Tímabilið að hefjast

Nú er tímabilið að hefjast og því ekki úr vegi að renna yfir hvað hefur gerst í sumar.

Mjög rólegt hefur verið á leikmannamarkaði í sumar enda Moyes vandlátur þegar kemur að leikmannakaupum; fjárfestir eingöngu þegar hann telur að kaupin styrki liðið — svo framarlega sem nægilegt klink finnst í sófanum. 🙂 Nokkuð hefur borið á örvætingu af þessum sökum en rétt að benda á að Everton stendur sig yfirleitt best þegar væntingar til liðsins eru litlar og í forgangi hefur verið að tryggja langtímasamninga við kjölfestuna í liðinu, sem sér fyrir endann á. Þess má jafnframt geta að þetta er eiginlega nákvæmlega sama liðið og Ferguson spáði mjög góðu gengi á síðasta tímabili (Alex, ekki Duncan).

Everton spilaði 6 leiki á undirbúningstímabilinu. Fyrsti leikur var við Bury (unnum 1-4: Yakubu, Gueye 2, Osman) áður en flogið var inn í hitabylgjuna í Bandaríkjunum. Næsti leikur var við Philadelphia Union (0-1 tap), svo DC United (1-3 sigur: Anichebe, Bilyaletdinov, Gueye). Svo aftur á heimaslóðir til Birmingham (1-2 sigur: Baines, Saha) og svo til Þýskalands þar sem við lékum við Werder Bremen (1-0 tap) og að lokum Villareal heima (0-1 tap). Ef bara er horft á úrslitin var þetta misjafnt, en það má einnig lesa margt jákvætt út úr þessu. Til dæmis að Fellaini virðist heill á ný og Saha sömuleiðis og er byrjaður að skora aftur. Gott að fá þá aftur. Jafnframt voru Jagielka og Baines traustir sem fyrr og ekki má gleyma Ross Barkley, ungliðanum, sem var eldheitur á undirbúningstímabilinu og kom sterkur inn en gárungar vilja meina að hann sé eins og óskilgetið barn Wayne Rooney og Paul Scholes. 🙂

Það setti reyndar svartan blett á undirbúningstímabilið að Coleman meiddist í ljótri tæklingu eins leikmanns Villareal. Honum tókst ekki að brjóta á honum fótinn, sem betur fer, en meiðslin eru nógu alvarleg til að Coleman sé frá í margar vikur (jafnvel mánuðum saman). Skarð fyrir skildi þar sem og hjá Arteta sem er enn að glíma við meiðsli.

En þá að úrvalsdeildinni. Það ætti ekki að koma neinum á óvart (nema þeim sem hafa tekið sér fasta búsetu undir grjóti) að upphafsleik Tottenham og Everton á tímabilinu var frestað um óákveðinn tíma vegna óeirða sem hófust í London — og virðast reyndar vera að breiðast út um gjörvalla Evrópu. Í staðinn leikur Everton vináttuleik við "Le" Bohemians í Dublin, Írlandi á mánudaginn kl. 18:45. Fyrsti leikur Everton í úrvalsdeildinni er því ekki fyrr en þann 20sta, kl. 14:00 þegar við tökum á móti nýliðunum Queens Park Rangers á Goodison Park. Biðin er búin að vera löng og lengdist aðeins við þetta en kannski er frestun lausnin á vandræðum Everton í upphafi hvers tímabils. Hvur veit? 🙂

Jafnframt var dregið í 2. umferð Carling Cup og fengum við heimaleik gegn Sheffield United, þann 24 ágúst kl. 19:00.

 

Comments are closed.