Moyes í 10 ár

Í gær var haldið upp á merkan áfanga hjá klúbbnum, en þá hafði David Moyes verið við stjórnvölinn hjá Everton í 10 ár (og geri aðrir betur)! Moyes hóf þjálfaraferil sinn með Preston (tímabilið 97/98) en Preston var þá í fallhættu í 2. deild. Moyes náði að forða þeim frá falli og kom þeim (strax á næsta tímabili) upp nálægt toppsætunum og sigraði svo 2. deildina tímabilið þar á eftir. Merkilegt þótti að hann náði strax á fyrsta tímabilinu í 1. deildinni að koma Preston í umspilið um sæti í Úrvalsdeildinni (sem tapaðist reyndar) án þess að hafa gert miklar breytingar á leikmannahópnum.

Moyes tók við Everton liðinu af Walter Smith í mars 2002 en Everton var þá í fallhættu og búið að vera að berjast við falldrauginn samfleytt í um 6-7 ár, undir stjórn fyrst Joe Royle (síðasta tímabil hans), svo Dave Watson, Howard Kendall (þá þjálfari í þriðja skiptið) og loks Walter Smith. David Moyes tók þar með við liði sem var að vissu leyti úr sér gengið og nokkrir í liðinu voru við lok feril síns og máttu muna sinn fífil fegurri (t.d. Gasgoigne og David Ginola). Sjúkraþjálfarinn hringdi í Moyes fyrir fyrsta leikinn og sagði honum að Moyes vissi ekki í hvað hann væri búinn að koma sér því leikmennirnir væru meira og minna á sjúkralistanum og gengi ekkert að koma þeim af honum.

Batamerkin þegar Moyes tók við sáust þó strax í fyrsta leik, því það tók ekki nema 30 sekúndur af leiknum (gegn Fulham) fyrir David Unsworth að skora mark og Duncan Ferguson tryggði 2-1 sigur stuttu síðar. Aðeins einu sinni á 12 tímabilum áður en David Moyes kom til sögunnar hafði Everton endað ofar en í 9. sæti en það átti aldeilis eftir að breytast.

Fram til dagsins í dag hefur Moyes stjórnað Everton í yfir 700 leikjum og náð 44% sigurhlutfalli og er meðalgengi liðsins í deildinni síðustu 10 árin (8. sæti að meðaltali) undir stjórn Moyes þriðji besti meðalárangur sem nokkur þjálfari hefur náð með Everton frá stofnun félagsins (þegar horft er til 10 ára kafla). Og það þó við séum fjórða sigursælasta liðið í ensku knattspyrnunni frá upphafi. Það sem gerir þetta ennþá óvenjulegra er að Moyes hefur ekki fengið fúlgur fjár til að kaupa leikmenn og launakostnaðurinn hjá liðinu sé á við lið um miðbikið í Úrvalsdeildinni. Liverpool spreðar pengingum hægri vinstri en hefur undanfarin tvö ár aðeins náð einu sæti ofar en Everton í deildinni (og Everton hafði fram að janúarglugga ekki keypt leikmann í aðalliðið í tvö ár). Ekki má þó gleyma þætti stjórnarinnar (þ.m.t. Bill Kenwright) en ég tel að traustið sem þeir hafa á David Moyes sé gríðarlega mikilvægur þáttur í árangrinum sem náðst hefur en stjórnin hefur leyft Moyes að stýra félaginu eftir eigin höfði (andstætt því þegar til dæmis Ferguson var seldur gegn vilja Walter Smith undir stjórn Peter Johnston).

Aðeins Wenger og Ferguson hafa verið lengur en Moyes hjá sama félaginu; aðeins þessir sömu þrír (Wenger, Ferguson og Moyes) hafa náð 150 sigurleikjum í Úrvalsdeildinni við stjórn sama félags og aðeins þessir þrír hafa náð kjörinu „stjóri mánaðarins“ í Úrvalsdeildinni átta sinnum eða oftar. Enginn hefur oftar verið kjörinn stjóri ársins en Moyes (þrisvar — jafn oft og Alex Ferguson). Sjö sinnum af 9 heilum tímabilum undir stjórn Moyes hefur Everton endað í 8. sæti eða ofar (áður en Moyes tók við gerðist það aðeins einu sinni á 12 tímabilum í röð þar á undan). Þrisvar í röð endaði Everton meðal 6 efstu í deildinni og einu sinni enduðum við í 4. sæti sem gaf sæti í forkeppni Champions League, á kostnað Liverpool.

Þó Moyes hafi ekki náð að landa titli ennþá er þetta alls ekki slæmur viðsnúningur frá því að horfa alltaf í upphafi tímabils á síðasta leik tímabilsins til að skoða hvaða lið við þyrftum að vinna í blálokin til að forða okkur frá falli. Í staðinn fórum við að horfa upp töfluna og gera alvöru kröfur til liðsins. Allt í einu var stefnan sett á Evrópukeppnir á hverju ári sem og gott gengi í bikarkeppnum og merkilega oft náðust þau markmið: einu sinni komumst við í Champions League forkeppnina (2004/5) og vorum hársbreidd frá því að komast upp úr forkeppninni sem hefði haft í för með sér stórkostlegan hvalreka. Tvisvar komumst við í Uefa Cup (2006/7 og 07/08) og einu sinni í Europa League (2008/09). Vorum komnir með aðra höndina á FA bikarinn í úrslitum 2009 þegar við komumst 1-0 yfir á móti Chelsea snemma í leiknum.

Af því sem lesa má og heyra um Moyes er ljóst að hann er gríðarlega einbeittur, með mikinn drifkraft og er staðráðinn í að standa sig frábærlega vel í öllu sem hann gerir. Hann leggur gríðarlega mikla vinnu í að greina mótherjana nákvæmlega og undirbúa liðið vel taktískt fyrir hvern leik. Slíkt sést vel þegar menn á borð við Gareth Bale eru teknir fyrir og eru varla skugginn af sjálfum sér í leikjum gegn Everton. Moyes gerir miklar kröfur til sjálfs sín sem og leikmanna sinna en hugsar jafnframt vel um þá. Hann er glöggur mannþekkjari, segir réttu hlutina við leikmenn sína og nær fram því besta úr þeim. Stundum virðist jafnvel sem hann nái meira en 100% úr leikmönnum sem síðan eru seldir til annars lið og virðast fjara þar út (Pienaar? Beckford kannski — kemur í ljós).

Moyes hefur næmt auga fyrir óslípuðum demöntum en velgengnin hefur mikið til byggst á að hlúa að ungliðunum og gefa þeim tækifæri en ekki síður að finna vanmetna eða efnilega leikmenn úr neðri deildum, gera þá að frambærilegum leikmönnum í úrvalsdeildinni og selja suma með miklum hagnaði (sem svo er notaður var til að kaupa öfluga leikmenn). Tim Cahill er gott dæmi (kostaði 1.5M punda og hefur reynst gríðarlega drjúgur). Lescott einnig: keyptur á 5M punda; seldur á 22M punda (og fyrir hagnaðinn voru Heitinga, Bily og Distin keyptir), Arteta (2M punda, seldur á 10M), Beckford (ókeypis, seldur á 2.5M), Rooney (alinn upp, seldur á 25.6M). Nigel Martin (ókeypis). Saha kom fyrir lítið. Pienaar fann Moyes í Þýskalandi (2M). Jagielka (kostaði 4M) og Baines (allt að 6M) en þá fann hann í neðri deildum og nú eru báðir komnir í enska landsliðið. Lánssamninga notar Moyes grimmt til að prófa leikmenn og vita hvort standi sig (Tim Howard, Pienaar, Arteta, …) og hefur náð góðum árangri þannig.

Framkoma Moyes í fjölmiðlum einkennist af heiðarleika og virðingu, en hann hefur til dæmis sagt að hann vilji (án undantekninga) _engan_ leikaraskap né svindl í sínu liði (#hóst# Suarez #hóst#) og iðulega vísar hann á bug vangaveltum um hina og þessa leikmennina sem orðaðir hafa verið við Everton þar sem slíkar umræður hafa yfirleitt ekkert nema neikvæð áhrif á leikmenn og þjálfara hins liðsins. Það er ekki hans stíll að benda á að Van Persie (hefði hann efni á honum) myndi sóma sér vel undir sinni stjórn (eins og Mancini gerði) eða segja að Redknapp sé best til þess fallinn að stýra enska landsliðinu (eins og Ferguson gerði). Aldrei gerir hann lítið úr liðinu sem mæta skal í næsta leik eða vanmetur þá og alltaf dregur hann fram jákvæða punkta hjá mótherjanum að leik loknum. Það er heldur ekki hans stíll að vera sífellt vælandi yfir dómurum leiksins hvern leikinn á fætur öðrum (#hóst# Wenger #hóst# – og Dalglish á köflum). Ekki vottar af egó-i í viðtölum og alltaf ber hann hag klúbbsins fyrir brjósti en ekki sinn eiginn.

Það var talinn mikil áhætta á sínum tíma að fela ungum og óreyndum stjóra stjórnvölinn hjá Everton í fallbaráttunni en Moyes er búinn að sýna og sanna að hann er gríðarlega hæfur stjóri og ekki skrýtið að hann sé nú ítrekað nefndur þegar rætt er um lausar stöður hjá liðunum í toppsætunum (Tottenham, Chelsea og Man Utd). Hans verki er þó ekki lokið því hann á eftir að ná frekari velgengni með Everton liðinu og sjá til þess að stórefnilega unglingaliðið okkar (nýorðnir Englandsmeistarar), sem Moyes, Alan Irvine og Alan Stubbs (og fleiri) hafa verið að hlúa að, nái að taka skrefið stóra í Úrvalsdeildina.

Áfram veginn! Eða eins og sagt er: In Moyes We Trust (IMWT)!

Comments are closed.