Aston Villa – Everton 1-1

Liðsuppstillingin fyrir Aston Villa leikinn var svipuð og búist var við. Bæði miðvörðurinn Duffy og miðjumaðurinn Gibson komust í byrjunarliðið hjá Everton (vegna meiðsla lykilmanna), en annars var uppstillingin: Howard, Neville, Heitinga, Duffy, Baines. Fellaini og Gibson á miðjunni, Drenthe og Donovan á köntunum. Frammi voru Cahill og Saha. Jagielka, Hibbert, Osman, Rodwell og Coleman allir meiddir. Á bekknum: Gueye, Vellios, Anichebe, Straq, Bily og McFadden. Nýi lánsmaður Aston Villa, Robbie Keane, byrjaði á bekknum hjá þeim.

Villa átti fyrsta færið úr fínni aukaspyrnu sem Howard kýldi frá. Við byrjuðum annars líflega en Gibson átti fína sendingu á Cahill í dauðafæri upp við markið en Cahill reynir skot í fyrstu snertingu með vinstri fæti en hittir ekki boltann. Við fengum svo aukaspyrnu vinstra megin sem Baines sendi beint á hausinn á Saha á nærstönginni sem nær fínum skalla á markið en Shay Given í marki Villa varði frábærlega. Á 23. mínútu brunar Donovan upp hægri kantinn, sendir frábæra sendingu fyrir markið, beint á Saha, en varnarmaður Villa tekur í vinstri handlegginn á Saha (sem er að horfa til hægri að reyna að skalla boltann) og snýr Saha lítillega, nóg til að Saha missir jafnvægið, nær ekki skallanum og dettur við. Ekkert víti (enda Clattenburg að dæma) en bæði íslenski og enski þulurinn á því að þetta væri víti. Shay Given þurfti svo að taka á honum stóra sínum þegar Drenthe leikur á varnarmenn Villa og sendir fyrir markið og Warnock, varnarmaður Villa, (óvaldaður inn í eigin teig!) reynir að skora stórglæsilegt skallamark. En Shay Given, sem er nýkominn úr meiðslum, náði að verja frábærlega. Everton réði hér töglum og höldum í leiknum.

Rétt fyrir hálfleikslok náðu Villa menn skot á markið (Agbonlahor), langskot sem Howard átti ekki í of miklum erfiðleikum með að slá í horn. Líflegur fyrri hálfleikur þar sem við átt að geta verið búnir að gera út um leikinn með tveimur til þremur mörkum og einu víti. Því miður var staðan þó enn 0-0.

Villa menn fengu líklega að heyra það í hálfleik og lifnaði eitthvað yfir þeim. Við áttum þó fyrsta færi hálfleiksins þegar snemma í seinni hálfleik að Drenthe fékk aukaspyrnu fjarri marki vinstra megin sem Baines sendir fyrir markið þar sem Fellaini losar sig við varnarmann á fjærstöng og nær ágætum skalla á markið en Given nær að verja með öxlinni. Svo gerðist það að Villa nær sendingu fyrir markið inn af hægri kanti, Duffy skallar í átt að hornfána þar sem nokkrir leikmenn beggja liða eru, Villa leikmaðurinn Ireland fær boltann og sendir strax aftur fyrir markið, beint á Bent sem nær hálf skrýtnu skoti í jörð (eða í Neville) og upp aftur og inn í mark. Ekki mikið fyrir augað það markið en telur engu að síður. 1-0 fyrir Villa.

Villa styrktust eitthvað við markið og fóru að ógna meira. Bent náði skalla af löngu færi á markið en Howard réði vel við hann. Anichebe inn á fyrir Drenthe á 61. mínútu, en Drenthe var ekki alveg að virka á þeim tímapunkti. Á 69. mín á Villa slakt skot af löngu færi sem Howard grípur auðveldlega, kastar boltanum langt upp eftir á Donovan á vinstri kanti sem hleypur upp völlinn og út á miðjuna, framhjá Villa manni og splundrar svo vörn Villa með frábærri sendingu inn fyrir þar sem Anichebe kemur hlaupandi og rennir boltanum auðveldlega fram hjá Given. Frábært mark. Staðan 1-1. Villa menn vildu fá rangstöðu en endursýning sýndi að Donovan og Anichebe tímasettu þetta fullkomlega. 

Stuttu síðar var eins og Anichebe væri að fara að lenda í svakalegum meiðslum aftur þegar hann reyndi að koma í veg fyrir að við missum boltann út af í innkast, nær því en virðist snúa upp á hnéð og hrynur í jörðina. Ég hugsaði með mér að þetta væri algjörlega týpískt, Anichebe kominn aftur og virðist vera að losa Saha undan pressunni með því að lauma inn nokkrum mörkum sjálfur og þá meiðist hann. Hann stóð þó að lokum upp og hélt áfram, vonandi ekkert alvarlegt þar á ferðinni. 

Við settum Bily inn á fyrir Gibson á 84. mín og Straqualursi fyrir Saha á 88. mín en við náðum ekki að setja annað. Maður var svo sem ekki ósáttur við eitt stig á útivelli með hálft liðið á sjúkralistanum, en þegar litið er til færanna í leiknum þá hefðum við átt að vinna 1-4. Annar leikurinn í röð gegn Villa á tímabilinu þar sem við dóminerum, eigum öll bestu færin, áttum að fá vítaspyrnu en fengum ekki (takk Clattenburg!) en endum með eitt stig, þökk sé Given í marki Villa.

Fínn byrjunarleikur hjá Gibson sem á örugglega eftir að sýna það að Moyes gerði fín kaup. Hann byrjaði leikinn vel og skapaði færi en vantar enn leikæfingu og virkaði stirður í lokinn þegar honum var skipt út af. Duffy (maðurinn sem lét næstum lífið þegar æð rofnaði í lifrini á honum fyrir um 20 mánuðum síðan) kom líka ágætlega út í leiknum, spilaði vel og gerði engin alvarleg mistök. Moyes var sáttur við báða en Donovan þó maður leiksins… eða kannski Shay Given. Erfitt að segja.

Einkunnir Sky Sports: Howard 6, Baines 6, Heitinga 5, Duffy 6, Neville 6, Drenthe 5, Fellaini 6, Gibson 6, Donovan 8, Cahill 6, Saha 6. Varamenn: Anichebe 7, Bily 6, Straq 5.

Comments are closed.