Þá er komið að þriðju umferð FA bikarsins þar sem við mætum Tamworth á heimavelli á morgun, kl. 15:00.
Everton hefur aldrei áður leikið við Tamworth en þeir eru eins og er í 14. sæti utandeildarinnar og hafa þeir ekki unnið í síðustu 5 leikjum sínum í röð (alveg síðan þeir, manni fleiri, unnu utandeildarliðið Gateshead í 2. umferð FA bikarsins). Þeir hafa aldrei komist lengra en 3. umferð FA bikarsins en Moyes sagði að við myndum taka leikinn við Tamworth af alvöru enda væri þetta síðasti sénsinn fyrir Everton að vinna eitthvað bitastætt á tímabilinu. Líklega verður liðið blanda af eldri og yngri leikmönnum og ekki ólíklegt að við fáum að sjá leikmenn á jaðrinum, eins og Velios, Anichebe, McAleny, McFadden og Bily.
Þær slæmu fréttir bárust að Jagielka verði frá í um sex vikur vegna meiðsla sem hann hlaut í leiknum gegn Bolton. Það er skarð fyrir skildi að missa miðvörðinn sem er búinn að vera óheppinn með meiðsli síðan hann komst í enska landsliðið og ljóst að Heitinga þarf að taka á honum stóra sínum, en hann var hálf utangátta við hliðina á Distin í síðasta leik. Nær greinilega betur saman við Jagielka en Heitinga og Distin verða að finna út úr því.
Sjúkralistinn lengist því enn hjá okkur, en fyrir utan Jagielka eru þessir einnig fjarverandi: Cahill (nári), Barkley (hné) og Rodwell (læri). Ekki hefur enn verið staðfest hvort Fellaini eða Coleman séu orðnir góðir en Osman þarf skurðaðgerð til að losna við bein sem er laust í hnénu á honum. Drenthe er líklega búinn að jafna sig á veikindum sem hafa hrjáð hann. Enginn þessara leikmanna var þó hvort eð er líklegur til að spila bikarleikinn á morgun en spurning hvort þeir verði orðnir góðir fyrir leikinn við Tottenham á miðvikudaginn. Hjá Tamworth er fyrirliðinn, Paul Green, í banni og óvíst með einn miðjumanninn þeirra.
Af lánsmönnum er það að frétta að varnarmaðurinn Shane Duffy var afturkallaður úr láni frá Scunthorpe, kannski til að spila í vörninni gegn Tamworth. Hann spilaði 19 leiki með þeim og skoraði tvö mörk. Einnig var 19 ára miðvörðurinn Aristote Nsiala lánaður til Accrington Stanley í einn mánuð og lán á varnarmanninum Bidwell framlengt um 1 mánuð.
Comments are closed.