Everton vs. Sunderland

Það er ennþá allt á fullu, svona rétt fyrir bikarleikinn við Liverpool á laugardaginn. Í þetta skiptið etjum við kappi við Sunderland, kl. 14:00 á morgun (mán) á heimavelli okkar. Þetta verður fjórði leikur Everton við Sunderland á tímabilinu, eftir að hafa spilað við þá tvisvar í FA cup og einu sinni í deild (1-1 jafntefli í deild og bikar og svo 0-2 sigur okkar í bikar). Sunderland verða væntanlega í leit að hefndum eftir að við unnum þá verðskuldað í bikarnum á þeirra heimavelli þar sem Jelavic skoraði mark og átti stóran þátt í þeirra kómíska sjálfsmarki. Moyes hefur enn ekki tapað fyrir Sunderland en það gæti þó gerst í þetta skiptið þó væntanlega myndu flestir taka jafntefli sem fínum úrslitum, svona í ljósi aðstæðna. Samt, það er sterkt að enda leikjatörnina fyrir bikarleikinn á sigri.

Stóra spurningin er því hvernig liðinu verður stillt upp en ég á von á að við fáum annan leik þar sem hálfu aðalliðinu verður skipt út af til að sterkasta liðið verði leikfært á laugardaginn í bikarnum. Það verður því erfitt að spá fyrir um uppstillingu og ég held ég reyni það ekkert.

Sunderland er í vandræðum með meiðsli hjá Lee Cattermole og Phil Bardsley, sem var báðum skipt út af í síðasta leik. Bentner er auk þess sagður meiddur á baki en hann spilaði þó síðasta leik. Hjá okkur eru líklega nær allir færir, helst spurning með Rodwell og Osman.

Coleman fær líklega að spreyta sig aftur til að fá leikæfingu. Anichebe/Stracqualursi leysa væntanlega Jelavic af. Drenthe kemur örugglega inn á. Rodwell gæti fengið smá leikæfingu. Pienaar verður pottþétt inn á þar sem hann leikur ekki á laugardaginn. Spurning er hvort Baines fái að hvíla og þá væntanlega Neville sem tekur hans stöðu (þó Neville hafi verið mjög góður gegn McClean í síðasta leik við Sunderland). Hmm… Kannski Drenthe taki stöðu Baines, en Drenthe ku jú vera vinstri bakvörður líka, þó hann líti kannski ekki út fyrir að vera það. Reyndar er Baines eins og Energizer Bunny — hann virðist ekki þurfa hvíld, búinn að spila allar mínútur af 99 leikjum Everton í röð (aldrei hvíldur).

Mig langar einnig að sjá Osman koma inn, því ég vil hafa hann sem val fyrir Liverpool leikinn — vonandi að hann hafi ekki meiðst illa gegn West Brom á dögunum. Tim Cahill hefur skorað að meðaltali í öðrum hverjum leik gegn Sunderland. Ekki skoraði hann síðast (en gerði það þar síðast) þannig að hann kemur kannski sterkur inn. Samt vill maður hafa hann heitan ásamt Jelavic gegn Liverpool. Fellaini er einnig afar mikilvægur á miðjunni en hann var í leit að spjöldum í síðustu tveimur leikjum; vil alls ekki missa hann fyrir Liverpool leikinn og þori því varla að spila honum… Kræææst. Sá á kvölina sem á völina. 🙂

Hvernig mynduð þið vilja sjá liðinu stillt upp fyrir leikinn gegn Sunderland með bikarleikinn í huga á laugardaginn?

Comments are closed.