Everton vs. Blackburn

Á morgun klukkan 15:00 mætum við Blackburn á heimavelli en þeir hafa verið að sýna ákveðin batamerki á leik sínum undanfarið. Blackburn hafa hægt og bítandi verið að vinna sig upp úr fallsætunum eftir jafntefli við Liverpool (á Anfield) og sigur á Man United (á Old Trafford) nýverið og svo sigur á Fulham á heimavelli í síðustu viku — í leik þar sem Yakubu var rekinn út af (sjá mynd).

Hann missir því af leiknum gegn okkur á morgun, sem er ágætt þar sem hann hefur verið duglegur að skora á sínu fyrsta tímabili með Blackburn. Því þykir líklegt að nýi láns-sóknarmaðurinn þeirra, Anthony Modeste frá Bordeaux, fái að spreyta sig í fyrsta skipti á morgun, þó ekki nema sem varamaður. Jafnframt þarf Steve Kean, þjálfari Blackburn, að ákveða hvað hann á að gera við Chris Samba, miðvörðinn sterka, sem lagði inn beiðni í vikunni um að verða seldur. Það ætti ekki að verða til þess að bæta vörnina hjá Blackburn sem hafa ekki haldið hreinu í neinum leik á tímabilinu (eftir að hafa spilað 21 deildarleiki, svo ekki sé minnst á aðra leiki).

Meiðslalistinn hjá okkur er svipaður og verið hefur (hálft byrjunarliðið á sjúkralistanum): Osman, Jagielka, Coleman, Rodwell, Barkley, Distin og Hibbert. Af þessum er Hibbert líklegastur til að spila en hann byrjaði að æfa aftur í vikunni. Að öllum líkindum verður Duffy áfram í vörninni, nýi miðjumaðurinn, Gibson, fær annan leik en Anichebe verður áfram á bekknum því Moyes vill passa að álagið á hann sé ekki of mikið eftir að hafa unnið sig upp úr erfiðum meiðslum.

Í öðrum fréttum er það helst að Leighton Baines var valinn leikmaður desembermánaðar fyrir Everton en á þeim tíma lék mjög vel gegn Stoke, Arsenal, Sunderland og Norwich og skoraði víti gegn Sunderland sem tryggði stig. Einnig skipti James Wallace um lánslið úr Stevenage yfir í Tranmere, en það er einmitt liðið sem Jose Baxter lék fyrir fyrr á tímabilinu.

Comments are closed.