Uppstillingin gegn Fulham kom nokkuð á óvart en Denis Stracqualursi fékk að byrja frammi ásamt Cahill og Gueye var á vinstri kantinum. Kannski kominn tími til að hvíla Saha sem hefur á tímabilinu ekki náð fyrra formi en valið á Gueye kom svolítið á óvart þar sem flestir bjuggust við að Drenthe fengi tækifæri til að byrja leikinn. Að öðru leyti óbreytt frá því síðast, Hibbert á bekknum og því Neville áfram hægri bakvörður og Duffy áfram í miðverðinum en Moyes hafði verið að spá í að spila Hibbert í miðverðinum þar sem hann er meiri reynslubolti en Duffy. Sem betur fer reyndist ekki þörf á því og Duffy átti enn einn fína leikinn í vörninni. Á bekknum: Hahnemann, Hibbert, Drenthe, Saha, Vellios, Anichebe, Baxter (sóknarbekkur).
Leikurinn byrjaði ágætlega og við vorum sterkara liðið frá upphafi, spiluðum einbeittir og þó nokkuð í sókn. Það virðist samt loða við okkur á tímabilinu að við fáum á okkur mark í fyrsta skipti (og stundum eina skiptið) sem andstæðingurinn fær almennilegt færi og þessi leikur engin undantekning. Í þetta skiptið á 14. mínútu þegar þeir náðu upp við marklínu vinstra megin við markið, á sóknarmann Fulham fyrir framan markið sem skýtur að marki sem Heitinga ver með líkamanum og fer í hendina hans. Víti. Murphy tekur vítið og sendir Howard í vinstra hornið og skorar í það hægra. Hann þar með 100% nýtingu úr síðustu 12 vítum. Staðan 0-1 fyrir Fulham, þvert gegn gangi leiksins.
Við brugðumst vel við því að lenda undir og héldum pressunni á Fulham, fengum hverja hornspyrnuna á fætur annarri og áttum nokkur færi, meðal annars flottan skalla frá Duffy sem var varinn á línu. Duffy, sem hefur verið að standa sig vel í vörninni, hefur einnig í síðustu leikjum sýnt það að hann er hættulegur í hornunum en hann hefur verið nálægt því að skora í að ég held öllum leikjum hans á tímabilinu. Cahill átti skalla og Gueye skot en náðum ekki að skora. En stuttu síðar (á 27. mínútu) uppskárum við laun erfiðisins þegar Neville sendir boltann upp völlinn hægra megin yfir á Donovan sem hleypur upp að vítateignum hægra megin en stoppar svo snögglega og sendir með vinstri fæti fyrir markið, beint á hausinn á Stracqualursi sem skallar boltann á fjærstöngina framhjá markverðinum og inn í markið. 1-1. Fyrsta mark Stracqualursi fyrir Everton. Langþráð og mikilvægt mark. Vonandi mörg fleiri á leiðinni.
Við héldum áfram pressunni og vorum mun betri það sem eftir lifði hálfleiks. Ruiz átti reyndar skot sem Howard varði vel en Fellaini og Donovan voru ekki langt frá því að bæta við mörkum með skotum utan við teig en þar við sat, 1-1 í hálfleik.
Í seinni hálfleik batnaði leikur Fulham nokkuð og meira jafnræði með liðum í færum þó ekki væru þau of mörg. Dempsey átti skot hátt yfir (ekki hans besti leikur). Donovan átti gott skot sem fór fram hjá og Gibson átti fyrirgjöf sem enginn náði til.
Á 73. mínútu höfðum við þó erindi sem erfiði og markið var eiginlega eftir nákvæmlega sömu forskrift og fyrra markið. Neville tók aukaspyrnu fljótt upp hægri kantinn á Donovan sem gaf fyrir markið. Í þetta skiptið beint á hausinn á Fellaini á fjærstönginni sem skallaði boltann yfir markvörðinn og í hornið. Óverjandi. Staðan 2-1.
Tim Cahill var næstum búinn að skora þriðja markið þegar hann sendi fastan skallabolta í slána eftir sendingu frá Neville en þar við sat. 2-1 urðu úrslitin og Goodison bölvun Fulham liðsins heldur áfram. Þeir hafa ekki unnið okkur á Goodison síðan 1975. Við höfum þó ekki miklar áhyggjur af því enda komnir í 16 liða úrslit í FA bikarnum og bíðum spenntir eftir því hverjir mótherjar okkar verða.
Sky Sports gefur ekki út einkunnir fyrir bikarleiki en á heildina litið var þetta fínn leikur hjá öllum Everton leikmönnum, Donovan og Fellaini stóðu upp úr, Fellaini maður leiksins að mínu mati.
Comments are closed.