Everton vs. Blackpool í FA bikarnum

Á morgun (lau) kl. 15:00 tökum við á móti Blackpool á Goodison Park í 16 liða úrslitum FA bikarsins (5. umferð). Þetta er ekki í fyrsta skipti sem við tökum á móti liði úr B deildinni ensku í 5. umferð mjög stuttu eftir að hafa lagt Chelsea að velli en það gerðist einnig á síðasta tímabili, gegn Reading (sem við töpuðum — ekki sælla minninga). Þetta er því tilvalið tækifæri til að kveða niður þann draug.

Það er ekki laust við þó að maður sé hálf taugaveiklaður fyrir leikinn á morgun, því liðið sýndi gegn Man City, Wigan og Chelsea að við erum dottnir í gamla gírinn þar sem við vinnum efstu liðin en náum ekki að halda einbeitningu gegn "litlu" liðunum. Það má þó líklega halda því fram með góðri samvisku að allar líkur eru á að leikurinn verði hin besta skemmtun því tveir síðustu leikir Everton við Blackpool hafa endað með markasúpu. Í fyrra á Goodison Park unnum við Blackpool með 5 mörkum gegn þremur og útileikurinn endaði 2-2. Síðasti tapleikur okkar gegn Blackpool á heimavelli átti sér þó stað 1966 en þess ber að geta að fyrir þessa tvo leiki á síðasta tímabili höfðum við ekki mætt þeim síðan tímabilið ’80/81.

Blackpool eru með fínt lið þrátt fyrir að hafa misst Charlie Adam, DJ Campbell og David Vaughan en Blackpool náði næstum því að bjarga sér frá falli í fyrra með því að komast yfir gegn Man United í lokaleik tímabilsins en enduðu á að tapa leiknum sem sendi þá niður í B deildina. Þeir eru þessa dagana í 5. sæti í B deildinni, sem gefur færi á sæti í úrvalsdeildinni (í umspili).

Við erum án Jagielka, Osman og Rodwell vegna meiðsla. Einnig var sagt að Duffy glími við meiðsli á ökkla og Jelavic glími við einhverjar óræðar bólgur. Pienaar má jafnframt ekki spila í bikarnum en góðu fréttirnar eru þær að Coleman er þó kominn aftur og spilaði með varaliðinu á dögunum þannig að hann gæti átt séns í leikinn en það er mikilvægt að fá hann aftur þar sem lánssamningur Donovans endar bráðum. Moyes sagði jafnframt að Donovan hefði fengið flensu á dögunum og ekki víst að hann gæti verið með og því gæti svo farið að hann hafi spilað sinn síðasta leik fyrir Everton í bili. Drenthe ætti að geta byrjað í hans stað ef svo ber undir (eða Coleman ef hann er orðinn nógu góður). Hjá Blackpool er Matt Phillips eina vafaatriðið.

Líklega verður hefðbundin 4-5-1 uppstilling: Howard, Baines, Distin, Heitinga, Neville. Fellaini og Gibson á miðjunni, Gueye/Drenthe á vinstri, Donovan/Drenthe á hægri og Cahill til stuðnings Count Stracula frammi. Ef Donovan er veikur er valið auðvelt (Gueye á vinstri og Drenthe á hægri). Ef ekki verður erfitt að velja milli Gueye og Drenthe á vinstri kanti þar sem Gueye skoraði tvö með varaliðinu á dögunum (í leik gegn 6-3 leik gegn Newcastle þar sem Coleman, Barkley, Baxter og João Silva settu einnig eitt mark hver). Sá síðastnefndi var kallaður inn úr láni í Portugal eftir að Saha fór til Tottenham.

Fimm úrvalsdeildarlið leika sína bikarleiki á morgun (Chelsea fyrst, svo — öll á sama tíma — Everton, Bolton og Norwich og að lokum mætast Sunderland og Arsenal) en á sunnudag leika hin þrjú (Stoke, Tottenham og síðast en ek… já, og Liverpool). 

Í öðrum fréttum er það helst að hinn tvítugi Duffy var valinn í landsliðhóp Íra á dögunum, eftir mjög góða frammistöðu í fjarveru Distin. Aðrir Everton leikmenn í hópnum eru Darron Gibson og Seamus Coleman. Þeir mæta Tékkum í vináttuleik þann 29. þessa mánaðar. Einnig voru Hallam Hope og John Lundstram valdir í U18 ára hóp Englands sem mætir Póllandi í næsta mánuði. Svo má nefna að George Green skoraði í fyrsta leik sínum eftir að hafa komið inn á í hálfleik sem varamaður með U16 ára liði Englands gegn Spáni en við keyptum hann fyrir nokkru frá Bradford. Markið nægði til sigurs gegn Spáni þar sem það var eina markið í leiknum.

Að lokum má nefna að ungliðarnir Jake Bidwell, Aristote Nsiala og Luke Garbutt framlengdu lánssamninga sína hjá Brentford, Accrington Stanley og Cheltenham.

Comments are closed.