Swansea – Everton 0-2

Í dag mættum við Swansea, spútnik-liði tímabilsins, á útivelli og ekki laust við að maður væri svartsýnn fyrir leikinn þar sem Swansea hefur verið nánast ósigrað á heimavelli eftir næstum 30 leiki á tímabilinu og við með erfiðan leik fyrir höndum á þriðjudag í bikarnum (sem allt kapp er lagt á að vinna). Það var því fyrirséð að Moyes myndi hvíla nokkra lykilmenn eins og í tapleiknum á móti Liverpool. Manchester City var auk þess síðasta liðið til að mæta Swansea í Wales og City töpuðu 1-0. Ég hefði því fyrir leikinn alveg verið sáttur við jafntefli.

Moyes reyndist samkvæmur sjálfum sér og hvíldi Fellaini, Drenthe og Heitinga sem hafa verið þeir leikmenn sem hafa staðið sig einna best undanfarið. Inn á komu Gibson (lukkudýrið okkar) fyrir Fellaini, Jagielka í miðvörðinn fyrir Heitinga, Neville inn í varnaðsinnað hlutverk á miðjuna og Osman færði sig þar með á hægri kantinn (í stöðu Drenthe). Uppstillingin því: Howard, Baines, Distin, Jagielka, Hibbert. Miðjan: Gibson og Neville. Pienaar á vinstri kanti og Osman á hægri. Cahill á miðjunni fyrir aftan Jelavic. Uppstillingin 4-4-1-1 (eða 4-5-1 eftir því hvort Everton var í vörn eða sókn).

Dagsskipunin var að brjóta niður leikstíl Swansea með því að pressa á Swansea og reyna helst að brjóta niður spilið sem hefur verið þeirra einkennismerki, með áherslu á að stoppa flæði sendinga frá vörn yfir á miðjuna. Þetta virtist virka ágætlega gegnum allan leikinn og lítið um færi hjá Swansea (sem áttu aðeins 3 skot sem rötuðu á rammann hjá okkur allan leikinn) þó það þýddi kannski hálf bragðlausan fyrri hálfleik enda lítið að gerast.

Swansea átti eitt færi í fyrri hálfleik eftir snendingu frá Leon Britton en Danny Graham átti slakt skot sem Howard átti ekki í neinum erfiðleikum með. Við náðum annars að halda Swansea niðri allan leikinn, þó þeir væru meira með boltann, og Everton liðið ágerðist með hverri mínútunni sem leið og fékk betri og betri færi.

Gibson átti flott skot sem Vorm varði og Jelavic átti hjólhestaspyrnu sem Cahill var hársbreidd frá því að skalla í netið.

Á 59. mínútu brunar Leighton Baines svo upp völlinn, sækir inn á miðjuna og er felldur rétt utan við vítateig af varnarmanni Swansea. Spyrnuna tekur hann sjálfur og setur hann yfir varnarmúrin og rétt inn fyrir samskeytin, sem er farið að verða hans einkennismerki úr aukaspyrnum. Glæsileg spyrna. Glæsilegt mark. Óverjandi fyrir markvörðinn. Everton komið 0-1 yfir og Swansea þurfti að fara að sækja meira og gefa um leið meira færi á sér.

En allt í einu breyttust væntingarnar hjá manni og ekkert annað en sigur kom til greina, enda átti Swansea, þó þeir væru með Gylfa Þór innanborðs, lítil svör við sterkum varnarleik Everton manna, sem áttu öll hættulegstu færi leiksins — líkt og í fyrri leik liðanna (sem lyktaði 1-0 fyrir Everton). Lítið að gera hjá Howard í markinu allan leikinn. Þrjár skiptingar hjá Swansea en þær breyttu litlu.

Routledge hjá Swansea átti skalla yfir (Howard hefði reyndar líklega átt í erfiðleikum með þann bolta ef hann hefði hitt) en sókn Everton einfaldlega ágerðist eftir því sem leið á. Pienaar átti skot hárfínt framhjá hægra megin úr ákjósanlegu færi. Jelavic komst einn á móti markverði í frábæru færi hægra megin í vítateignum en setti boltann hárfínt framhjá á nærstönginni. Skelfilegt að skora ekki úr þessu færi! Hann átti þó eftir að redda sér fyrir horn.

Á 76. mínútu fær Fellaini boltann hægra megin inni í vítateig, heldur honum vel og tekst einhvern veginn að komast framhjá tveimur varnarmönnum Swansea og leggja boltann fyrir Jelavic fyrir framan mitt markið sem á ekki í nokkrum vandræðum með að setja boltann framhjá Vorm í marki Swansea. Staðan 0-2 fyrir Everton. Liðið sem hafði aðeins fengið á sig 0.34 mörk í leik á heimavelli í samtals 29 leikjum (10 mörk) allt í einu komið 2-0 undir.

Stuttu síðar kom Stracqualursi inn á fyrir Jelavic og var eins og naut í flagði, lét strax til sín taka og átti tvö hættuleg færi sem hann hefði getað náð að skora úr, bæði eftir flottan leik hjá Pienaar.

Baines og Pieanaar náðu annars einstaklega vel saman og Pienaar átti nokkrar góðar sóknir þar sem hann náði að leggja upp færi fyrir aðra eða koma sér sjálfur í gott færi. Osman skapaði oft usla líka. Cahill stóð sig frábærlega í að stimpla Leon Britton út úr leiknum með því að fylgja honum sem skugginn en Britton er „þeirra Da Silva“. Jagielka var frábær í vörninni og endaði nokkrar góðar sóknir hjá Swansea. Distin og Hibbert traustir að venju. Hibbo mætti reyndar skjóta meira. 😉 Gibson og Neville stóðu sig vel á miðjunni og náðu að brjóta upp sóknir Swansea. Jelavic hefði getað sett þrjú mörk í dag, en lét eitt nægja. Maður kvartar ekki yfir því svo lengi sem við vinnum. Sem við og gerðum, því Swansea átti ekkert svar.

Everton varð í dag aðeins þriðja liðið á nánast heilu tímabili til að leggja Swansea að velli á þeirra heimavelli og það auðveldlega, því ef færin hefðu nýst betur í leiknum hefðum við auðveldlega getað unnið með þremur, fjórum jafnvel 5 mörkum (Jelavic hefði getað skorað þrennu). Hvað um það. Þessi leikur lofar góður fyrir bikarleikinn gegn Sunderland sem er rétt handan við hornið. Gott að hafa sigurleik í farteskinu fyrir þann leik og vonandi að Gibson geti leikið því við virðumst ekki geta tapað þegar hann spilar.

Einkunnir Sky Sports: Howard 6, Baines 8, Distin 7, Jagielka 8, Hibbert 6, Pienaar 9, Gibson 7, Neville 6, Osman 7, Cahill 6, Jelavic 7. Varamenn: Heitinga 6, Fellaini 7, Stracqualursi 6. Swansea fengu 6 á línuna, nema markvörðurinn Vorm með 7 og Allen með 7.

Í öðrum fréttum er það helst að ungliðinn og markvörðurinn Connor Roberts, sem hefur leikið með U16 og U17 ára liði Wales var lánaður út til Colwyn Bay.

Comments are closed.