Everton vs. Wigan

Everton tekur á móti Wigan á heimavelli á morgun (lau) klukkan 14:00. Við erum með nær fullskipað lið fyrir leikinn, fyrir utan Anichebe. Coleman var mjög frískur á kantinum í óvæntri endurkomu í síðasta leik (gegn Aston Villa) og sagt er að Saha sé heill líka sem og Heitinga sem hefur verið að glíma við meiðsli á kálfa. Gueye er líka heill á ný eftir tábrot en hann spilaði í leik varaliðsins gegn Aston Villa og lagði upp bæði mörkin í 2-1 sigri, fyrst fyrir Barkley og svo fyrir Royston Drenthe. Það verður því fróðlegt að sjá hvernig uppstillingin verður því allir sem rætt var við í vikunni voru svekktir yfir að hafa misst niður unnin leik og eru greinilega hungraðir í að bæta um betur eftir leikinn við Aston Villa. Ekki er ólíklegt að nýliðarnir tveir (Straqualursi og Drenthe) verði sparaðir, allavega svona til að byrja með. Hjá Wigan er Alcaraz meiddur en Gohouri og McCarthy tæpir.

Wigan er, sem kunnugt er, liðið sem Baines (á mynd) spilaði fyrir en það eru um 6 ár síðan hann lék með þeim gegn Everton í eina sigurleik Wigan á Goodison Park. Á heimavelli er árangur okkar 4:2:1 (Sigrar:J:T) en í heildina 7:4:2. Við erum taplausir í síðustu 5 leikjum á móti Wigan, höfum ekki tapað leik síðan fyrsta leik tímabilsins sem er eina tapið á heimavelli síðan í nóvember á síðasta ári. Wigan hefur jafnframt ekki unnið leik á útivelli á tímabilinu (og reyndar einnig ekki náð að skora á útivelli heldur) og duttu út úr Carling bikarkeppninni í vikunni. Þeir töpuðu fyrir Manchester City 3-0 í síðustu viku.

Þetta verður örugglega fjörugur leikur og það er eins gott að þið missið ekki af allavega síðari hluta leiksins, því 90% af mörkum Everton hafa á tímabilinu verið skoruð í seinni hálfleik (eina undantekningin er mark Osman á móti Aston Villa).

Comments are closed.