Everton vs. Sheffield Utd

 

Fyrsti bikarleikur tímabilsins hefst á Goodison Park á morgun (mið) kl. 19:00 þegar Everton tekur á móti Sheffield United í 2. umferð Carling bikarkeppninnar. Þetta er sérstakur leikur fyrir Jagielka en hann spilaði 289 leiki með Sheffield United (sjá mynd), sem væru nú í efsta sæti 3. deildarinnar (League "One") eftir 4 leiki ef markatalan væri þeim uþb. þremur mörkum hagstæðari. Þeir fengu nýjan þjálfara undir lok síðasta tímabils (þegar þeir féllu úr 2. deildinni) og síðan hann byrjaði hafa þeir ekki tapað leik í fimm leikjum í röð. 

Fjarverulistinn hjá okkur lengdist nokkuð eftir leikinn við QPR á dögunum en Saha er ekki leikfær, Cahill er að jafna sig eftir pest, Beckford tognaði á hné í síðasta leik (þeir tveir síðarnefndu verða báðir metnir á leikdag), Bily er í banni og Coleman og Gueye meiddir (Coleman á ökkla og Gueye tábrotinn). Hjá Sheffield Utd er Ryan Flynn mögulega meiddur. Því má leiða líkum að því að fleiri ungliðar en venjulega fái að spreyta sig í leiknum.

Það eru níu ár síðan Sheffield United sló út úrvalsdeildarlið og leikmenn Everton verða staðráðnir í að komast á sigurbrautina eftir að hafa tapað upphafsleiknum á tímabilinu. Það eru um 5 ár síðan við spiluðum við þá síðast (í Úrvalsdeildinni), og unnum við þá 2-0 á heimavelli og gerðum 1-1 jafntefli á útivelli. Að jafnaði á heimavelli er tölfræðin 59% : 14% : 27% (Everton sigrar : jafntefli : töp) í 64 leikjum. Þó er rétt að benda á það að litlu liðin vilja oft standa í okkur þannig að það er aldrei að vita hvernig þetta fer.

En þá að leikmannamálum en Neville framlengdi samning sinn við Everton um 1 ár eða til loka 2012/13 tímabilsins. Moyes hefur jafnframt sagt að þegar Neville leggur skóna á hilluna standi honum til boða staða í þjálfarateyminu.

Comments are closed.