Carroll vs. Jelavic

Það eru aðeins 4 dagar í FA bikar undanúrslitaleikinn við Liverpool á Wembley og ekki úr vegi að hita aðeins upp með því að bera saman tvo leikmenn liðanna sem spila svipaða stöðu.

Ég ætlaði að bera saman Howard og Pippi Reina en sá síðarnefndi lét reka sig út af á dögunum og sömuleiðis Dóninn, varamarkvörður þeirra (í leiknum gegn Blackburn áðan) þannig að einungis þriðji markvörður Liverpool, Brad Jones, er eftir. Sá hefur aðeins leikið tvo leiki fyrir Liverpool fyrir daginn í dag — einn Europa leik og svo leik í deildarbikar gegn Northampton (þar sem hann fékk á sig tvö mörk og þeir töpuðu í vítaspyrnukeppni) þannig að sá samanburður er ekki marktækur.

Í staðinn ætla ég ekki að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur, heldur taka fyrir dýrustu framherjana í hvoru liði fyrir sig, Jelavic og Andy Carroll. Keny Dalglish gerði Andy Carroll, eins og frægt er orðið, að dýrasta breska knattspyrnumanni allra tíma þegar hann keypti Carroll (meiddan) frá Newcastle á 35 milljónir punda. Sögusagnir hermdu að Newcastle hefði verið svo mikið í mun að losna við hann að þeir hefðu flogið með hann í þyrlu til Liverpool. Og sá hefur aldeilis gert garðinn frægan síðan en á sínu fyrsta heila tímabili með Liverpool hefur hann skorað heil 7 mörk í 39 leikjum. Geri aðrir betur! Þess ber þó að geta að þegar nánar er rýnt í mörkin sést að Andy Carroll skorar eingöngu á móti: a) liðum sem eru í neðri deild (Exeter, Oldham og Brighton) — þar sem hálft Liverpool-liðið er líka búið að skora, b) liðum á leið í neðri deild (Wolves og svo Blackburn í dag) eða c) liðum sem eru manni færri (Everton). West Brom er svo undantekningin sem sannar regluna. Ef þetta er það sem koma skal frá Andy Carroll þurfum við bara að vonast eftir því að dómarinn, Howard Webb, hafi almennileg tök á leiknum og reki engan Everton leikmann út af sökum leikaraskapar Suarez (ólíkt því sem gerðist á Goodison Park fyrr á tímabilinu).

En, lítum aðeins nánar á tölfræðina:

Jelavic Carroll
Verð: 5M 35M
Leikir í byrjunarliði: 7 22
Inn á sem varamaður: 3 17
Leikir samtals: 10 39
Mörk í deild: 4 4
Mörk samtals: 5 7
Markahlutfall per leik: 50% 18%
Markahlutfall (bara í deild): 44% 13%

Skot að marki samtals: 28 82
Skot sem rata á markið: 16 41
Hlutfall: 57% 50%
Líkur á marki per skot: 18% 9%

Varnarlega lítur Carroll aðeins betur út (þegar horft er framhjá því að Carroll hefur spilað 29 fleiri leiki en Jelavic) en Carroll er með 4 blokkeringar (á móti engri hjá Jelavic) og 14 hreinsanir (á móti 9 hjá Jelavic). Kannski er Carroll bara vanmetinn miðvörður. Carroll hefur reyndar verið liðtækur á kantinum með 12 fyrirgjafir á móti fjórum hjá Jelavic en hann er þó aðeins einni stoðsendingu á undan Jelavic (þrjár vs. tvær). Hvorugur hefur reynst grófur á tímabilinu, Carroll með 4 gul spjöld en Jelavic tvö. Jelavic hefur þó verið dæmdur brotlegur 12 sinnum en Carroll fjörutíu og tvisvar sinnum.

Comments are closed.