Everton – Sunderland 4-0

Ótrúlegur leikur í dag gegn Sunderland, verð ég að segja. Trúði varla eigin augum. Fyrir leikinn var ég ekki bjartsýnn; vissi að Moyes myndi hvíla nokkra lykilmenn og það gekk eftir því Baines fékk sitt fyrsta frí eftir að hafa byrjað í öllum síðustu 99 deildarleikjum Everton (aldrei verið skipt út af). Jafnframt var markaskorarinn Jelavic hvíldur, sem og Cahill, Distin og Gibson. Sunderland kæmu örugglega vel grimmir til leiks og ég var því sáttur við eitt stig og að enginn myndi lenda í meiðslum eða í banni.

Uppstillingin: Howard, Neville (í vinstri bakverði í stað Baines), Heitinga, Jagielka, Hibbert. Miðjan: Fellaini, Pienaar og Osman. McFadden á hægri kanti og Gueye á þeim vinstri (eða var það öfugt?). Stracqualursi frammi. Bekkurinn: Mucha, Gibson, Drenthe, Distin, Coleman, Duffy og Anichebe.

Fyrri hálfleikur var hálf líflaus. Everton meira með boltann og meira að reyna að komast í færi en alltaf þegar Everton komst í færi þá var lokasnertingin glötuð og skotið endaði e-s staðar upp í stúku eða langt fram hjá. Þessi fyrri hálfleikur minnti svolítið á fyrri hluta tímabils þar sem við vorum meira með boltann og alltaf að rembast og rembast en uppskárum ekkert því það var ekkert að gerast inni í teig. Oft óskaði maður þess að Jelavic væri á vellinum til að afgreiða færin. Það kom þó ekki að sök því það var nákvæmlega ekkert að gerast hjá Sunderland í öllum fyrri hálfleiknum. Sunderland er með betra lið en þó nokkur sem hafa komið á Goodison á tímabilinu en þetta var held ég lélegasta frammistaðan sem ég hef séð hjá nokkru liði á Goodison Park á þessu tímabili. Ekkert að gera hjá Howard í markinu. Og ég er ekki að ýkja. Það var ekkert að gerast hjá honum.

McFadden átti aukaspyrnu í fyrri hálfleik en ekkert kom úr því. Pienaar átti skelfilegt skot að marki, langt frá því að skora. Fellaini átti skot af löngu færi á 27. mínútu en rétt framhjá samskeytunum. Upp úr nánast engu á 36. mínútu reyndi Sessegnon svo að taka hjólhestaspyrnu inn í teig, svona í anda Rooney, eftir fyrirgjöf af hægri kanti en skotið langt fram hjá. Eins gott að þetta hefði ekki ratað í netið því maður hafði þurft að standa upp og klappa fyrir honum ef hann hefði skorað gegn okkar mönnum. McFadden átti gott skot utan af teig en markvörður Sunderland vel á verði. Fellaini fékk séns inni í teig en skaut langt fram hjá. Samkvæmt tölfræði í útsendingunni var McFadden eini maðurinn á vellinum sem hitti markið í fyrri hálfleik og það þrisvar. Grunar að það sé kannski oftalið því ég man allavega bara eftir tveimur skotum frá honum…

Þetta breyttist þó allt í seinni hálfleik (eftir að Stracqualursi átti skalla sem skapaði enga hættu) þegar við allt í einu hrukkum í gang og það með látum. Á 51. mínútu áttum við horn sem var skallað í burtu en boltinn barst að lokum til Osman sem átti fínt skot sem Mignolet varði til hliðar (til hægri við sig) þar sem Gueye var mættur og þrumaði boltanum í markið. Fyrsta mark Gueye fyrir Everton staðreynd og staðan orðin 1-0, Everton í vil. Everton réð lögum og lofum í leiknum og Sunderland þurfti nú að sækja meira. Drenthe inn á fyrir McFadden sem var farinn að þreytast.

Á 74. mínútu fékk Drenthe boltann upp við vítateigshornið hjá Sunderland hægra megin, sendi inn á miðjuna á Gueye sem framlengdi á Pienaar vinstra megin í vítateignum sem lyfti boltanum glæsilega yfir Mignolet í markinu. 2-0 fyrir Everton. Anichebe inn á fyrir Fellaini.

Aðeins um tveimur mínútum síðar hafði Osman leikið sama leikinn þegar hann fékk sendingu frá Gueye rétt utan við teig vinstra megin hjá Sunderland, tók boltann á kassann inn í teiginn, lagði hann fyrir sig tvisvar þrisvar og lyfti boltanum svo yfir Mignolet — stöngin inn á fjærstöngina, nánast alveg eins og Pienaar hafði gert. 3-0 fyrir Everton.

Fjórða markið kom á 80. mínútu. Pienaar féll við, við hornfána Sunderland hægra megin. Hann var snöggur upp, leikur á varnarmann Sunderland, sem átti sér einskis ills von, hleypur einn upp með boltann eftir endalínu í átt að marki og sendir fyrir á Anichebe sem reynir skot (í að ég held fyrstu snertingu sinni í leiknum) en hittir ekki boltann almennilega. Það var allt í lagi því Anichebe (sjá mynd) fékk annan séns og náði föstu skoti sem fór í Colback, varnarmann Sunderland, breytti um stefnu og inn í markið. Líklega skráist markið ekki á Anichebe en það breytir litlu. Staðan 4-0 fyrir Everton. Coleman inn á fyrir Neville en fleiri mörk voru ekki skoruð. 18. taplausi leikurinn gegn Sunderland í röð (í öllum keppnum) og stærsti sigur Everton á Sunderland síðan við unnum þá 7-1 tímabilið 2007/08.

Átti von á erfiðum leik og mögulega markalausu jafntefli en annað kom aldeilis á daginn. Allir sem komu inn stóðu sig fyrir sínu í dag og greinilegt að menn eru æstir í að standa sig vel fyrir bikarleikinn gegn Liverpool, til að eiga séns á að fá að spila. Pienaar og Osman frábærir og með mark hvor. Gueye að koma sterkur inn en hann setti eitt og átti þátt í hinum tveimur þannig að hann kemur væntanlega til með að spila á vinstri kantinum í bikarleiknum gegn Liverpool, þar sem Pienaar er í banni. Samkeppni um stöður, allir að leggja hönd á plóg — svona á þetta að vera.

Einkunnir Sky Sports: Howard 6, Neville 7, Jagielka 6, Heitinga 6, Hibbert 6, Gueye 6, Fellaini 6, Osman 8, Pienaar 8, McFadden 7, Stracqualursi 6. Varamenn: Coleman, Drenthe og Anichebe, allir með 6. Sunderland fengu 5 og 6 á línuna, nema Sessegnon sem fékk 7.

Sunderland verður að standa sig betur en þetta til að eiga möguleika á að losna undan oki Everton grýlunnar en þeir áttu ekki skot sem hitti á markið í öllum leiknum (3 sem fóru framhjá). Everton með boltann tæplega 60% leiksins og þessi leikur lofar góðu fyrir bikarleikinn gegn Liverpool á laugardaginn sem getur eiginlega ekki komið nógu fljótt. Við erum í 7. sæti, með fjórum stigum meira en Liverpool og einu marki betur í markamun. Liverpool á leik til góða á útivelli gegn Blackburn. Spurning hvaða veganesti þeir taka með sér í bikarleikinn.

Comments are closed.