Chelsea vs. Everton

Þá er það Chelsea á útivelli á morgun (lau) klukkan 16:30.

Chelsea hafa verið á mikilli siglingu á tímabilinu; hafa unnið 9 af síðustu 10 leikjum á heimavelli (eitt jafntefli). Þeim hefur þó ekki tekist að halda hreinu í síðustu fimm heimaleikjum á tímabilinu þannig að vonandi bara að við náum að nýta okkur það. Við hins vegar erum í sömu stöðu því við höfum ekki haldið hreinu í ansi langan tíma (fyrir utan Blackburn leikinn). Það er því ekki ólíklegt að þetta verði fjörugur leikur.

Moyes virðist hafa eitthvað tak á Chelsea (alveg síðan í FA bikarúrslitunum 2009) en við höfum ekki tapað í síðustu 6 leikjum við þá (unnið 3, gert 3 jafntefli). Á síðasta tímabili gerðum við 1-1 jafntefli við þá á Stamford Bridge í deildinni (fyrir um ári síðan) og gerðum gott betur í FA bikarnum þar sem við slógum þá út á þeirra heimavelli. Við unnum þá svo eftirminnilega á Goodison Park undir lok síðasta tímabils (þar sem Beckford fór einn síns liðs upp allan völlinn, sólaði hálft Chelsea liðið í leiðinni og skoraði). Saha hefur þó gengið manna best gegn Chelsea (9 mörk) og verður að teljast afar líklegur til að byrja leikinn.

Rodwell og Barkley léku með U21 árs landsliði Englands sem sigraði Ísland á dögunum og Barkley lék jafnframt með sama liði gegn Noregi á dögunum en Rodwell missti af þeim leik vegna meiðsla. Hann er þó líklega heill. Osman er jafnframt tæpur fyrir leikinn eftir að hafa náð sér í meiðsli í leiknum við Liverpool en verður metinn á leikdag ásamt Cahill sem missti af landsleikjum Ástralíu. Jafnframt er Heitinga meiddur á hné (missti af landsleikjum Hollands í vikunni) og Anichebe líklega frá það sem eftir lifir árs.

Hjá Chelsea er Torres í banni og því líklegt að Drogba leiki (en hann hefur skorað 7 mörk í 9 leikjum gegn okkur). Luiz lék tvo landsleiki í vikunni og verður mögulega hvíldur en Essien er meiddur.

Vona bara að þetta verði leikur þar sem bæði lið fá það sem þau eiga skilið en ekki þriðji leikurinn í röð hjá okkur þar sem dómaramistök hafa afgerandi áhrif á leikinn.

Comments are closed.