Everton – Liverpool 0-2

Leikurinn byrjaði fjörlega eins og þessir derby leikir gera yfirleitt. Tvö skallafæri litu dagsins ljós í upphafi, fyrst Suarez í færi en ákvað að skalla boltann í jörðina en ekki á markið. Svo sýndi Cahill honum hvernig á að skalla en Pipi Reina varði boltann yfir slána. Distin (af öllum mönnum) sólaði svo tvo varnarmenn Liverpool inni í Liverpool teignum og skaut rétt yfir.

Þá var komið að furðuverki dómarans, Martin Atkinson, sem ákvað að setja mark sitt á leikinn og reka Rodwell út af fyrir eitthvað sem var ekki einu sinni brot. Stórfurðuleg ákvörðun sem allir nema allra heitustu stuðningsmenn Liverpool ráku upp stór augu yfir. Sá sem lýsti leiknum í sjónvarpi sagði að þetta væri rangur dómur og flestir voru forviða, til dæmis þessi ágæta kona. Því miður varð þetta til þess að eyðileggja leikinn algjörlega. 

Eins og sjá má á þessari mynd er Rodwell langt á undan í boltann, og fer ekki leikmanninn, en þess má geta að takkarnir á skó Rodwell fóru af boltanum í jörðina og Suarez hleypur svo á löppina á honum eftir að Rodwell hefur stigið niður og fóturinn á leið upp aftur (Rodwell því enn með takkana niður). Það getur ekki verið vont að hlaupa á skó sem er á uppleið, en Suarez veltist samt um á vellinum eins og leikskólakrakki sem er ósáttur við að fá ekki plástur á sárið. Óskiljanlegt rautt spjald.

Liverpool tókst þó ekki að nýta sér liðsmuninn í fyrri hálfleik og lengi vel leit svo út sem 10 leikmenn Everton höfðu meira en í fullu tré við Liverpool. Meira að segja þegar Jagielka gaf vítaspyrnu tókst þeim ekki nýta sér það. Kyut tók fína spyrnu niðri í hægra hornið en Howard vissi nákvæmlega hvað hann ætlaði að gera og varði hana í horn.

Fyrir utan eitt skot frá Adam, þá virtist Liverpool liðið andlaust og ekki líklegir til að nýta sér liðsmuninn. Þangað til Carroll, sem hafði nánast verið farþegi í leiknum upp að því marki (og eftir markið), tók upp á því að leka einu inn á 70. mínútu eftir flotta fyrirgjöf. Suarez nýtti sér svo misskilning milli Distin og Baines á 82. mínútu og skoraði fram hjá Howard.

Ég skil svo sem að það sé erfitt að spila einum færri í 50 mínútur í blússandi hita, en við getum sjálfum okkur um kennt því það voru varnarmistök sem reyndust dýrkeypt. Ég held þó að ef dómarinn hefði ekki gert afdrífarík mistök með rauða spjaldinu hefði útkoman verið allt önnur, eins og Kenny Dalglish sagði eftir leikinn.

Einkunnir Sky Sports: Howard 8, Jagielka 5, Coleman 5, Hibbert 6, Distin 6, Baines 5, Osman 6, Rodwell 5, Cahill 7, Fellaini 6, Saha 7. Varamenn: Drenthe 7, Neville 5, Vellios 5.

Hægt er að sjá helstu leikatriði hér (þangað til það verður tekið niður).

Comments are closed.