John Lundstram og Tyuas Browning semja

Það er ýmislegt búið að gerast í leikmannamálum undanfarna daga, þó að ekki hafi neinar stórfréttir komið fram. Moyes bað menn um að sýna biðlund og hafa í huga að margar vangaveltur um væntanleg kaup og sölur væru ekki á rökum reistar. Það er þó greinilegt að menn eru á fullu að fara yfir samningamál hjá ungliðunum, eins og fram hefur komið (hér á Everton.is) þegar tilkynnt var að James Wallace og Aristote Nsiala hefðu skrifað undir samninga.

Fréttir herma einnig að Tyias Browning og John Lundstram hafi báðir skrifað undir 2 ára atvinnumannasamning á dögunum en þeir áttu stóran þátt í að vinna Englandsmeistaratitil með U18 ára liði Everton. John Lundstram er 17 ára miðjumaður sem hefur einnig verið að gera það gott með enska U18 landsliðinu og er gjarnan nefndur einn af betri leikmönnum í sínum aldursflokki í Evrópu. Tyias Browning, er efnilegur hægri bakvörður (17 ára) sem hefur verið hjá félaginu frá 10 ára aldri og spilaði reglulega með varaliðinu í fyrra (þá aðeins 16 ára). 

En það eru ekki allir sem koma upp úr unglingastarfinu sem fá atvinnumannasamning. Þremur leikmönnum, Hope Akpan (19), Kieran Agard (21) og Iain Turner (27) var leyft að fara frá félaginu. Markvörðurinn Turner kom frá Stirling Albion en hefur ekki fengið að spila nema 6 leiki með aðalliðinu síðustu átta árin. Hinir tveir komu upp í gegnum unglingastarfið en hafa ekki náð að vinna sig ofar en upp í varaliðið. Einnig sömdu Fulham við Tom Donegan, 18 ára miðjumann sem Everton lét frá sér fara á dögunum. Þetta var staðfest af heimasíðu Fulham.

Af sölum má nefna óstaðfestar fréttir af því að Joseph Yobo sé á leiðinni til Fenerbache fyrir £3.1M og Demba Ba nefndur í staðinn. Einnig var Norwich sagt hafa boðið £3.5M í Osman en því verið hafnað strax.

Af öðrum orðrómum (sumir endurteknir) má nefna: Pablo Barrera, 23 ára kantmaður West Ham, var orðaður við liðið sem lánsmaður. Einnig Darron Gibson og Marc Albrighton (hjá Manchester United og Aston Villa). Bruno Ecuele Manga (22 ára miðvörður hjá Lorient). Guy Mussi (26 ára miðjumaður hjá Nottingham Forest) er með lausan samning. Og að lokum var sagt að Miroslav Klose (sóknarmaður Bayern Munchen) yrði boðinn tveggja ára samningur hjá Everton. Allt saman náttúrulega óstaðfestar fréttir og væntanlega í einhverjum tilfellum einungis um hugaróra að ræða.

Comments are closed.