Á nýársdag læsum við hornunum við West Brom á útivelli, kl. 12:30. Leikurinn var áður settur á gamlársdag en færður til um einn dag í þeirri viðleitni að hefta drykkju Everton-stuðningsmanna undir lok ársins.
Liðin eru á svipuðu róli í deildinni, West Brom í 9. sæti, einu sæti ofar en Everton með einu stigi og einum fleiri leik spiluðum en við en lakari markatölu (-7 vs -2). Okkur hefur gengið misjafnlega gegn West Brom á útivelli í gegnum tíðina, töpuðum 1-0 í fyrra, stuttu eftir að Roy Hodgson hafði hrist upp í þeim og komið þeim upp úr botnbaráttunni. Leikurinn var líklega eftirminnilegastur fyrir það að Bily var rekinn út af. Árið þar á undan unnum við þá 1-2 á útivelli. Á síðasta tímabili töpuðum við báðum leikjum okkar gegn þeim en á þessu tímabili unnum við þá á heimavelli í deildarbikarnum, 2-1 í framlengdum leik, þar sem Fellaini jafnaði á lokamínútunum og Neville skoraði dúndurmark með glæsilegu skoti utan við teig.
Fellaini verður líklega fjarri góðu gamni þó, því hann missti af leiknum við Sunderland og ekki víst að hann verði orðinn góður frekar en þeir Coleman og Rodwell. Það verður því væntanlega hálf vængbrotin miðja hjá okkur, annan leikinn í röð, og ekki ólíklegt að Heitinga og Neville fái að spreyta sig aftur á miðjunni. Vonandi er þess ekki langt að bíða að Rodwell komi aftur (að maður tali nú ekki um Fellaini). Mikið var rætt um hvort Landon Donovan, sem mætti á svæðið í dag (sjá mynd), verði orðinn löglegur fyrir leikinn gegn West Brom, en svo er ekki. Hann er því ekki löglegur fyrr en 4. jan gegn Bolton. Hjá West Brom er óvíst með Mulumbu og Steven Reid.
West Brom er þessa dagana á töluverðri siglingu, eins og síðast þegar við mættum þeim á heimavelli, en þeir eru taplausir síðan þeir mættu Wigan á heimavelli (þ.e. taplausir í þremur), og hafa á þeim tíma náð markalausu jafntefli við Man City og sigrað bæði Newcastle og Blackburn á útivelli. Við erum taplausir í þremur leikjum líka, síðan við mættum Arsenal, en höfum aðeins fengið 5 af mögulegum 9 stigum eftir tvo jafnteflisleiki (Sunderland og Nowrich) og einn sigur (gegn Swansea). West Brom gengur þó afskaplega illa að skora á heimavelli (aðeins skorað 7 heima það sem af er tímabilinu, fæst allra liða) þannig að líklega er ekki von á markaflóði í leiknum þegar litið er til þess að við höfum ekki verið að skora mikið af mörkum undanfarið (né fá á okkur mikið af mörkum undanfarið). Þó hefur ekki verið markalaust jafntefli hjá þessum liðum í hartnær þrjátíu ár. West Brom er jafnframt það lið sem skorar flest af sínum mörkum í fyrri hálfleik (63%) en við erum það lið sem skorar flest í seinni hálfleik (72%). West Brom hefur jafnframt gefið andstæðingunum 4 víti í síðustu 5 heimaleikjum sem við ættum ekki að eiga í erfiðleikum með að nýta okkur.
Svo framarlega sem við töpum ekki þessum leik rjúfum við 1000 stiga múrinn (frá því að Úrvalsdeildin var stofnuð), en aðeins 6 aðrir klúbbar hafa náð því. Í öðrum fréttum er það helst að ungliðarnir Luke Garbutt, Jake Bidwell og Shane Duffy framlengdu lán sitt hjá Cheltenham, Brentford og Scunthorpe, um einn mánuð enn. Þeir verða því allavega í láni fram í miðjan febrúar.
Comments are closed.