Fulham – Everton

Á sunnudaginn kl. 12:30 er leikur við Fulham á þeirra heimavelli, Craven Cottage. Fulham hefur farið rólega af stað í deildinni (líkt og við) en þeir unnu sinn fyrsta leik í deildinni þegar þeir gjörsigruðu QPR 6-0 á heimavelli í byrjun október (síðasti heimaleikur þeirra). Við aftur á móti höfum tapað síðustu þremur leikjum en það þarf að fara nokkur ár aftur í tímann til að finna tvo tapleiki í röð hjá okkur (hvað þá þrjá).

Það var reyndar vitað að þetta yrði mjög erfið törn hjá okkur og þegar horft er til baka þá geta flest lið svo sem ekki kvartað mikið yfir töpum í útileikjum gegn Man City og Chelsea. Þetta eru lið sem hafa fjárfest stórum upphæðum í mjög góða leikmenn og eru með feykisterk lið sem eiga eftir að vera í baráttunni um toppsætin. Liverpool, aftur á móti… Þeim leik áttum við ekki að tapa og ef eitthvað er að marka fyrstu 20 mínúturnar í þeim leik hefðum við ekki gert það ef dómarinn hefði ekki ákveðið að skakka leikinn. Ég lít allavega svo á að þrír tapleikir í röð gefi ekki alveg rétta mynd af ástandinu. Hvað um það, við horfum fram veginn og reynum að bæta þetta upp gegn Fulham.

Þeir töpuðu í gær á útivelli í Evrópukeppninni og voru manni færri tvo þriðju leiksins þannig að það er aldrei að vita nema bæði flug- og leik-þreyta eigi eftir að segja til sín. Þegar sagan er skoðuð erum við þó með slakan árangur undanfarið á Craven Cottage: 0-0 jafntefli í fyrra, 2-1 tap þar áður en svo 2-0 sigur í leiknum þar á undan en sá sigur endaði einmitt 8 tapleikja röð okkar á þeirra heimavelli. Á heildina litið (frá upphafi, allir leikir) er tölfræðin 23 : 12 : 18 (Sigrar:J:T). Heima, aftur á móti, höfum við unnið þá í yfir 70% tilvika (100% síðan úrvalsdeildin var stofnuð!).

Hjá okkur eru allir heilir nema Anichebe (meiddur) en ólíklegt er að McFadden fái að spreyta sig. Líklegt þykir jafnframt að Heitinga sé orðinn góður. Hjá Fulham er spurningarmerki við fyrirliðann Danny Murphy, sem hefur verið meiddur á hné og sama á við um bæði Simon Davies og Brian Ruiz. Phillipe Senderos er jafnframt sagður tognaður á læri. Hjá okkur léku Gueye og Barkley heilan leik með varaliðinu ásamt Hahnemann (sem hélt hreinu í 2-0 sigri) og McFadden spilaði í 45 mínútur.  

Og talandi um McFadden þá er "retro" vika hjá Everton þessa dagana en Duncan Ferguson er hjá félaginu að kynna sér þjálfaramál, mögulega með það fyrir augum að þjálfa yngri flokkana að þjálfaranámi loknu.

Af öðrum leikmannamálum má geta Hibbert var valinn leikmaður septembermánaðar og kantmaðurinn Femi Orenuga (18 ára) var lánaður til Notts County í einn mánuð. Hann á væntanlega eftir að njóta góðs af þeirri veru, sem og aðrir lánsmenn, eins og Jose Baxter (Tranmere), Luke Garbutt (Cheltenham) og Shane Duffy (Scunthorpe). Einnig er búist við að smástirnið Ross Barkley semji við Everton til 5 ára þegar hann verður 18 ára (í desember) en hann er of ungur til að semja til lengri tíma eins og er.

Og að lokum er hér yfirlit yfir 10 ungstjörnur Everton sem koma örugglega til með að ná langt. 

Comments are closed.