Liverpool vs. Everton

Nú er loksins komið að derby leiknum gegn Liverpool sem leikinn verður kl. 20 á morgun (þriðjudag) á Anfield. Við eigum aldeilis harma að hefna eftir að dómarinn eyðilagði fyrri leik þessara liða með óskiljanlegu rauðu spjaldi eftir leikaraskap Suarez — rautt spjald sem var snögglega dregið til baka eftir leik. Við vorum betra liðið í þeim leik fram að rauða spjaldinu og jafnræði með liðum eftir að við misstum mann út af. Hefði viljað sjá hvernig leikurinn hefði spilast með öðrum dómara því ég skil ekki að svona spjalda-glaður dómari var fenginn til að dæma _þennan_ leik og það er enn kergja í mér eftir þetta. Löngu kominn tími til að réttlætið nái fram að ganga.

Við erum í fantaformi þessa dagana, nýbúnir (í síðustu 7 leikjum) að leggja Tottenham, Manchester City, Chelsea (og Fulham í FA bikarnum) og erum með því taplausir í 9 leikjum. Liverpool eru auk þess búnir að vera arfaslakir þessa dagana; ekki unnið í deildinni síðustu fjóra leiki (þar af tapað þremur) og rétt náðu að merja sigur á Cardiff í deildarbikarnum eftir framlengingu og vítaspyrnukeppni sem Cardiff-menn höfðu greinilega ekki taugar í og bókstaflega köstuðu frá sér sigrinum (eftir að Livepool klúðraði tveimur fyrstu spyrnunum: Gerrard og Adam). Pressan er öll Liverpool megin á morgun en tapi þeir hafa þeir tapað fjórum í deildinni í röð, sem gerðist síðast fyrir 10 árum síðan — og þá var Sunderland einmitt eitt liðanna sem sigraði Liverpool (eins og þeir gerðu einmitt í síðasta leik). Ef tímabilið hefði hafist um áramótin væri Liverpool í fallsæti en á heildina litið hafa þeir á tímabilinu aðeins unnið 4 af 13 leikjum sínum á heimavelli þannig að nú er rétti tíminn til að snúa hnífnum í sárinu. Everton sigur yrði frábær gjöf fyrir Moyes — að komast upp fyrir Liverpool aðeins deginum áður en Moyes fagnar 10 ára áfanga við stjórnvölinn hjá Everton.

Eini Everton maðurinn sem er meiddur er Darron Gibson en það er mjög gott að vera nánast kominn með byrjunarliðið heilt eftir slæma meiðslatörn og erfiða leiki framundan, þó ekki allir sem eru komnir aftur séu enn í fullu leikformi. Pienaar er jafnframt löglegur gegn Liverpool, eftir að hafa hvílt sigurleikinn gegn Tottenham og Jelavic búinn að skora sitt fyrsta mark með Everton eftir að hafa aðeins spilað rétt rúmlega 150 mínútur fyrir Everton. Everton liðið þar með loksins komið almennilega í gang eins og alltaf seinni hluta tímabils. Vonandi áfram bjart framundan. Hjá Liverpool eru Agger og Lucas meiddir og Glen Johnson tæpur. Andy Carroll er auk þess áttaviltur — og enn að læra að standa í fæturna (sjá mynd).

Líkleg uppstilling, talið frá markverði og fram völlinn: Howard, Baines, Heitinga, Distin, Hibbert í vörn. Fellaini og Osman á miðjunni, Pienaar á vinstri kanti, Drenthe á hægri og Cahill fyrir aftan Jelavic frammi. Sammála þessu?

Comments are closed.