Everton – Liverpool 4-4 (FA bikar 1991)

Aðeins meiri upphitun fyrir leikinn á laugardaginn…

Fyrir rétt um 20 árum, þann 20. febrúar árið 1991, áttust Everton og Liverpool við í 5. umferð FA bikarsins. Þessi leikur var æsispennandi og reyndist hin besta skemmtun og er talinn meðal bestu FA bikarleikja allra tíma. Dalglish var þá, eins og nú, þjálfari Liverpool og, eins og nú, var hann undir töluverðri pressu. Sú pressa var þó, af öðrum toga en þeirri sem hann er undir núna, því Liverpool hafði, í skugga Heysel og Hillsborough slysanna (sem lögðust þungt á Dalglish), þá verið á toppi deildarinnar allan fyrri hluta tímabils í fyrstu deildinni (eins og efsta deild var kölluð þá).

Þá (eins og reyndar nú) hafði Liverpool sigrað deildarleikinn á Anfield 9. febrúar með þremur mörkum (gegn einu) en FA bikarleikurinn á Anfield þann 17. febrúar endaði með markalausu jafntefli. Því var leikurinn endurtekinn á Goodison Park aðeins þremur dögum síðar. Og það voru margar hetjurnar sem þar gengu til leiks. Hjá okkur var uppstillingin: Southall, Atteveld, Hinchcliffe, Ratcliffe, Watson, Keown, Nevin, McDonald, Sharp, Newell, Ebbrell. Tony nokkur Cottee á bekknum og Howard Kendall við stjórnvölinn hjá okkur. Hjá Liverpool: Grobbelaar, Hysen, Burrows, Nicol, Molby, Ablett, Beardsley, Staunton, Rush, Barnes, Venison. Peter Beardsley hafði setið á bekknum (ekki fengið tækifæri síðan um áramót) en kom nú inn í liðið vegna fjarveru annarra. Þetta reyndist síðasta tímabil Beardsley sem skipti yfir í Everton nokkrum mánuðum síðar.

Þetta var bráðspennandi leikur með skyndisóknum og færum á báða bóga; boltinn flakkaði markanna á milli, tæklingar hægri vinstri, fullt af mörkum, spenna fram á síðustu mínútu og framlengt eftir mikið drama. Það var ljóst alveg frá fyrstu mínútum að þetta yrði ekki annar 0-0 jafnteflisleikur.

Fyrsta markið kom þegar Ian Rush komst einn inn fyrir vörn Everton, náði skoti framhjá Southall en Hinchcliffe náði að hreinsa á línu. Boltinn barst samt til Rush aftur sem skallaði á Beardsley sem skoraði með föstu skoti en boltinn með viðkomu í Southall. 0-1 fyrir Liverpool og þannig endaði fyrri hálfleikur.

Everton byrjaði seinni hálfleikinn líflega og fyrr en varði var Graeme Sharp búinn að jafna með skallamarki sem Grobbelar hálfvarði en missti inn fyrir marklínuna. 1-1 og Grobbelaar alveg brjálaður.

Beardsley svaraði fyrir Liverpool með glæsilegu þrumuskoti rétt utan við teig. 1-2 fyrir Liverpool og Beardsley greinilega að reyna að koma Dalglish í skilning um hvaða glapræði það væri að skilja hann eftir á bekknum (hljómar það kunnulega?).

En Everton jafnaði aftur þegar Nicol varnarmaður Liverpool gerði sig sekan um skelfileg varnarmistök þegar hann gefur stungusendingu framhjá eigin markverði, beint á Graeme Sharp sem skorar fyrir opnu marki Liverpool. Staðan 2-2, allt brjálað á pöllunum og lítill hópur áhorfenda ryður sér leið inn á völlinn.

Á 77. mínútu skoraði Ian Rush síðan mark með skalla framhjá Southall eftir fyrirgjöf frá hægri og staðan því 2-3 fyrir Liverpool. Þannig var staðan allt þar til á 96. mínútu er Howard Kendall skiptir Tony Cottee inn á og sá nýtti sér önnur skelfileg mistök varnarmanna Liverpool þar sem þeir bókstaflega voru algjörlega sofandi á verðinum þegar boltinn barst inn fyrir og Cottee mættur, á síðustu mínútunni, og jafnaði 3-3. Tryggir Everton framlengingu í leik sem þeir höfðu þrisvar lent undir.

Í framlengingu komst Liverpool svo enn á ný yfir þegar John Barnes skaut frá vítateigshorninu vinstra megin, líklega ætlað að senda fyrir en hvorki Liverpool né Everton maður náði til boltans sem fór í stöngina og inn. Liverpool komið yfir í fjórða sinn, staðan 3-4 og góð ráð dýr fyrir Everton. En Cottee dó ekki ráðalaus og Liverpool menn gerðu sig seka um þriðju alvarlegu varnarmistökin, þegar Molby lætur boltann fara, hélt að Grobbelaar myndi ná honum, en þar er mættur Cottee og setur hann í netið. Staðan orðin 4-4 og þannig enduðu leikar.

Átta mörk í einum leik. Fjórum sinnum komst Liverpool yfir en Everton gafst aldrei upp og jafnaði við hvert mark.

Dalglish sagði að hann hefði áttað sig á því að hann þyrfti að þétta vörnina þegar Liverpool komst yfir í síðasta skipti og hvað myndi gerast ef hann gerði það ekki. En hann hefði frosið því pressan var of mikil. Daginn eftir sagði Dalglish upp öllum að óvörum (og spurning hvað hann gerir ef Liverpool tapar á laugardaginn). Everton vann endurtekinn leik 1-0 en Liverpool glutraði í framhaldinu niður deildarmeistara-titlinum undir stjórn Souness.

Hægt er að sjá helstu atvik í venjulegum leiktíma (og 6 af 8 mörkunum) í þessu vídeói á Youtube

Comments are closed.