Á morgun (lau) kl. 12:45 mætum við Sunderland á heimavelli í 8 liða úrslitum (6. umferð) FA bikarsins í þriðja erfiða leik okkar á einni viku.
Everton hefur ekki tapað fyrir Sunderland á heimavelli í yfir 15 ár (síðan tímabilið 96/97) en við höfum leikið við þá 11 leiki síðan þá, unnið 8 og gert 3 jafntefli með markatöluna 30-7 (Everton í vil). Moyes hefur aldrei tapað á móti Sunderland á sínum tíu árum við stjórnvölinn (sbr. 3-0 sigur á þeim í FA bikarnum 2004/05) en á móti kemur að Sunderland er nú með nýjan stjóra (Martin O’Neill). Moyes hefur mætt honum 8 sinnum (meðan O’Neill stjórnaði Aston Villa) og Moyes aðeins unnið hann einu sinni (þá í FA bikar gegn Aston Villa fyrir um þremur árum síðan). Sunderland er auk þess á mikilli siglingu upp töfluna en þeir lögðu Liverpool á dögunum í deildinni og Arsenal í FA bikarnum.
Leikurinn við Sunderland í deildinni í fyrra (á Goodison) fór 2-0 fyrir Everton, í leik sem Osman fór á kostum í og var næstum því búinn að bæta við þriðja markinu (varnarmaður Sunderland varði á línu).
Það ætti að hjálpa okkur að Sunderland spilaði með sterkt lið í sínum derby leik gegn Newcastle á dögunum og létu reka tvo sterka miðjumenn af velli, Cattermole og Sessegnon, en við hvíldum nokkra lykilmenn í deildinni gegn Liverpool (öllum að óvörum). Eitthvað hefur verið á reiki eftir Liverpool leikinn hvort Baines yrði í banni þar sem ég held að hann sé kominn með 5 bókanir en ég hef ekki séð bannið staðfest. Gibson er meiddur og Pienaar má ekki spila í bikarnum en Moyes gaf í skyn að einhverjir hefði náð sér í minniháttar meiðsli í leiknum við Liverpool og yrðu metnir fyrir leik en vildi ekki fara út í það nánar (skiljanlega). Hjá Sunderland eru Kieran Richardson, Wes Brown og Titus Bramble líklega meiddir, en Bendtner er orðinn góður af sínum meiðslum (ekki víst þó).
Leikmenn Everton verða örugglega staðráðnir í að sýna betri leik en gegn Liverpool og horfa til þess sem vel var gert í sigurleikjum gegn Tottenham, Chelsea og Manchester City á dögunum. Það er auk þess uppselt á leikinn þannig að það verður örugglega frábær stemming á pöllunum frá upphafi leiks.
Líklegt byrjunarlið er 4-5-1 liðið sem byrjaði leikinn gegn Tottenham: Howard, Baines, Heitinga, Distin, Neville. Á miðjunnni Fellaini og Osman. Drenthe á vinstri, Coleman á hægri og Cahill fyrir aftan Jelavic.
Comments are closed.