Everton – Blackburn 1-1

Everton mætti Blackburn á heimavelli í gær við erfið skilyrði en það bæði rigndi og var vindasamt á meðan á leik stóð. 

Liðið var svipað og mætti Aston Villa, nema hvað Anichebe fékk að byrja leikinn (á vinstri kanti). Vörnin: Howard, Neville, Duffy, Heitinga, Baines. Miðjan: Fellaini og Gibson (sem fékk sitt fyrsta heimaleikjastart ásamt Duffy), Donovan á hægri kanti, Anichebe á vinstri, og Cahill fyrir aftan Saha frammi. Á bekknum: Mucha, Hibbert, Bily, Drenthe, Strac, Gueye og Vellios.

Við fengum fyrsta almennilega færi leiksins þegar Donovan sendi fyrir markið af hægri kanti en Anichebe á fjærstöng hitti boltann illa í ákjósanlegu færi. Það voru þó Blackburn sem léku betur í leiknum og fengu fleiri færi í fyrri hálfleik. Til dæmis voru þeir óheppnir að komast ekki yfir í upphafi leiks þegar Howard varði skot frá Dunn með fætinum niðri í vinstra horni. Baines varði síðar á marklínu skalla (frá Goodwillie að ég held). 

En á 24. mínútu gerist það að Anichebe gerir vel í að vinna lausan bolta inni í teig Blackburn vinstra megin við markið. Hann sendir út á kantinn á Baines sem, aldrei þessu vant, ákveður ekki að senda fyrir markið heldur stutt á Donovan sem beið eftir boltanum við horn vítateigs vinstra megin. Donovan sendir hátt inn í teig, á hausinn á Fellaini sem er beint fyrir framan markvörðinn sem ver skallann frá Fellaini. Frákastið fer hins vegar aftur til Fellaini sem er virðist nokkuð brugðið og slengir höndinni í boltann sem breytir um stefnu við það og fer frá honum og yfir til Cahill (sjá mynd) sem á ekki í nokkrum vandræðum með að setja boltann í netið gegnum fæturna á leikmanni Blackburn. Mikill léttir að sjá hann skora eftir ótrúlegt heilt ár af markaþurrð. Hefðum auðveldlega getað verið 0-2 undir á þessum tímapunkti en í staðinn komnir 1-0 yfir en þetta var farið að líkjast svolítið fyrri leiks okkar við Blackburn, þar sem þeir voru betri, áttu fullt af færum og tvö víti en skoruðu úr hvorugu og fengu svo á sig suckerpunch (víti frá Arteta).

Blackburn létu ekki bugast og voru næstum búnir að jafna þegar Dunn átti stangarskot og Cahill var næstum búinn að skora annað mark með skalla en Robinson varði vel.

Í seinni hálfleik héldu Blackburn pressunni áfram en færin létu á sér standa. Petrovic reyndi skot á markið en rétt fram hjá. Drenthe kom á 54. mínútu inn á fyrir Saha (sem hafði ekki verið atkvæðamikill í leiknum) og Drenthe skapaði ákjósanlegt færi þegar hann brunaði upp og sendi frábæra sendingu fyrir markið og framhjá öllum varnarmönnum og markverði Blackburn. Vantaði bara einhvern jafn fljótan og Drenthe til að taka við boltanum.

Við hefðum betur nýtt það færi því á 72. mínútu gerðist það að Blacburn sendir inn í teig þar sem Howard stekkur upp til að grípa boltann en rekst í leikmann Blackburn (ekki brot) og nær ekki að halda boltanum sem berst til aftasta manns (Cahill) sem reynir að hreinsa en skýtur í Goodwillie sem fær hann í hendina og skorar. Bæði lið þar með búin að skora eftir að hafa handleikið knöttinn. Staðan 1-1.

Við náðum upp svolítilli pressu aftur í lokin en þá var Shane Duffy óheppinn að skora ekki með flottum skalla sem fór í slána og út. Blackburn átti svo skot sem fór rétt fram hjá áður en þeir hreinsuðu tvisvar á línu, í fyrra skiptið eftir skalla frá Fellaini og síðar skot frá Straqualursi.

1-1 jafntefli svo sem ekki slæm hlutskipti með 6-7 menn úr aðalliðinu meidda og svona þegar horft er til færanna í leiknum og þess að Blackburn liðið lék betur. Jafnframt ekki laust við að maður sé þakklátur fyrir að komast í gegnum leikinn án þess að neinn meiddist. 🙂 Vona bara að Cahill sé farinn að skora aftur.

Frústrerandi að horfa upp á Saha ströggla frammi enn einn leikinn og Drenthe sýndi aftur hvað hann getur verið mistækur en hann átti fína spretti inn á milli klaufalegra brota og þess þegar hann skaut boltanum í bræðiskasti upp í stúku eftir að dómarinn var búinn að flauta. Hefði þar með átt að fá sitt annað gula spjald en dómarinn sleppti því. Jafnframt var þetta einn slakasti leikurinn sem Donovan hefur spilað undanfarið, þó hann, ásamt Anichebe og Fellaini hafi átt stóran þátt í marki okkar. En það voru ljósir punktar líka. Loksins mark hjá Cahill. Duffy kom vel út í vörninni. Fellaini út um allan völl og að komast í dauðafæri. Við þurfum þó að leika betur sem lið og gera mun betur ef við eigum að sigra Fulham í bikarnum á föstudaginn en þeir tóku Newcastle í bakaríið á heimavelli í gær, 5-2.

Einkunnir Sky Sports: Howard 5, Baines 5, Heitinga 5, Duffy 7, Neville 6, Gibson 5, Fellaini 6, Donovan 6, Anichebe 5, Cahill 6, Saha 4. Varamenn: Drenthe 6, Vellios 3, Stracqualursi 3. Leikmenn Blackburn komu mun betur út úr einkunnagjöfinni og áttu það skilið. Um helmingur með 6, hinn helmingur með 7, einn með 8.

Comments are closed.