Everton vs Man City

Everton mætir Manchester City í kvöld, kl. 20:00, á Goodison Park. Fyrri leikur liðanna á Etihad Stadium lauk með 2-0 sigri City í leik þar sem hallaði verulega á okkur í dómgæslunni. City gekk mjög illa að brjóta okkur niður enda tók Rodwell Da Silva úr umferð, eins og sagt er í handboltanum, og það var eins og þeir vissu ekki hvað þeir áttu að gera við því. Náðum við með þessu að vængstífa þá í yfir 60 mínútur og hefði verið fróðlegt að sjá hvað hefði komið út úr leiknum ef Balotelli hefði ekki í seinni hluta leiksins náð að skora upp úr innkasti sem við áttum að fá við vítateig okkar (en var gefið City) og ef Kompany hefði fengið rautt í leiknum, eins og hann átti skilið.

Balotelli er þó í banni núna eftir að hafa viljandi reynt að meiða leikmann Tottenham á dögunum með því að stíga ofan á hausinn á honum. Maður verður að viðurkenna að þó maður vilji helst ekki mæta honum á vellinum er erfitt að horfa ekki á hann spila. Þetta er svipað og að keyra fram hjá bílslysi því þessi maður er gangandi sirkus og er algjörlega glórulaus á köflum.

Meiðslalistinn okkar er langur þessa dagana (tæplega hálft byrjunarliðið): Coleman, Osman, Jagielka, Distin og Rodwell allir frá. Distin og Rodwell eru líklega ekki langt undan en Moyes sagði að þeir myndu þó ekki ná leiknum í kvöld þó þeir væru byrjaðir að æfa aftur. Jafnframt er Barkley orðinn góður, eins og fram hefur komið, en hann átti góðan leik með U18 ára liði Everton í 4-1 sigurleik gegn Man U. Kolo Toure og Yaya Toure eru ekki með City í kvöld, sökum Afríkukeppninnar.

Miðað við frammistöðuna í síðasta leik er ekki ósennilegt að sama liðið byrji og byrjaði þann leik. Það kemur þó í ljós. Við unnum þá 2-1 heima í fyrra og ef undan er skilinn heimaleikurinn á tímabilinu 08/09 þá höfum við ekki tapað fyrir City á heimavelli síðan 1992/93 (í 14 leikjum) og aðeins gert 4 jafntefli (unnið 8). City liðið er þó annað lið en verið hefur og engu til sparað í fjárútlátum undanfarin ár en við höfum alltaf náð einhverju extra á móti ríkisbubbunum þannig að þetta verður fróðleg viðureign. Það vinnur gegn okkur að hafa spilað bikarleik gegn Fulham þar sem City koma hvíldir til leiks en það verður bara að bíta í skjaldarrendurnar. City hefur gengið illa á útivelli undanfarið og aðeins unnið 1 af síðustu 5 leikjum (gegn Wigan), tapað fyrir Sunderland og Chelsea og gert jafntefli við West Brom og Liverpool. Það hefur líka mikið gengið á hjá þeim síðan um jólin því þeir hafa aðeins unnið 3 leiki síðan þá og dottið út úr báðum ensku bikarkeppnum.

Það kemur til með að mæða mikið á Baines en til gamans má geta þess að Everton síðan bar saman tölfræðina hjá honum og vinstri bakverðinum hjá City, Gael Clichy, og kom Baines mjög vel út úr þeim samanburði.

Ekki er líklegt að nýju leikmennirnir okkar verði löglegir í leiknum (Jelavic og Manolas) en það verður gaman að sjá þá taka til hendinni, ef svo má að orði komast.

Comments are closed.