Everton vs. West Brom

Við mætum West Brom á heimavelli á morgun (lau) kl. 14:00 en þessi leikur (og næstu tveir leikir) fá aukið vægi þar sem góð frammistaða í leikjunum þremur gefur væntanlega sæti í liðinu sem spilar undanúrslitin í FA bikarnum á Wembley þannig að það er eftir þó nokkru að slægjast. Við höfum þegar spilað tvisvar við West Brom á tímabilinu, fyrst heima í Carling bikarkeppninni þar sem við vorum einu marki undir nær allan seinni hálfleikinn þangað til Fellaini jafnaði með þrumuskoti á lokamínútunni. Phil Neville bætti svo um betur og tryggði sigurinn með þrumufleyg. Á nýársdag var svo leikur í deildinni á þeirra heimavelli, þar sem Anichebe tryggði 0-1 sigur á lokamínútunum, Hodgson til mikillar armæðu.

West Brom fóru illa með okkur á heimavelli í fyrra þegar Arteta lét reka sig út af með því að traðka á einu leikmanni West Brom í leik sem endaði 1-4, West Brom í vil. Það er reyndar í fyrsta og eina skipti í 13 leikjum sem þeir hafa unnið okkur á Goodison Park (síðan í deildarbikarnum 1980) og aðeins í annað skiptið í næstum 50 ár sem þeir unnu okkur heima í deild. West Brom hafa auk þess ekki unnið síðustu fjóra leiki sína í deildinni, eða allar götur síðan þeir unnu Úlfana og Sunderland með samanlagðri markatölu 9-1. Síðan þá hafa þeir tapað fyrir Chelsea og United, gert jafntefli við Wigan (í næst neðsta sæti) og tapað fyrir Newcastle. Við virðumst aftur vera komnir á beinu brautina eftir smá hikst eftir derby leikinn og höfum unnið síðustu tvo leiki okkar með tveimur mörkum gegn engu (gegn Sunderland og Swansea). Við höfum aðeins tapað tveimur af síðustu 14 leikjum og haldið hreinu í 6 af síðustu 11 leikjum í öllum keppnum. Jelavic (sem Hodgson ætlaði að kaupa í janúar) auk þess kominn í gang með 3 mörk í síðustu 6 leikjum, þar af eitt í síðustu tveimur leikjum í röð (og reyndar má eiginlega þakka honum fyrir seinna mark Sunderland líka og einhverja(r) stoðsendingar).

Hjá okkur eru Coleman, Rodwell og líklega Drenthe frá. Það verður fróðlegt að sjá hvernig liðsuppstillingin verður í leiknum. Spurningin er helst hvort Gueye hafi gert nóg til að halda Pienaar á bekknum? Ég á erfitt með að sjá að hann breyti miklu, nema þurfi að hvíla einhvern og það er erfitt að meta hver það yrði. Líkleg uppstilling: Howard, Baines, Heitinga, Distin, Neville. Miðjan: Fellaini og Gibson. Gueye á vinstri kanti, Osman á hægri. Cahill fyrir aftan Jelavic. Hjá West Brom meiddist James Morrison í síðasta leik og Zoltan Gera og Steven Reid eru einnig frá. Óvíst er einnig með miðjumennina Jerome Thomas og Graham Dorran.

Við getum með sigri komist úr 9. sæti yfir í 7. sæti (upp fyrir Liverpool og Sunderland ef Sunderland nær ekki að vinna sinn leik). Liverpool þyrfti reyndar bara (ef þetta gengur eftir) jafntefli í sínum leik á sunnudeginum til að endurheimta 7. sætið. Sá leikur þeirra er þó á móti Newcastle á útivelli, sem ætti að reynast þeim erfitt en Newcastle hefur ekki tapað á heimavelli síðan í desember. Reyndar… miðað við gengið hjá Liverpool í deildinni undanfarið þá myndi maður ekki einu sinni búast við líkum á sigri þeirra þó þeir væru að mæta Úlfunum á heimavelli!

Í öðrum fréttum er það helst að fréttir af samningi Everton við Nike um hönnun og dreifingu á búningi voru staðfestar af klúbbnum.

Comments are closed.