Everton – Manchester City 1-0

 Uppstilling svipuð og búist var við, nema Drenthe byrjaði inn á fyrir Gueye á vinstri kantinum og Hibbert tók stöðu Duffy í miðverðinum (!). Maður klóraði sér í hausnum yfir því þar sem Duffy hafði staðið sig mjög vel í miðverðinum í síðustu leikjum (og Hibbert er ekki miðvörður). Það kom þó ekki að sök því Hibbert átti fantagóðan leik, besta leik sinn á tímabilinu líklega og var valinn maður leiksins af Sky Sports. Hver segir að það sé skortur á miðvörðum hjá félaginu!? 🙂

Saha var ekki einu sinni á bekknum, enda kom síðar í ljós að hann er farinn til Tottenham. Stracqualursi byrjaði leikinn frammi, eins og á móti Fulham, enda skoraði hann mark síðast, Donovan á hægri og Gibson og Fellaini á miðjunni sem fyrr. Bekkurinn var unglegri en maður átti von á:  Gueye, Barkley, Vellios, Forshaw, Duffy, Baxter og Mucha.

Það var ekki of mikið um færi í fyrri hálfleik og leikurinn í járnum lengst af, City þó töluvert meira með boltann allan leikinn án þess að skapa of mikinn usla í vörn Everton. Fyrsta almennilega færið í leiknum kom þegar Stracqualursi fékk dauðafæri og skallaði í átt að marki City, boltinn fór framhjá Joe Hart í markinu en Joleon Lescott varði á línu. Hér vildu leikmenn Everton (og stuðningsmenn) fá mark, þar sem boltinn leit út fyrir að hafa farið yfir marklínu, en endursýning sýndi að svo var ekki. Staðan hálft-núll. 🙂 Richards hjá City hljóp síðar inn í teig og átti skot að marki úr þröngu færi hægra megin við markið en Howard varði. Ekkert of hættulegt. Aguero átti skot utan við teig en framhjá marki. Howard líklega tekið það ef það hefði hitt.

Þó nokkru síðar í fyrri hálfleik skallaði Stracqualursi boltann til Fellaini sem átti skot rétt framhjá en tveimur mínútum síðar var Nasri nálægt því að skora en hann átti fast skot að marki langt utan við teig sem fór í slána nálægt samskeytunum hægra megin og niður í jörðina og Howard varði svo skot upp úr frákastinu fra Aguero (sem var reyndar rangstæður). Staðan hálft-hálft. Það hefði verið týpískt að við fengjum á okkur svona „wondergoal“ mark á þessum tímapunkti en það gerðist ekki — í þetta skiptið.

Það helsta annað sem gerðist markvert í fyrri hálfleik var þegar áhorfandi hljóp inn á völlinn og handjárnaði sig við mark City, örugglega til að mótmæla hvalveiðum. 😉 Leikurinn hafði verið nokkuð fjörugur þangað til, og því voru áhorfendur ekki sáttir við að það tæki heilar 5 mínútur að losa hann af markinu til að leikurinn gæti haldið áfram og púuðu duglega.

Í hálfleik gekk Jelavic, nýi sóknarmaðurinn okkar, inn á völlinn og var vel fagnað. Hann hélt á treyju sem var árituð með nafni hans en ekki er ljóst hvaða númer hann fær (ætli hann fái ekki gamla númerið hans Bily?). Hægt er að sjá viðtalið við hann hér.

City byrjaði seinni hálfleikinn með frekari tilraunum til að brjóta vörnina á bak aftur en tókst ekki almennilega. Nasri átti skot sem fór af varnarmanni í horn, Lescott í færi braut á Howard (inni í innsta markteig) og sending fyrir markið frá vinstri kanti hitti Nasri fyrir en hann gat ekki stjórnað boltanum. Fellaini tæklaði boltann fallega af Aguero inni í teig sem datt við og heimtaði víti. Dómarinn sagði „Enga vitleysu“ og Match of the Day sagði í greiningu sinni eftir leikinn að það hafi verið rétt ákvörðun hjá dómaranum.

Í seinni hálfleik var það markverðast að Fellaini vinnur boltann glæsilega á miðjunni með vel tímasettri tæklingu, Drenthe nær boltanum og kemst framhjá einum City manni, brunar í átt að marki og sendir boltann á Baines á vinstri kanti sem sendir fyrir á Donovan (Stracqualursi framlengdi sendinguna með skalla) á fjærstöng. Donovan hættir við að skjóta og sendir boltann til baka á Gibson sem var utarlega í teignum aðeins til hægri við mitt markið og átti gott skot sem breytti um stefnu af Gareth Barry og framhjá Joe Hart í markinu. Staðan 1-0 á 60. mínútu og stemmingin á pöllunum alveg brjáluð! Manchini að verða sýnilega pirraðari og pirraðari. Athygli vekur jafnframt að Donovan er nú búinn að eiga síðustu þrjár stoðsendingar í röð sem gefa mark (ef ekki meira).

Nasri reyndi að svara og var næstum því heppinn úr þröngu færi alveg við endalínu og reyndi að vippa yfir Howard en boltinn fór yfir markið (ofanverða slána). Engin hætta, Howard með’ann allan tímann.

Gibson átti annað skot nokkru síðar langt utan við teig, en ekkert varð úr því (fór vinstra megin við markið). Stracqualursi gerði vel þó í að berjast um boltann í aðdragandanum og skapa færið.

Þegar um 20 mínútur voru eftir vildu City menn fá vítaspyrnu þegar City maður skaut beint í hendina á Phil Neville, en dómarinn lét sér fátt um finnast. Í greiningunni eftir leikinn kom í ljós að þeir áttu líklega að fá víti, en það fellur ekki allt með manni í dómgæslunni, frekar en í fyrri leik liðanna þar sem Kompany átti að fá rautt fyrir að traðka á Cahill (en slapp við það).

Leikurinn rann svo sitt skeið á enda og við fengum ekki skot á markið okkar að ég held síðustu 15 mínúturnar og því flottur 1-0 sigur í höfn á liðinu í efsta sæti, sigur sem Moyes sagði að væri einn sá sætasti síðan hann tók við stjórnvölnum hjá Everton.

Ég var ánægður með mína menn sem börðust eins og ljón og voru mjög hungraðir í sigur. Frábær stemming á vellinum líka, sem hefur örugglega hjálpað til og vonandi að þessir tveir síðustu leikir gefi tóninn fyrir restina af tímabilinu.

Moyes sagði jafnframt nýlega að sigrar breyttu algerlega viðhorfi manna innan og utan vallar og það er nokkuð til í því. Það hjálpar þó enn frekar til að maður sér liðið spila sem heild og lætur boltann ganga vel manna á milli. Helst að maður vildi sjá færri kýlingar fram völlinn (gekk mun betur þegar við reyndum að spila) og Drenthe hefði mátt leika aðeins betur en hann virðist eiginlega versna með hverjum leiknum sem líður, farinn að fremja klaufaleg og oft gjörsamlega ónauðsynleg brot og reynir of mikið að komast framhjá mönnum þegar einfaldara er að senda boltann á fría menn. Hann má þó eiga það, hann Drenthe, að þrátt fyrir gallana þá átti hann þátt í sigurmarkinu. Stracqualursi, sem byrjaði á sama tíma og Drenthe hefur vaxið með hverjum leiknum sem líður og var óþreytandi í baráttu sinni um allan völlinn og náði oft að fipa varnarmenn City með pressunni.

Einkunnir Sky Sports: Howard 7, Hibbert 9, Heitinga 8, Baines 7, Neville 7, Drenthe 7, Fellaini 7, Gibson 8, Donovan 8, Cahill 7, Strac 8. Varamenn: Baxter 6, Vellios 6. City menn fengu 6 á línuna, nema Kompany, Richards, Silva og Nasri, sem fengu 7.

Comments are closed.