Við mætum Tottenham á morgun (lau) kl. 17:30 á heimavelli en það er margt búið að vera í gangi í kringum við klúbbinn og þá sérstaklega 10 ára afmæli Moyes við stjórnvölinn hjá Everton, sem er á næstu grösum (miðja næstu viku). Ég ætla þó að láta það liggja á milli hluta í þessum pistli (þó mikið gleðiefni sé) og einblína á leikinn og aðrar fréttir en afmælisfréttirnar þar sem af nægu er að taka (og hægt væri að gera 10 ára afmælinu skil í heilli frétt).
Við lékum síðast við Tottenham fyrir ekki nema 8 leikjum síðan (frestaðan leik) á White Hart Lane þar sem Tottenham vann 2-0. Það var ennþá eitthvað áramótaslen í Everton liðinu þegar við mættum þeim, en við höfðum þá verið að spila illa þrjá leiki í röð (þó við höfðum reyndar unnið tvo þeirra, gegn West Brom og Tamworth). En gengi okkar breyttist við Tottenham leikinn því við höfum ekki tapað síðan þá, og unnið lið eins og Chelsea og Man City og komist í 8 liða úrslit í FA bikarnum.
Tottenham var á miklu flugi þegar þeir mættu okkur; voru taplausir í 7 leikjum (og þar af unnið 5). Eftir þennan leik, hins vegar, fóru þeir að hiksta því þeir gerðu jafntefli við Wolves strax á eftir og töpuðu svo fyrir Man City og rétt mörðu Watford í bikarnum. Það lyftist á þeim brúnin í 5-0 sigri á Newcastle en svo töpuðu þeir illa fyrir erkifjendunum Arsenal stuttu síðar. Í síðustu tveimur leikjum þeirra hafa þeir tapað fyrir Man United — virðast vera að heltast úr lestinni hvað enska titilinn varðar — og rétt mörðu sigur á Stevenage í bikarnum en þóttu samt slakir. Þeir hafa því aðeins unnið síðustu tvo af sínum 7 deildarleikjum síðan þeir mættu okkur.
Þegar sagan er skoðuð kemur í ljós að í síðustu leikjum gegn Tottenham á Goodison Park erum við taplausir í síðustu 4 leikjum en þeir unnu okkur síðast tímabilið 2006/07. Leikur okkar gegn þeim í fyrra á Goodison fór 2-1 fyrir Everton þar sem Saha og Coleman skoruðu, en tölfræðin segir 42% : 34% : 24% (sigur:jafntefli:tap).
Allra augu verða á Drenthe í leiknum þar sem hann hefur verið líflegur undanfarið og skorað í síðustu tveimur leikjum í röð og þar með orðinn markahæstur ásamt Baines og Anichebe með 4 mörk hver, en Everton liðið hefur verið latt við markaskorunina þetta tímabilið og dreift mörkunum vel á milli sín (meira að segja markvörðurinn búinn að skora eitt). Pienaar má jafnframt ekki spila leikinn (þar sem hann væri að spila gegn sínum atvinnurekendum) þannig að líklega byrjar Coleman á hægri kantinum og Drenthe fer yfir á vinstri (nema Moyes ákveði að Gueye verði vinstra megin og Drenthe á hægri). Nema kannski Osman fái tækifæri á kantinum?
Það horfir allt til betri vegar hvað sjúkralistann varðar en Jagielka, Anichebe, Rodwell, Osman og Coleman eru allir á batavegi og spiluðu 90 mínútur með varaliðinu nema Osman sem tók einn hálfleik á móti Francisco Junior (vídeó), en þau tíðindi koma varla á betri tíma því það er mjög erfið törn framundan í marsmánuði. Jagielka gæti þó þurft að verma bekkinn því Heitinga og Distin hafa verið í fínu formi undanfarið. Einnig hefur Barkley verið að koma til og Moyes sagði að hann myndi líklega sjást í aðalliðinu aftur fyrir lok tímabils en Barkley hefur verið fjarverandi vegna meiðsla og þar sem leikformið tók dýfu hjá honum eftir líflega byrjun á tímabilinu. Gibson er því eini leikmaðurinn sem er í sjúkraþjálfun og að sögn eru meiðsli hans ekki eins alvarleg og talið var í fyrstu.
Hjá Spurs meiddist varnarmaðurinn Michael Dawson í síðasta leik þeirra (FA bikarnum) og verður því ekki með og spurning með kantmanninn Aaron Lennon sem meiddist einnig í leiknum. Gareth Bale hefur jafnframt verið að glíma við vírus. David Bentley, Jermaine Jenas og Tom Huddlestone eru einnig meiddir. Everton klúbburinn birti stuttlega frétt á vefsíðunni um að Saha spili ekki með þar sem hann hafi gert heiðursmannasamkomulag þar að lútandi, en fréttin var reyndar stuttu síðar tekin niður.
Líkleg uppstilling: Howard, Baines, Heitinga, Distin, Hibbert. Á miðjunni: Fellaini, Neville. Drenthe á vinstri kanti, Coleman á hægri. Cahill fyrir aftan Stracqualursi.
Í öðrum fréttum er það helst tvítugi kantmaðurinn, Gregg Wylde, hefur verið orðaður við Everton en hann er samningslaus eftir að hann kaus að segja upp samningi sínum við Rangers í kjölfar þess að þeir virðast vera að fara á hausinn. Aston Villa og Bolton eru sögð áhugasöm en síðarnefnda liðið átti tilboð í hann upp á 400þ pund sem Rangers hafnaði (áður en allt fór í vaskinn hjá þeim). Uppfært 9.3.2012: David Moyes sagði í viðtali að það væri ekkert til í því að Gregg Wylde væri á leiðinni.
Einnig skoraði Hallam Hope mark númer 2 í 3-0 sigri U18-ára liðs Englands sem lagði Pólland U18. John Lundstram, annar Everton ungliðinn, lék einnig leikinn og var fyrirliði en í lokin má geta þess að Blue Kipper átti athyglisverða grein um þá tvo og helstu ungliðana okkar sem hafa verið að gera það gott.
Comments are closed.