Þessi leikur þróaðist eins og leikurinn gegn nýliðum Norwich í síðustu viku: við vorum meira með boltann, vorum eina liðið að skapa færi allan fyrri hálfleikinn (Swansea átti ekki einu sinni skot að marki í fyrri hálfleik, hvað þá á markið). Við áttum nóg af skotum sem mörg rötuðu á markið en varnarmenn og markvörður Swansea björguðu á síðustu stundu. Jafnframt skoraði Osman í báðum leikjum… eftir stoðsendingu frá Drenthe, alveg eins og í síðasta leik. Munurinn í þetta skiptið lá þó í því að við náðum að halda hreinu, sem hefur sárlega skort á tímabilinu (sérstaklega á heimavelli) og því tókum við öll þrjú stigin og lyftum okkur upp í 11. sæti, með leik til góða á öll nágrannaliðin.
Uppstillingin var nokkuð hefðbundin: Howard, Hibbert, Heitinga, Jagielka, Baines í vörninni. Felli og Neville á miðjunni, Coleman og Drenthe á köntunum. Osman kom inn á fyrir Cahill í stöðunni fyrir aftan Saha. Á bekknum: Mucha, McFadden, Straqualursi, Distin, Barkley, Gueye og Cahill. Coleman meiddist reyndar í leiknum og franska leynivopnið (Gueye) kom í hans stað og fékk tvö góð færi í fyrri hálfleik til að komast yfir, en markvörðurinn varði í bæði skiptin (við áttum reyndar að fá víti í millitíðinni því boltinn fór í hendina á Ashley Williams (sem hafði fengið gult fyrir að handleika boltann utan teigs stuttu áður, en hvað um það — business as usual). Gueye var þó líflegur í leiknum sem og Drenthe sem var maður leiksins að mati Sky Sports. Drenthe og Baines sköpuðu helstu færin fyrir aðra og Drenthe var úti um allan völl að pressa, stundum tæklandi menn (og vinna boltann) jafnvel upp við eigin marklínu (utan við teig). Vörnin var jafnframt sterk og Fellaini og Osman áttu góðan leik.
Dagsskipunin var greinilega að sækja á Swansea (þegar við náðum boltanum) en pressa vel á þá út um allan völl (um leið og við misstum boltann) — nokkuð sem mér hefur fundist við mega gera miklu meira af enda gafst það mjög vel. Við unnum boltann víðs vegar um völlinn og náðum að framkalla feila hjá þeim.
Við fengum nóg af færum til að gera út um leikinn í fyrri hálfleik, en eins og svo oft áður vantaði herslumuninn í sókninni til að við skoruðum mark. Hornspyrnur og sérstaklega aukaspyrnur, venjulega einn af okkar helstu styrkleikum, voru margar slakar og fóru forgörðum þrátt fyrir ákjósanlegar staðsetningar (á mörgum aukaspyrnunum).
Ein hornspyrnan stóð þó upp úr á 60. mínútu þegar (einn) minnsti maðurinn á vellinum (Osman) stökk upp og skallaði boltann í netið eftir fína hornspyrnu frá Drenthe.
Og það var nóg til að skilja að liðin enda leit Swansea aldrei út fyrir að ná að stela stigi. Þeir áttu einn skalla inni í teig (beint á Howard) og hin þrjú skotin sem rötuðu á markið voru við eða rétt utan við teig.
Einkunnir Sky Sports: Howard 6, Baines 7, Heitinga 6, Jagielka 7, Hibbert 7, Coleman 6, Neville 6, Drenthe 9, Osman 8, Fellaini 7, Saha 6. Varamenn: Cahill 6, Gueye 7, Straqualursi 6. Sá eini sem stóð upp úr hjá Swansea var markvörðurinn þeirra (Vorm) með 8. Aðrir voru lægri (langflestir með 6).
Comments are closed.