Everton – Tamworth 2-0

Moyes tók enga sénsa á móti utandeildarliði Tamworth í gær, en hann stillti upp einu sterkasta liðinu sem hann hafði yfir að ráða (eftir því sem sjúkralistinn leyfði honum). Howard var í markinu, Heitinga og Distin í miðju varnar, Neville vinstri bakvörður (Baines hvíldur) og Coleman sá hægri (Hibbert meiddur). Bily fékk tækifæri á miðjunni við hlið Fellaini (en ekki á kantnum eins og venjulega), Gueye var vinstra megin og Donovan hægra megin. McFadden og Anichebe frammi. 

Við byrjuðum einkar vel en á fimmtu mínútu þegar fyrsta hornið í leiknum leit dagsins ljós sendi Landon Donovan boltann fyrir markið þar sem Heitinga var óvaldaður á fjærstönginni (hægra megin) og skallaði boltann í markið (sjá mynd). Boltinn breytti pínulítið stefnu af varnarmanni Tamworth, en markvörður þeirra hefði líklega hvort eð er ekki varið.

2 mínútum síðar var Anichebe næstum búinn að skora mark sem hefði svipað til marks hans gegn West Brom um daginn (fær boltann með bakið í markið á vinstri nærstöng, snýr sér vel og skýtur strax) en skotið lægra og markvörður Tamworth varði vel með fætinum. McFadden fékk einnig gott færi inn í teig eftir hælsendingu frá Bily, en skotið fór rétt fram hjá hægra megin.

Kyle Patterson átti besta (eina?) færi Tamworth í leiknum í fyrri hálfleik en hann geystist upp völlinn og náði skoti rétt utan við teig, en skot hans rétt fór fram hjá vinstra megin.

Það fór ekki svo að sjúkralistinn myndi ekki lengjast hjá okkur en Coleman (sem er nýkominn aftur eftir meiðsli) var skipt út af vegna meiðsla í seinni hálfleik (á 57. mínútu) og kom Baines inn á fyrir hann og lífgaði töluvert upp á leikinn.

Baines átti fyrst fallega fyrirgjöf frá vinstri kanti á Donovan sem reyndi skot í fyrstu snertingu á færstöngina hægra megin en boltinn fór hárfínt framhjá. Bily reyndi svo þrumuskot af löngu færi sem markvörður Tamworth varði vel.

Á 79. mínútu gerðist það að Drenthe (sem hafði komið inn á fyrir McFadden á 65. mínútu) fékk sendingu inn í teig og hljóp í átt að marki en Samuel Habergham fellir hann. Dómarinn dæmdi víti og Baines sendi markvörðinn í vitlaust horn og skoraði örugglega. Staðan 2-0.

Undir lokin var Donovan næstum búinn að skora þriðja mark Everton með hægri fótar skoti af löngu færi en boltinn fór í samskeytin utanverð og út af.

Þegar dómarinn flautaði leikinn af stóðu stuðningsmenn Tamworth og Everton upp og klöppuðu til að heiðra Tamworth fyrir góðan leik. Þeir lentu undir í byrjun en gáfust aldrei upp og voru að allan leikinn. Okkar menn gerðu rétt nóg til að fara áfram í bikarnum. Vonandi verður drátturinn í dag okkur hliðhollur en dregið verður í bikarnum síðar í dag. Meira um það síðar…

Engar einkunnir fylgja því Sky Sports gefur ekki einkunnir fyrir bikarleiki. 

Hægt er að sjá færi leiksins hér (þangað til lokað verður á það). 

Comments are closed.