Everton vs. Bolton

Bolton sækir okkur heim á morgun (mið) kl. 20:00. Þeir eru eins og stendur í neðsta sæti deildarinnar eftir að Blackburn lyfti sér af botninum með mjög svo óvæntum sigri á Man Utd í síðustu umferð. Það er pressa á Bolton (og Owen Coyle þjálfara þeirra) að standa sig en eina liðið sem Bolton hefur unnið undanfarna 8 leiki eru einmitt Blackburn. Síðasti leikur hjá Bolton fór 1-1 gegn Úlfunum. Við erum taplausir í 4 leikjum (2 sigrar og 2 jafntefli) en við spiluðum síðast við Bolton í nóvember (á útivelli) og unnum þá 0-2 í leik þar sem David Wheater var rekinn út af fyrir klaufalegt brot á Bily.

Það er svo til þess að auka pressuna á Bolton að þeir samþykktu á dögunum tilboð Chelsea í sinn besta varnarmann, Gary Cahill, og á Gary þessa dagana í samningaviðræðum við þá (verður mögulega annars hugar ef hann spilar). 

Tölfræðin okkar gegn Bolton er mjög góð, en hún sýnir 49% : 25% : 26% (S:J:T) á heildina litið og er enn betri á heimavelli okkar (eins og við er að búast): 57% : 28% : 15%. Við höfum ekki tapað heima fyrir Bolton síðan tímabilið 2005/06, unnið fjóra (með markatölunni 8-0) og gert 1-1 jafntefli (heimaleikurinn á síðasta tímabili). 

Fellaini og Coleman verða líklega fjarverandi vegna meiðsla og mögulega Drenthe einnig. Rodwell spilaði síðasta leik en var skipt út af, mögulega til öryggis svo meiðslin taki sig ekki upp aftur. Það er því líklegt að Neville og Heitinga taki miðjuna aftur með Osman á kantinum og mögulega Gueye eða Bily hinum megin. Ekki er ólíklegt að Donovan og Anichebe fái að spreyta sig af bekknum en sá fyrrnefndi er nýorðinn löglegur með okkur. Vörnin velur sig sjálf fyrir leikinn en ég þori varla að spá hverjir verða frammi í leiknum.

Þess má í lokin til gamans geta að þessi lið mættust fyrst árið 1887 í FA bikarnum á Goodison Park í leik sem endaði 2-2 og þurfti þrjá leiki samtals til að útkljá þá viðureign (unnum 2-1 á Goodison).

Comments are closed.