Everton – Wolves 2-1

Það var mikilvægt að komast aftur á sigurbraut eftir erfiða törn undanfarið þar sem við lékum við fjögur af sterkustu liðunum í Úrvalsdeildinni og þetta var flottur 2-1 sigur hjá okkar mönnum á Úlfunum í dag. Við höfum oft á löngum köflum í leikjum okkar útilokað andstæðingana frá því að eiga hættuleg færi en ekki minnist ég þess um allavega töluvert skeið að lið hafi mætt á Goodison og ekki átt eitt _einasta_ almennilegt færi í öllum leiknum! Jú, Úlfarnir skoruðu reyndar mark á 36. mínútu eftir að hafa nælt sér í víti við horn vítateigsins (í nákvæmlega engu færi) en að öðru leyti komust þeir næst því að skora þegar þeir áttu aukaspyrnu nokkuð fyrir utan teig sem sigldi framhjá markinu. Þrjú víti höfðu í fyrri leikjum gegn Tim Howard á tímabilinu farið forgörðum (tvö af þeim sem Howard varði og eitt í stöng) en það var til of mikils ætlast að fjórða vítið í röð færi forgörðum líka. Staðan því 0-1 fyrir Úlfana, afskaplega óverðskuldað þar sem við réðum lögum og lofum í leiknum, héldum boltanum miklu betur en Úlfarnir, sköpuðum okkur hættuleg færi og nældum okkur í margar hornspyrnur — nokkuð sem ekki verður sagt um Úlfana í öllum leiknum.

Við áttum auk þess að fá víti nokkru eftir markið þegar Cahill var rifinn niður inni í vítateig en ekkert var dæmt og það þurfti frábæra tæklingu frá varnarmanni Úlfanna til að koma í veg fyrir að Drenthe (sem hafði sloppið í gegn) næði að skjóta einn á móti markverði en rétt fyrir lok hálfleiks höfðum við loks erindi sem erfiði þegar við fengum aukaspyrnu eftir að brotið var á Cahill á vinstri kantinum. Baines vippar boltanum glæsilega inn í teiginn úr aukaspyrnunni beint á hausinn á Jagielka sem skallar í netið. Og þannig endaði fyrri hálfleikur — staðan 1-1.

Við héldum áfram að dóminera leikinn í seinni hálfleik og settum pressu á mark Úlfanna en náðum ekki að klára færin. Fengum þó loks víti á 82. mínútu þegar Saha var hrint inni í teig og Baines (sjá mynd) átti ekki í nokkrum vandræðum með að senda markvörðinn í vitlaust horn og setja boltann í netið. Við hefðum getað skorað nokkur mörk í seinni hálfleiknum en vítið var nóg til að skilja að liðin. 

Mjög verðskuldaður 2-1 sigur í höfn enda við miklu betra liðið á vellinum. Skv. leikskýrslu BBC vorum við 61% með boltann, áttum 9 skot á markið (gegn aðeins 1 skoti Úlfanna — að vítinu meðtöldu, líklega) og áttum 9 hornspyrnur gegn einni frá Úlfunum.

Hægt er að sjá mörkin hér.

Einkunnir Sky Sports: Howard 6, Baines 8, Heitinga 6, Hibbert 7, Jagielka 7, Coleman 7, Cahill 6, Fellaini 6, Osman 6, Drenthe 7, Saha 7. Varamenn: Bily 5, Vellios 6, Straqualursi 5. Hjá Úlfunum átti markvörðurinn stórleik með 8, fjórir fengu sjöur en aðrir voru með 6. 

Verð að vera nokkuð sammála Sky Sports með einkunnirnar. Baines stóð upp úr með mark úr víti, eina stoðsendingu og fullt af hættulegum fyrirgjöfum fyrir markið sem hann virðist framkvæma fyrirhafnalaust. Mjög gott að sjá hann við það að ná aftur fyrra formi.

Comments are closed.