Arsenal – Everton 1-0

Arsenal grýlan lifir enn góðu lífi, því miður. Miðað við gengi okkar gegn Arsenal undanfarin ár hefði ég verið sáttur við stöðuna 0-0 sem lengst í leiknum með þá von í bakhöndinni að við myndum eiga séns á að stela sigrinum með einu marki, t.d. skallamarki frá Cahill. Og það leit þannig út lengi vel, því þó Arsenal næði að skapa sér færi þá var vörnin og Howard í markinu á réttum stað á réttum tíma til að koma í veg fyrir mark. Howard þurfti aðeins að taka á stóra sínum einu sinni í fyrri hálfleik því Arsenal rembdust og rembdust en höfðu ekki erindi sem erfiði og eftir því sem leið á leikinn efldumst við, fengum meira sjálfstraust og vorum meira með boltann.

Hefðbundin uppstilling að mestu hjá okkur. Vörn og mark (Distin á bekknum) eins og í síðustu viku en Rodwell og Osman meiddir þannig að Neville og Fellaini spiluðu á miðjunni hjá okkur, Coleman og Bily á köntunum. Cahill fyrir aftan Saha frammi. 

Arsenal liðið spilaði sökum meiðsla með fjóra (!) miðverði í vörninni í leiknum, sem kom sér ágætlega (fyrir þá) að verjast fyrirgjöfum okkar (margir góðir skallamenn). En eins og á móti Stoke áttum við þó nokkuð af fyrirgjöfum en áttum samt í nokkrum erfiðleikum með að skapa okkur almennilega hættuleg færi sem hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir Moyes þegar félagaskiptaglugginn opnar í janúar. 

Van Persie, sem hefur verið í fantaformi fyrir Arsenal upp á síðkastið, sýndi Wenger það svo um munaði að það er ekki hægt að skipta honum út af, alveg sama þó hann eigi arfaslakan leik. Hann átti í mestu vandræðum með að halda boltanum inni á vellinum sem og að halda sér réttu megin við vörnina í sendingum og skotin hans voru ekki upp á marga fiska. Þetta var orðið svo pínlegt að þulirnir ensku tóku það fram að hann væri að spila einn versta leik sinn á tímabilinu. En svo allt í einu, algjörlega upp úr þurru, þegar við virðumst vera að ná yfirhöndinni í leiknum, vippar Song boltanum inn í teig, rétt yfir hausinn á Jagielka og Van Persie smellhittir boltann í fyrstu snertingu, stöngin inn. Óverjandi og eitt af mörkum tímabilsins, að mati ensku þulanna — Van Persie skorar sigurmarkið með glæsilegum hætti en fer svo beint í að hjakka aftur í sama farinu.

1-0 tap staðreynd, aðra vikuna í röð en það var gaman að sjá Conor McAleny fá sinn fyrsta leik og vera ekki langt frá því að skora með hörkuskoti af löngu færi og sjá Gueye fá tækifæri á kantinum líka. Næsti leikur er á heimavelli gegn Norwich, þurfum að gera betur þar.

Einkunnir Sky Sports: Howard 6, Baines 7, Heitinga 7, Jagielka 6, Hibbert 6, Bily 5, Fellaini 7, Neville 6, Coleman 7, Cahill 6, Saha 5. Varamenn: Distin 5, Gueye 5, McAleny 7. Arsenal einkunnirnar voru örlítið lægri, aðallega sexur, tvær sjöur og ein átta.

Í öðrum fréttum er það helst að Ross Barkley er við það að skrifa undir 5 ára samning en hann varð 18 ára í vikunni og er talinn einn af efnilegustu ungu leikmönnum Englands um þessar mundir.

Einnig var ársreikningurinn fyrir 2010 birtur en þar kemur fram að það var hálfrar milljóna punda tap á rekstrinum áður en horft er til hagnaður á félagaskiptum (sem ætti að vera þó nokkur). Tekjurnar jukust, sérstaklega vegna aukins hluts í tekjum af sjónvarpsútsetningum (extra 2.9M punda) og launakostnaður jókst einnig, enda gerðum við langtímasamninga við nokkra lykilmenn. Skuldir héldust stöðugar í tæpum 45M punda. Þeir sem vilja kynna sér tölurnar nánar geta fengið nánari upplýsingar á Everton síðunni og hér.

Comments are closed.