Everton vs. Arsenal

Það er erfiður leikur framundan gegn Arsenal á Goodison Park kl. 20:00 á morgun (mið) en erfiðir leikir hafa þó yfirleitt verið ávísun á skemmtilega leiki, eins og nýleg dæmi gegn Manchester City, Chelsea og Tottenham sýna. Everton virðist yfirleitt virka best og ná upp sem bestri stemmingu á heimavelli gegn sterkari liðum deildarinnar. Til að auka á spennuna þá er Arsenal það lið sem við höfum átt í hvað mestum erfiðleikum með undanfarin tímabil en það þarf að fara aftur til tímabilsins 2006/7 til að finna síðasta sigurleik gegn þeim, þá á heimavelli, þegar Andy Johnson skoraði sigurmarkið.

Arsenal hikstaði nokkuð á tímabilinu þegar þeir töpuðu tveimur leikjum í röð (og duttu þar með út úr Meistaradeildinni gegn Milan og út úr FA bikarnum gegn Sunderland) en síðan þá hafa þeir tekið sig á og unnið fjóra leiki í röð (þmt. Newcastle, Liverpool og Tottenham í deildinni). Við, aftur á móti, erum taplausir í 11 leikjum, ef frá er talinn Liverpool leikurinn þar sem við hvíldum lykilmenn. Við erum líka taplausir í síðustu 8 leikjum á heimavelli en Arsenal hafa unnið síðustu 6 leiki sína í deildinni, þannig að eitthvað verður greinilega að gefa eftir.

Hjá okkur verða miðjumennirnir Darron Gibson, Seamus Coleman og Jack Rodwell líklega allir frá vegna meiðsla á morgun. Hjá Arsenal eru Jack Wilshere, Sébastien Squillaci og Per Mertesacker meiddir og óvíst með Abou Diaby.

Uppstillingin ræðst væntanlega af því hvort Moyes hvíli lykilmenn í þessum leik eða í laugardagsleiknum gegn Swansea (eða sitt lítið af hverju) og hvort leikirnir verða notaðir til að gefa þeim sem hafa verið frá smá leikæfingu. Erfitt að segja, en ef hann vill stilla upp sterkasta liðinu sem völ er á verður þetta líklega útkoman: Howard, Baines, Heitinga, Distin og Neville/Hibbert. Fellaini og Osman á miðjunni, Pienaar á vinstri kanti, Drenthe á hægri kanti, Cahill fyrir aftan líklega Jelavic frammi.

Leikurinn er sýndur í beinni á Stöð 2 Sport þannig að það verður mæting á Ölver annað kvöld.

Af leikmannamálum er það að frétta að Sylvain Distin, sem hefur verið sem klettur í vörninni undanfarið, skrifaði undir eins árs framlengingu á samningi sínum en hann er 34 ára. Jafnframt var talað um að framherjinn ungi og efnilegi, Conor McAleny, væri ósáttur við samninginn sem honum hefði verið boðinn og að hann væri á leiðinni burtu en hann dró sjálfur þær sögusagnir til baka. Jafnframt bárust þær fréttir að Everton hefði fengið til sín nýjan ungliða, Sam Kelly frá Norwich City, en hann er 19 ára miðjumaður og greindi sjálfur frá þessum fréttum á Twitter reikningi sínum. Og að lokum má geta þess að Everton er með ungan suður-afrískan markvörð að nafni Judd Berg að láni á reynslusamningi en hann er 1.93 á hæð, var á reynslu hjá Sunderland þangað til Steve Bruce var rekinn og er með tvöfaldan ríkisborgararétt en hann er einnig Breti þannig að ekki verður vesen að fá atvinnuleyfi fyrir hann.

Comments are closed.