Manchester City vs. Everton

Nú fer í hönd erfitt tímabil í deildinni þar sem saman raðast leikir við Man C (úti), Liverpool (heima), Chelsea (úti), Fulham (úti) og svo Man U (heima). Markmiðið var að reyna að raða inn stigum fyrir þetta tímabil, sem hefur gengið ágætlega (taplausir í síðustu þremur í deild og í fimm leikjum ef bikarinn er talinn með, aðeins eitt jafntefli við Aston Villa skyggði á árangurinn). Það er ótrúlegt til þess að hugsa, miðað við undanfarin tímabil, að ef (og það er stórt ef) fyrsti leikurinn við Tottenham hefði unnist, en ekki verið frestað vegna óeirða, þá værum við í þriðja sæti deildarinnar.

En þá að leiknum við Manchester City. Við erum með einn besta árangur nokkurs liðs undanfarin ár gegn City en skv. BBC vorum við síðasta liðið til að vinna þá á þeirra heimavelli, síðasta liðið til að vinna þá á eigin heimavelli, eina liðið til að vinna þá tvöfalt á síðasta tímabili og höfum unnið þá 7 sinnum í síðustu 8 leikjum. Það er eitthvað við ríkisbubbana í City (og reyndar Chelsea líka) sem gerir það að verkum að litla peningalausa Everton-liðið sýnir alltaf sínar bestu hliðar þegar við mætum þessum liðum. Tim Cahill hefur jafnframt skorað fyrst í 3 af síðustu 4 leikjum gegn þeim (en hann á einmitt enn eftir að skora mark fyrir Everton á árinu). Vonandi brýtur hann ísinn gegn City. Mancini er mikið í mun að létta álögunum en hann lét hafa það eftir sér að hann vildi helst vera laus við að spila þennan leik og að Everton væri eitt af bestu liðunum í Úrvalsdeildinni sem berðist hverja einustu af mínútu leiksins og gott betur. 

Þetta verður þó mjög erfiður leikur og sagan hefur lítið að segja því lið Manchester City er þó nokkuð breytt frá fyrri árum og þeir búnir að vera á mikilli siglingu í deildinni.

Einu meiðslin í okkar herbúðum eru hjá Anichebe, en ekki er víst hvort Saha taki þátt þar sem hann hefur ekki verið í hópnum undanfarna leiki. Hjá City eru de Jong (og kannski Milner líka) meiddir og talið var að Hargreaves myndi líklega ekki taka þátt, þrátt fyrir að hafa skorað í bikarnum, enda að koma aftur eftir langvarandi meiðsli.

Í öðrum fréttum er það helst að Howard var valinn leikmaður ágústmánaðar hjá Everton eftir að hafa meðal annars varið víti á móti Blackburn á útivelli sem (ásamt víti okkar í lokin) tryggði okkur fyrsta sigurinn á tímabilinu í deildinni.

Framherjinn ungi, Jose Baxter (19 ára), hefur verið lánaður til Tranmere í einn mánuð til að öðlast leikreynslu og fylgir þar með í fótspor manna eins og Coleman, sem fór eins og kunnugt er til Blackpool fyrir síðasta tímabil og hjálpaði þeim upp um deild. Hann kom svo aftur og sló í gegn á hægri kantinum á síðasta tímabili. Vonandi gerir þetta Baxter líka jafn gott en þjálfari Tranmere sagði að hann vildi nýta hann í "holunni" bak við fremsta mann.

Everton hefur jafnframt samið við markmanninn Marcus Hahnemann (39 ára), en hann var með lausan samning. Samningurinn sem hann skrifaði undir er fram að nýju ári og er ætlað að veita Mucha samkeppni um stöðu í aðalliðinu og leysa af ef um meiðsli er að ræða en Ian Turner fór eins og kunnugt er í júlí til Preston. Hahnemann er öllum hnútum kunnugur í úrvalsdeildinni eftir að hafa spilað með Reading og síðar Wolves, en hann hjálpaði síðarnefnda liðinu að forðast fall og var hann við þá iðju metinn sem "besti markvörður í heimi", skv. Castrol flokkunarkerfinu

Í öðrum fréttum er það helst að Vellios-i finnst rigningin góð… 8)

Comments are closed.