan Jelavic frammi. Anichebe super-subb á bekknum ásamt Drenthe, Count Stracula og Jagielka. Baines og Howard eru alltaf fyrstir á blað. Distin gefur okkur hæðina í vörninni og saman með Heitinga, sem er búinn að vera stórkostlegur í miðverðinum á tímabilinu, ættum við að eiga góðan séns á að halda hreinu. Ég vel Neville, kafteininn, fram yfir Hibbert sökum reynslunnar þó ég gæti alveg eins séð Hibbert þar (einn áhorfandi verður með þetta flagg á Wembley). Gueye vel ég fram yfir Drenthe þar sem Gueye hefur verið að spila leikina undanfarið og staðið sig vel, var að skora mark í síðasta leik og var frábær í leikjunum gegn Sunderland. Held að Drenthe gæti komið inn á er líður á en hann hleypir oft lífi í leikinn, reynir oft að taka sprettinn með boltann framhjá mönnum og gerir varnarmenn svo óörugga með spretthörkunni að þeim finnst þeir verða að klippa hann niður. Þetta hefur gefið okkur ófáar aukaspyrnur á tímabilinu, sem Baines ætti að geta nýtt sér. Á heildina litið, allt saman reynsluboltar (nema Gueye) sem eru vanir „stóra sviðinu“ á borð við bikarúrslit og heimsmeistarakeppnir, sbr. Heitinga sem spilaði til úrslita með Hollandi en slíkt kemur til með að skiptir mjög miklu í svona leikjum.

Þáttur stuðningsmanna var stór í sigrinum gegn Sunderland en þeir voru mjög háværir allan leikinn og hvöttu okkar menn til dáða. Það verður brjáluð stemming á pöllunum í undanúrslitunum enda rífandi uppgangur undanfarið og bjartsýni allsráðandi um þessar mundir. Annað er viðkvæðið í herbúðum andstæðinga okkar en þeir voru að reka manninn sem bar til jafns við Kenny ábyrgð á 112M punda floppi í leikmannakaupum. Sniðugt að gera það svona korteri fyrir leik.

Þrátt fyrir allt þetta verðum við að líta á okkur sem „underdogs“ því Liverpool er með öflugt og reynt lið sem getur verið mjög skeinuhætt, svona þegar þeir ná’onum upp, sem á það til að gerast gegn Everton. Það er því rétt að vara sig á þeim. Pressan er þó öll á Liverpool. Gerrard sagði að sigur gæti bjargað tímabilinu fyrir þá en lét vera að fara nánar út í hvað tap þýðir. Það verður verulega heitt undir Dalglish ef Everton vinnur. Ef við töpum, aftur á móti, verður aðaláherslan lögð á að halda sig fyrir ofan Liverpool í deildinni, sem ætti ekki að vera mjög erfitt miðað við það sem á undan er gengið. Hvort sem heldur — Úrslit í bikarnum eða ofar en Liverpool verður að teljast ágætis árangur miðað við erfiða byrjun í deildinni. Og hver veit nema við náum báðum markmiðum?

Comments are closed.