Everton – Blackpool 2-0 (FA bikar, 5. umferð)

Glæsilegur 2-0 sigur gegn Blackpool í höfn í 16 liða úrslitum FA bikarsins. Wayne Rooney var mættur í stúkuna að horfa á Everton í fyrsta skipti (eftir að hafa verið seldur til Man U) og einnig sáust Howard Kendall og Duncan Ferguson en Tim Cahill mætti líka í jakkafötunum með herskara af börnum sínum. Um það bil fullt hús á pöllunum og stemmingin góð bæði innan vallar sem utan.

Uppstillingin vakti nokkra athygli en það vantaði kantmennina okkar áhrifaríku úr síðustu tveimur leikjum (Donovan með flensu og Pienaar má ekki spila fyrir okkur í FA bikarnum). Þar sem Cahill var í stúkunni vorum við hálf fáliðaðir á miðjunni og Neville spilaði því við hlið Gibson en Hibbert tók stöðu hægri bakvarðar. Liðið því: Howard, Baines, Heitinga, Distin og Hibbert. Gibson og Neville á miðjunni, Gueye á vinstri kanti, Drenthe á hægri og Stracqualursi frammi með Fellaini sér til stuðnings. Greinilega spilað til sigurs. Á bekknum: Hahnemann, Coleman, Barkley, Forshaw, Vellios, Joao Silva og Baxter. Moyes sagði eftir leikinn að Anichebe, Cahill, Jelavic og Duffy væru meiddir (auk Rodwell og Osman) og að Baines hefði spilað leikinn hálf slappur vegna veikinda, sem leyndi sér eiginlega ekki því hann var ekki alveg samkvæmur sjálfum sér í leiknum.

Fyrir leikinn sýndu þeir svipmyndir af fyrri leik liðanna á Goodison Park, sem var mjög spennandi en Everton vann þann leik 5-3 eftir að hafa lent undir (3-2 að mig minnir). 

Maður bjóst því hálfpartinn við markasúpu í leiknum í dag og ekki þurfti að bíða lengi eftir fyrsta markinu því Everton komst yfir eftir ekki meira en 48 sekúndur. Gueye sendi fyrir markið af vinstri kanti og sendingin fann Fellaini sem tekur við boltanum með bakið í markið og gaf til hliðar á Drenthe sem kom hlaupandi af hægri kanti og átti ekki í erfiðleikum með, óvaldaður, að setja boltann vinstra megin við Matt Gilks, markvörð Blackpool. 1-0 og ekki mínúta liðin.

Og það liðu ekki nema um 5 mínútur þangað til næsta mark Everton leit dagsins ljós. Í þetta skiptið kom sendingin af hægri kanti (Drenthe með hornspyrnu) sem Distin (eða var það Fellaini?) á nærstöng framlengdi á Stracqualursi, sem hitti ekki boltann fyrst, en náði að hamraði boltann í netið í seinni tilraun. Everton sem hefur átt í vandræðum með að lenda ekki undir í fyrri hálfleik á tímabilinu (oft í sigurleikjum) allt í einu búnir að gera út um leikinn á fyrstu 6 mínútunum. Var mig nokkuð að dreyma?

Eftir þetta virtist allur vindur að mestu úr Blackpool og við réðum lögum og lofum og mikill klassamunur á liðunum en Everton var mikið betra liðið í leiknum og hefðum getað skorað 4-5 mörk bara í fyrri hálfleik. Blackpool átti reyndar fínt færi þar sem Darren-Fletcher var einn á móti markverði (í þeirra besta færi í leiknum) en Howard var fyrri til boltans og Darren-Fletcher var skipt út af meiddur eftir samstuðið.

Drenthe lagði upp ákjósanlegt færi fyrir Gueye en Gibson var fyrri til í boltann og skaut hátt yfir. Gueye lagði svo upp flott færi fyrir Stracqualursi með sendingu frá vinstri kanti en Stracqualursi náði ekki til knattarins. Fellaini átti síðan skot í fínu færi en varið í horn og Gibson átti skot sem var varið af markverði eftir að hafa siglt gegnum fæturna á/farið framhjá nokkrum varnarmönnum. Allt að gerast.

Blackpool átti færi rétt fyrir lok hálfleiks en Howard var vel á verði og varði í horn.

Blackpool bættu sig nokkuð í seinni hálfleik en (með fullri virðingu fyrir þeim) litu samt aldrei út fyrir að vera að fara að vinna þennan leik því öll bestu færi leiksins féllu okkur í skaut. Það var helst í upphafi seinni hálfleiks sem kom smá vonarglæta hjá þeim þar sem þeir áttu 3 aukaspyrnur sem allar fóru forgörðum og svo (óverðskuldað) víti rétt fyrir lok leiks sem Kevin Phillips klúðraði glæsilega með því að senda boltann hátt yfir markið. Réttlætinu fullnægt. Við vorum eiginlega mun nærri því að bæta við marki en Blackpool að minnka muninn, til dæmis þegar Fellaini átti skot að marki sem fór framhjá markverði Blackpool en var varið á línu. Fellaini átti svo skalla yfir markið úr ákjósanlegu færi. Óð í færum og átti að gera betur. Leiknum lauk þó án fleiri marka og 7. taplausi leikur Everton í röð (í öllum keppnum) þar með staðreynd. Ef ekki væri fyrir slysa-sjálfsmarkið gegn Wigan væri þetta 5. sigurleikur Everton í röð.

Það var mjög ánægjulegt að sjá Coleman, Barkley og Vellios koma inn á sem varamenn og lífga aðeins upp á leikinn en þeir hafa allir verið fjarri góðu gamni í þó nokkurn tíma núna, meðal annars sökum meiðsla.

Sky Sports gefur ekki einkunnir fyrir bikarleiki en einkunnir lesenda voru Blackpool alls ekki hliðhollar. Okkar leikmenn voru með um og yfir 7 í meðaleinkunn (Fellaini og Drenthe menn leiksins) en leikmenn Blackpool með um 3 i meðaleinkunn. Kannski fullhart þó að klassamunur hafi verið á liðunum og úrslitin aldrei í hættu.

Aðrir bikarleikir fóru þannig að Chelsea og Birmingham gerðu 1-1 jafntefli, Bolton vann Millwall á útivelli, B deildar lið Leicester vann Norwich á útivelli og Sunderland vann Arsenal. Nokkrir bikarleikir verða leiknir á morgun og líklega dregið í næstu umferð — meira um það síðar.

Comments are closed.