Sunderland – Everton 0-2 (FA bikar)

Sunderland hafa aldrei unnið Everton með David Moyes við stjórnvölinn og þeir litu svo sannarlega ekki út fyrir að vera að fara að gera það í fyrsta skipti núna eftir 16 leiki í röð gegn Everton án sigurs (í öllum keppnum). Í raun má segja að þeir hafi varla einu sinni átt endurtekinn leik skilið, þar sem Everton átti að taka fyrri leikinn nokkuð auðveldlega. Við dveljum þó ekki lengi við það, enda áttum við frábæran leik og sigurinn algjörlega verðskuldað. Við vorum mun betri á öllum sviðum. Ef við spilum svona í þessum tveimur bikarleikjum sem eftir eru þá þurfum við ekkert að óttast.

Maður hafði smá áhyggjur eftir að hafa séð uppstillinguna, þar sem okkur vantaði þrjá öfluga kantmenn í hópinn, Coleman, Drenthe og Pienaar, en þeir tveir síðarnefndu hafa verið sérstaklega duglegir að skapa okkur færi undanfarið með sköpunargáfu sinni. Moyes féll ekki í þá freistingu að nota Anichebe á vinstri kantinn (enda ekki kantmaður), eins og stundum áður, en reiddi sig á Osman og franska leynivopnið, Gueye. Gueye leysti sitt hlutverk af hendi með sóma, átti eitthvað af slökum sendingum en lagði glæsilega upp fyrra markið og stóð sig almennt séð mjög vel.

Við áttum mun betri færi í leiknum, börðumst vel um boltann, eldsnöggir aftur þegar við misstum boltann sem annars flæddi vel milli leikmanna og fram völlinn. Í hvert skipti úr föstum leikatriðum var eins og við værum hársbreidd frá því að setja boltann í netið. Osman átti fyrsta færið, slapp úr rangstöðugildru en fyrirgjöfin náði ekki til Jelavic. Cahill átti tvo skalla varða í kringum 20. mínútu eftir horn (maður hefði haldið að þeir lærðu af reynslunni og stoppuðu hann í hornum?) og Osman ekki langt frá því að komast í dauðafæri.

Fyrra markið kom svo eftir að Fellaini kom boltanum að vítateig Sunderland, sendir yfir á vinstri kantinn til Gueye sem brunaði nær alveg upp að hornfána og sendi hnitmiðaða sendingu beint fyrir fæturna á Jelavic sem var nánast óvaldaður í teignum (Kiryakos út á þekju), með þrjá varnarmenn fyrir framan sig og af miklu öryggi leggur boltann framhjá Mignolet í markinu. Auðvelt. Öruggt. Ekkert vesen. 0-1 fyrir Everton á 24. mínútu. Þriðja mark Jelavic í aðeins sex leikjum. Hann er eins og óskilgetið afsprengi Andrei Kanchelskis og Duncan Ferguson og ætlar að reynast okkur drjúgur á lokasprettinum.

Sunderland óx ásmegin svolítið við markið en Bentner átti til dæmis færi á 28. mínútu en var rangstæður og Howard varði hvort eð er. Larson átti flotta aukaspyrnu en hitti ekki markið á 35. mínútu. Staðan því 0-1 í hálfleik. Lítil hætta og við efldumst bara eftir því sem á leið.

Osman átti stórglæsilegt skot utan af vítateig hægra megin en boltinn rétt framhjá samskeytunum. Frábært skot og flottur snúningur — sá bolti hefði aldeilis sungið í netinu ef hann hefði hitt á rammann anda markvörðurinn löngu rótarskotinn á línu. Gibson átti flott skot stuttu síðar sem var blokkerað.

Martin O’Neill skipti David Vaughan inn á fyrir Kyr…ya…guð-hjálpi-oss á 53. mínútu og sú skipting átti aldeilis eftir að draga dilk á eftir sér en Everton komst í sókn, aðeins 4 mínútum síðar, þegar Fellaini kemst inn í slaka sendingu aftur til varnar, hleypur upp að vítateig með boltann, hægir á sér þar sem varnarmaður nálgast og kemst fram fyrir hann og sendir stutta sendingu til hægri milli tveggja varnarmanna Sunderland á Jelavic. Sendingin aðeins of föst fyrir Jelavic sem þarf að hlaupa full langt til hægri en er einn á móti markverði og nær skoti sem fer í Mignolet og fyrir markið. Boltinn hefði líklega farið í markið ef hann hefði ekki farið í mjöðmina á Mignolet, en það kom ekki að sök því varamaðurinn Vaughan er þar mættur fyrir framan markið og stoppar boltann með vinstri fæti en missir jafnvægið og sparkar honum svo bara inn í markið með hægri um leið og hann dettur. Hálf kómískt sjálfsmark. Staðan 0-2 fyrir Everton á 57. mínútu. Fyrsta sjálfsmarkið sem fellur með okkur síðan við spiluðum við Sheffield Utd í öðrum leik tímabilsins (í ágúst).

Frazer Campbell var skipt inn á fyrir Wayne Bridge og Sunderland þar með komið í 4-3-3 en áttu samt fá svör við öflugum varnarleik okkar.

Sessengon átti skot í stöng stuttu síðar eftir horn en örskömmu síðar áttum við að enda þennan leik þegar Cahill vann boltann af varnarmanni Sunderland með því að setja smá pressu á hann, og sendi á Jelavic sem komst einn á móti markverði — í mun betra færi en við seinna mark Everton, en skaut rétt framhjá. Baines lagði svo upp annað færi fyrir Jelavic, sem ég veit ekki hvað hefði getað skorað mörg mörk í þessum leik (fjögur? fimm?). Það þýðir einfaldlega að hann er að koma sér á réttan stað á réttum tíma og lofar mjög góðu fyrir framhaldið.

Jelavic átti skot á 66. mínútu sem Mignolet varði og Gueye átti skot rétt yfir. Vörn Sunderland ekki alveg að gera sig á þeim tímapunkti.

Undir lokin leystist þetta svolítið upp, Sunderland menn áfram mistækir og urðu meira og meira frústreraðir með hverri mínútunni og við héldum og sendum boltann vel. Sunderland átti eitthvað af færum, Bendtner fékk gott færi í stöðunni 0-1 (32. mínútu) sem Baines gerði vel í að kasta sér fyrir og verja með fótunum og Howard varði með fótunum undir blálokin frá Frazer Campbell. Sigurinn þó aldrei í hættu.

Á heildina litið var þó ekki mikið að óttast þar sem Sunderland átti slakan leik, mistækir í sendingum og ekki að skapa sér nóg af almennilegum færum. Léku kannski bara eins vel og Everton leyfði þeim. Vörnin skilaði sínu mjög vel, Heitinga og Distin áttu stórleik saman, Heitinga til dæmis, sem síðasta vígið eftir að Sunderland maður komst í gegn, átti frábæra tæklingu sem gjörsamlega át sóknarmann Sunderland. Distin var einnig mjög öflugur og svolítið eins og allar fyrirgjafir Sunderland enduðu á kollinum á Distin. Cahill og Jelavic ná vel saman en Cahill skapaði þó nokkur færi í leiknum, bæði fyrir sig og aðra. Gibson á oft frábærar sendingar fram völlinn og sér um miðlínuna á meðan Fellaini fær að göslast frammi í sóknum. Kantarnir mjög líflegir í kvöld. Það er í raun eins og Moyes sagði eftir leikinn, erfitt að benda á neinn leikmenn sem átti ekki góðan leik.

Sky Sports gefur ekki einkunnir fyrir bikarleiki, en lesendur gáfu eftirfarandi einkunnir: Howard 7, Baines 7.7, Distin 7.9, Heitinga 8.5, Neville 7.3, Osman 7.9, Fellaini 8.4, Gibson 7.3, Gueye 8.7, Cahill 7.9, Jelavic 8.6. Varamenn Hibbert, Jagielka og Stracqualursi fengu milli 6 og 7.

Everton bókaði þar með mjög verðskuldað sæti í undanúrslit í FA bikarnum gegn Liverpool í leik sem spilaður verður þann 14 apríl. Erfiður leikur og við í „underdog“ hlutverkinu aftur, eins og Moyes bendir gjarnan á. En ef við vinnum mætum við sigurvegarum úr hinum undanúrslitaleiknum — Chelsea og Tottenham, tvö lið sem Everton er nýbúið að vinna. Frábær dagur. Við getum verið stolt af okkar mönnum eftir þennan leik!

Comments are closed.