Everton stillti upp liðinu sem byrjaði gegn Tottenham; liðinu sem flestir bjuggust við að myndi spila í vikunni gegn Liverpool (þegar Moyes ákvað í staðinn að hvíla hálft aðalliðið). Og batamerkin voru greinileg en við vorum sterkari aðilinn í leiknum, héldum boltanum vel og sköpuðum okkur mörg hættulegri færi.
Sunderland fékk fyrsta færi leiksins, skalla eftir aukaspyrnu en boltinn framhjá; engin hætta. Coleman átti sendingu af hægri kanti stuttu síðar þar sem Osman skallaði rétt svo yfir. Mun betra færi. Í einni sókn Sunderland á 8. mínútu gerist það síðan að Fellaini nær að pota boltanum frá Sunderland manni á miðjunni yfir á Cahill sem sendir á Drenthe sem brunar upp kantinn og inn í vítateig og er klipptur niður af varnarmanni Sunderland, en dómarinn ákveður að dæma ekkert þrátt fyrir að vera á ákjósanlegum stað til að sjá það. Klárlega rangt að dæma ekki vítaspyrnu þar sem Drenthe náði boltanum framhjá varnarmanninum sem fer í fæturna á honum. Þetta áttu eftir að vera fyrstu mistök dómarans í langri röð mis-alvarlegra mistaka. Ég missti töluna á því hversu oft rangt lið fékk boltann í aukaspyrnum, innköstum og hornum og fannst verulega halla á okkur þó stundum hallaði á Sunderland líka.
Næsta sókn Sunderland, var gott dæmi en þar dæmdi hann aukaspyrnu á Baines á eitthvað sem var ekki brot. Upp úr aukaspyrnunni var gefið á Bardsley sem á skot þó nokkuð utan við teig, boltinn fer í gegnum þvögu og inn í vinstra hornið niðri hjá Howard sem átti litla möguleika á að verja. 0-1 fyrir Sunderland og ekki nema 12 mínútur búnar. Sunderland sótti aðeins í sig veðrið eftir þetta og átti skalla að marki en nokkuð hátt yfir og Howard hefði tekið það auðveldlega.
Á 23. mínútu fær Drenthe boltann á vinstri kantinum, ætlar að reyna að brjótast í gegnum varnarmúrinn en ákveður að stoppa og senda á Baines á kantinum sem sendir fyrir markið, beint á Jelavic sem skallar í átt að marki á fjærstöngina en Cahill er þar í milli og er eldfljótur að hugsa og skallar boltann í hitt hornið (enda markvörðurinn á leið í vitlaust horn). 1-1 og allt vitlaust á pöllunum.
Jelavic átti skot nokkru síðar en rétt framhjá. Baines átti hornspyrnu á Cahill sem átti frábæran skalla að marki en Mignolet í marki Sunderland varði mjög vel (stóð á línu og kýldi boltann, og kýldi óvart Heitinga í leiðinni líka) og úr frákastinu náði Distin ekki góðu skoti. Stuttu síðar átti Drenthe flotta aukaspyrnu sem fór í samskeytin. Osman átti slakt skot sem markvörðurinn varði og Cahill átti langskot sem ógnaði ekki nóg. Sunderland fann netið stuttu síðar en Bendtner dæmdur rangstæður (réttur dómur) en Bendtner var stálheppinn að fá ekki gult fyrir að tefja þar sem hann hélt áfram og skaut boltanum í markið þó langt væri síðan dómarinn flautaði. Líklega slapp hann við gult því þá hefði dómarinn þurft að reka hann út af.
Coleman komst í færi en skaut slöku skoti í staðinn fyrir að gefa á Jelavic. Cahill átti skot eftir horn frá Osman en skotið ekki nógu öflugt. Baines átti svo aukaspyrnu af vinstri kanti og Jelavic skallaði en boltinn fór í hendina á varnarmanni Sunderland — ekkert víti dæmt, að sjálfsögðu. Jelavic var svo áfram líflegur en hann átti bæði skalla (beint á Mignolet) og skot sem fór í varnarmann.
Í blálokin náði Heitinga frábærum skalla úr fyrirgjöf en Mignolet varði stórkostlega frá honum og svo frá Jelavic strax á eftir og hélt þeim þar með enn inni í leiknum. Stracqualursi kom inn á á 83. mínútu og var tekinn niður inni í teig stuttu síðar. Engin vítaspyrna, sagði dómarinn. Leikar enduðu því 1-1.
Sunderland átti aðeins tvö skot sem hittu á markið í öllum leiknum og skoruðu úr öðru þeirra. Við óðum í færum og í raun sorglegt að ná ekki að nýta tækifærið og vinna þá heima enda Sunderland stálheppnir í leiknum. Það var í raun þrennt sem kom í veg fyrir öruggan sigur Everton, að mínu mati: Stórleikur Mignolet í marki Sunderland, dómarann brast kjark til að dæma vítaspyrnu(r) og við vorum of mikið að dæla boltanum inn í teig um leið og við fórum yfir miðlínu þegar við hefðum átt að spila meira upp kantana og senda fyrir þar.
Í staðinn þurfum við að fara á Stadium of Lights og reyna að knýja fram sigur þar. Við höfum svo sem gert slíkt áður (í fyrra á Brúnni gegn Chelsea) en það verður erfitt þar sem við erum í miðri erfiðri leikjatörn og vorum með þessu að bæta öðrum erfiðum leik við leikjaplanið. Sá leikur verður spilaður þriðjudaginn 27. mars kl. 7:45.
Sky Sports gefur ekki einkunnir fyrir bikarleiki en mér fannst Tim Cahill standa upp úr, var vinnusamur og alltaf ógnandi upp við markið (og átti mark Everton). Jelavic var fjörlegur allan leikinn, sérstaklega í lokin og Heitinga og Distin traustir í vörninni. Osman fannst mér ekki líkur sjálfum sér í leiknum. Fellaini var Sunderland þyrnir í síðu á miðjunni. Baines átti marga frábæra spretti og góðar fyrirgjafir fyrir markið, eins og venjulega. Drenthe var ógnandi og mistækur að venju en hefði átt að vera sá maður sem gaf markið sem skildi liðin að (vítaspyrnan sem hann átti að fá) en dómarinn einfaldlega sleppti ítrekað að refsa Sunderland mönnunum fyrir brot á honum. Lítið að gera hjá Howard í markinu.
Comments are closed.