Everton vs. Liverpool

Áður en lengra er haldið er rétt að ítreka að aðalfundurinn sem átti að fara fram fyrir leikinn hefur verið frestað um líklega tvær vikur.

 

En þá að leiknum. Beðið er með mikilli eftirvæntingu á hverju ári eftir þessum derby leik við Liverpool, í þetta skipti á Goodison Park á morgun kl. 11:45. Við tókum 4 stig af þeim á síðasta tímabili, fyrst með 2-0 sigri heima með mörkum frá Cahill í fyrri hálfleik og Arteta í þeim síðari. Síðari leikurinn fór 2-2, þar sem við lentum undir 1-0 í hálfleik en snerum leiknum við með mörkum frá Beckford og Distin (og Liverpool krækti í víti).

Við höfum ekki tapað nema einu sinni á heimavelli í síðustu 14 leikjum (tapið kom í upphafsleik tímabilisins) en Liverpool hefur annars gengið ágætlega í þessum derby leikjum, unnið 3 af síðustu 4 deildarleikjum á Goodison Park. Á heildina litið á Goodison Park er þetta 38% : 27% : 35% (SJT) þannig að það er ekkert gefið í þessum efnum á morgun, eins og þekkt er. Liverpool hafa aðeins unnið 2 af síðustu 7 á útivelli en við, aftur á móti, höfum ekki tapað tveimur leikjum í röð í næstum tvö ár.

Everton hefur vinninginn þegar kemur að reynslu af derby leikjum (líklegt byrjunarlið allt með minnst 1 leik, Jagielka með 8 til dæmis og Howard með 13), en þessir leikir eru nokkuð sérstakir og reynslan kemur til með að vega þungt. Hjá Liverpool, aftur á móti, eru margir leikmenn að leika sinn fyrsta derby leik. Tim Cahill er markahæstur (eftir stríð) í derby leikjunum gegn Liverpool með 5 mörk og aðeins Dixie Dean sem skákar því. Cahill hefur þó ekki skorað á árinu en hann er yfirleitt Liverpool þyrnir í síðu og aldrei að vita nema hann setji inn fyrsta mark sitt á tímabilinu. Á mynd má einmitt sjá Cahill, sem er líklega að fagna enn einu sjálfsmarki Jamie Carragher.

Anichebe er sá eini sem er fjarverandi hjá okkur því líklega er Cahill búinn að jafna sig af ljótri tæklingu Man City leikmanns frá því um síðustu helgi. Hjá Liverpool er Gerrard að vinna sig inn í liðið eftir langvarandi meiðsli en Agger og Johnson líklega báðir fjarri góðu gamni. 

David Moyes verður, með leiknum á morgun, einn af aðeins þremur stjórum sem hefur stýrt liði í derby leiknum 10 tímabil í röð (hinir eru Harry Catterick fyrir okkur og Bill Shankly fyrir Liverpool).

Ætlunin er að mæta á Völlinn, Grensásvegi 5, og styðja okkar menn. Endilega látið sem flest sjá ykkur. Plús í kladdann fyrir að mæta í viðeigandi treyju. 🙂

Í öðrum fréttum er það helst að Distin (34 ára í desember) er með lausan samning eftir tímabilið og sagt er að hann vilji 2ja ára samning en hafi bara verið boðið 1 ár (hann reyndar sagði það síðar ekki vera rétt). Varnarmaðurinn Luke Garbott (19 ára) fór svo til Cheltenham að láni til að öðlast reynslu og var skrifað undir 1 mánuð til að byrja með. Einnig framlengdi Scunthorpe lán á öðrum varnarmanni, Shane Duffy (20 ára) um mánuð í viðbót.

Jafnframt voru Rodwell og Barkley kallaðir upp í U21-árs lið Englands.

Comments are closed.