Newcastle – Everton

Á morgun (lau) sækjum við Newcastle heim, á St. James’ Park kl. 12:45. Newcastle er á mikilli siglingu þessa dagana, spútnikliðið í ár, og er eina liðið (fyrir utan Man City) sem hefur ekki tapað það sem af er tímabilinu (þar af unnið þrisvar í 5 leikjum á heimavelli). David Moyes var reyndar sá síðasti til að stýra liði til sigurs á Tyneside, í 1-2 sigri í mars síðastliðnum (með mörkum frá Osman og Jagielka), þannig að það er aldrei að vita. Þetta er lokaleikurinn okkar í mjög erfiðri törn þar sem við mættum meðal annars 5 af 6 efstu liðunum í deildinni, sumum tvisvar (t.d. Chelsea í deild og deildarbikar). Tölfræðin er ekki með okkur á Tyneside, en fyrir sigurleikinn í mars þurfti að fara í gegnum 5 töp og 4 jafntefli til að finna síðasta sigurleik (tímabilið 2000/2001) á heimavelli Newcastle.

Anichebe er sem fyrr meiddur og spurning með Distin, Neville og Cahill sem allir misstu af síðasta leik okkar (á móti United). Myoes vildi reyndar meina að þeir yrðu ekki lengi frá. Stuðningsmenn Everton verða fegnir að sjá Drenthe koma aftur í liðið eftir eins leiks bann en á móti missum við Fellaini sem er í banni fyrir að hafa safnað nægilega mörgum gulum spjöldum síðan tímabilið hófst. Þess má til gamans geta að Fellaini og Cahill reyndar misstu báðir af sigurleiknum gegn Newcastle í mars. Hjá Newcastle er spurning með Cheik Tiote en Ameobi og Obertan eru meiddir.

Í öðrum fréttum er það helsta að Luke Garbutt framlengdi lán sitt hjá Cheltenham um einn mánuð en bæði hann og Shane Duffy hafa verið að gera það gott með sínum lánsliðum. Miðjumaðurinn James Wallace (19) var svo lánaður til Shrewsbury í einn mánuð til að byrja með.

Af öðrum ungliðum er það að frétta að Rodwell og Barkley voru valdir í U21 árs lið Englands en jafnframt hefur verið rætt um að Rodwell sé að verða tilbúinn í leik með aðal-landsliði Englands. Jake Bidwell (19) var svo valinn í U19 ára lið Englands á dögunum en hann hefur spilað með U16 og U17 liðum Englands. Í lokin má svo geta þess að Seamus Coleman var valinn í landslið Írlands.

Comments are closed.